Mætt í slaginn Pálína Guðlaugsdóttir er mætt til leiks á ný með Keflavík eftir að hafa eignast frumburðinn á síðasta ári. Hér er Pálína í baráttunni gegn Margréti Köru Sturludóttur leikmann KR í DHL-höllinni.
Mætt í slaginn Pálína Guðlaugsdóttir er mætt til leiks á ný með Keflavík eftir að hafa eignast frumburðinn á síðasta ári. Hér er Pálína í baráttunni gegn Margréti Köru Sturludóttur leikmann KR í DHL-höllinni. — Morgunblaðið/Ómar
KEFLAVÍK varð í gærkvöldi fyrst liða til þess að leggja bikarmeistara KR að velli í Iceland Express-deildinni í körfuknattleik kvenna á þessari leiktíð.

KEFLAVÍK varð í gærkvöldi fyrst liða til þess að leggja bikarmeistara KR að velli í Iceland Express-deildinni í körfuknattleik kvenna á þessari leiktíð. KR hafði unnið 14 fyrstu leiki sína í deildinni þegar liðið fékk Keflavík í heimsókn í DHL-höllina og tapaði, 64:68, eftir mjög spennandi leik. Var þetta fyrsti leikur liðanna eftir að deildinni var skipt upp í A- og B-deildir.

„KR er ekki lengur ósigrandi. Hamar hafði reyndar sýnt það í bikarnum og við erum núna búnar að sýna það í deildinni að þær eru ekki ósigrandi,“ sagði Bryndís Guðmundsdóttir í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum. Hún lék afar vel fyrir Keflavík; skoraði 17 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Bryndís sagði Keflavíkurkonur hafa lagt aðaláherslu á vörnina. „Það var aðalatriðið að spila góða vörn. Við hjálpuðumst allar að í vörninni og baráttan var góð. Við ætluðum að ýta þeim frá körfunni en það gekk ekki alveg nógu vel í fyrri hálfleik. Við lékum vel gegn Haukum og Hamri og mér fannst þessi frammistaða vera eðlilegt framhald af þeim leikjum,“ bætti Bryndís við.

KR hafði frumkvæðið lengi vel í leiknum og Signý Hermannsdóttir lék virkilega vel í fyrri hálfleik. Keflavík var hins vegar aldrei langt undan og náði sjö stiga forskoti undir lok leiksins sem liðið lét ekki af hendi og leikmenn þess fögnuðu gríðarlega í leikslok.

KR – Keflavík 64:68

DHL-höllin, úrvalsdeild kvenna, Iceland Express-deildin, miðv. 27. janúar 2010.

Gangur leiksins : 6:2, 18:9, 20:13, 24:20, 33:31, 37:37, 51:50, 58:59, 61:61, 61:67, 64:68 .

Stig KR : Signý Hermannsdóttir 22, Margrét Kara Sturludóttir 14, Unnur Tara Jónsdóttir 12, Jean Pfeiffer Finora 7, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 4, Helga Einarsdóttir 2, Hildur Sigurðardóttir 2, Jóhanna Sveinsdóttir 1.

Fráköst : 29 í vörn – 17 í sókn.

Stig Keflavíkur : Birna Valgarðsdóttir 19, Bryndís Guðmundsdóttir 17, Kristi Smith 16, Rannveig Randversdóttir 6, Pálína Gunnlaugsdóttir 4, Brynhildur Jónsdóttir 3, Svava Stefánsdóttir 2, Halldóra Andrésdóttir 1.

Fráköst : 21 í vörn – 8 í sókn.

Villur : KR 16 – Keflavík 15.

Dómarar : Einar Þór Skarphéðinsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.

kris@mbl.is