Fullt Bubbi spilaði í FB í gær og eins og sjá má var salurinn sneisafullur.
Fullt Bubbi spilaði í FB í gær og eins og sjá má var salurinn sneisafullur. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is BUBBI Morthens fagnar þrjátíu ára útgáfuafmæli í ár en það var árið 1980 sem fyrsta sólóplata hans, Ísbjarnarblús , kom út.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

BUBBI Morthens fagnar þrjátíu ára útgáfuafmæli í ár en það var árið 1980 sem fyrsta sólóplata hans, Ísbjarnarblús , kom út. Í tilefni þessara merku tímamóta hefur Bubbi ákveðið að fara aftur í ræturnar og heimsækja mennta-, framhalds- og háskóla um allt land. Þar mun hann koma fram í hádeginu með kassagítarinn og spila nokkur lög af ferli sínum. Hádegistónleikaröðin hefur hlotið nafnið Rætur og vísar beint í tilgang ferðarinnar, þ.e.a.s. að fara aftur í ræturnar.

Hvað skiptir máli?

„Það fara næstu þrír mánuðir í þetta,“ segir Bubbi vígreifur. „Fimm dagar í viku. Svona ákvað ég að fagna útgáfuafmælinu, m.a., en fleiri viðburðir því tengdir eru svo í farvatninu. Ég vildi frekar gera þetta en fara í Laugar-dalshöllina sem hefði kannski legið beint við. Eins og nafnið á röðinni gefur til kynna er ég að fara í ræturnar, svona byrjaði þetta allt saman. Ég ákvað að rifja það upp um hvað þetta snýst nú allt saman, leika lög sem segja eitthvað, hafa boðskap. En ég hef reyndar ekki langan tíma að spila úr, ég treð upp í hádegishléinu.“

Bubbi þræddi skólana á líkan hátt á sokkabandsárunum, nokkuð sem hann segir hafa skipt gríðarlegu máli.

„Þarna eru tengslin við kvikuna og grasrótina. Í dag er eflaust slatti af krökkum sem hefur ekki séð mig á tónleikum og veit ekki hversu góður ég er. Ég og gítarinn erum eins og herdeild.“

Blaðamaður kímir í gegnum símann en Bubba er fúlasta alvara.

Heildarmyndin

„Án gríns. Þetta er enginn gorgeir, ég lít á þetta sem staðreynd. Ég er einfaldlega góður í því sem ég geri. Lögin sem ég er svo að spila byggjast á gömlum grunni blús- og þjóðlaga; ég tek t.d. lag eftir Robert Johnson og svo eitthvað af kunnum lögum eftir mig líka.“

Bubbi segist hafa verið spurður að því hvernig hann tími þessu, að halda ókeypis tónleika, og hvort það sé ekki óheyrilegur kostnaður við þetta. Hann segir að þeir sem þannig tali sjái ekki heildarmyndina.

„Þetta snýst ekki alltaf um aðgangseyrinn, þetta snýst um stærri hluti. Ferill minn byggist á því að fólk hefur í gegnum tíðina komið og hlustað á mig.

Í upphafi lék ég í öllum plássum landsins fyrir lítinn sem engan pening en með því var ég um leið að byggja upp fyrir framtíðina.“

Dagskráin framundan

28. jan. Borgarholtsskóli

29. jan. Verzlunarskólinn

3. feb. Fjölbraut Garðabæ

4. feb. Iðnskólinn Hafnarfirði

5. feb. Menntaskólinn Hamrahlíð

8. feb. Fjölbrautaskólinn Ármúla

9. feb. Tækniskólinn

10. feb. Listaháskólinn

11. feb.Háskólinn í Reykjavík

15. feb. Fjölbraut Sauðárkróki

16. feb. Verkmenntaskólinn Akureyri

17. feb. Menntaskólinn Akureyri

18. feb. Menntaskólinn Egilsstöðum

19. feb. Verkmenntaskólinn Neskaupstað

22. feb. Bifröst

23. feb. Hvanneyri

24. feb. Fjölbraut Akranesi

25. feb. Fjölbraut Suðurnesja

26. feb. Fjölbraut Suðurlands

2. mars Menntaskólinn Ísafirði

3. mars Menntaskólinn Hornafirði

4. mars Menntaskólinn Laugarvatni

8. mars Menntaskólinn Hraðbraut

9. mars Menntaskólinn í Reykjavík