Dagný Valgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 31. janúar 1924. Hún lést á Landakotsspítala 22. janúar 2010. Foreldrar hennar voru hjónin Valgeir Björnsson, f. 9. september 1894, d. 16. júní 1983, og Eva Björnsson, f. Borgen í Christiania (Osló), Noregi, þann 12. júlí 1898, d. 3. júní 1984. Dagný var elst fjögurra systkina, sem eru: 1) Björg, f. 12. maí 1925. Maður hennar var Eggert Kristjánsson, f. 16. mars 1922, d. 11. desember 1974. Sambýlismaður hennar er Skúli Norðdahl, f. 29. júní 1924; 2) Hallvarður, f. 11. nóvember 1926, d. 24. ágúst 1991. Fyrri kona hans var Rannveig Tryggvadóttir, f. 25. nóvember 1926. Börn þeirra eru Valgeir, Eva, Herdís, Rannveig og Tryggvi. Seinni kona hans var Gunnhildur Ásta Baldvinsdóttir, f. 29. september 1925, d. 16. ágúst 2005; 3) Björn Thomas, f. 14. september 1933. Kona hans er Stefanía Stefánsdóttir, f. 26. janúar 1935. Dætur þeirra eru Hildur, Dagný og Valgerður Helga. Dagný ólst upp í foreldrahúsum á Laufásvegi 67 í Reykjavík. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943. Veturinn '45-'46 dvaldist hún hjá ættingjum sínum í Noregi og lagði stund á listnám. Veturinn '46-'47 sótti hún húsmæðraskóla í Sorø í Danmörku. Eftir heimkomuna vann hún á Röntgendeild Landspítalans um árabil. Dagný lauk kennaranámi 1961 og kenndi við Austurbæjarskólann til starfsloka. Dagný hafði mikinn áhuga á myndlist og tónlist og sótti myndlistarsýningar og tónleika sér til yndisauka meðan heilsan leyfði. Hún tók þátt í hjálparstarfi með Kvenfélaginu Hringnum um langt árabil og studdi af einlægni ABC hjálparstarf. Útför hennar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, mánudaginn 1. febrúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Saga Dagnýjar Valgeirsdóttur er samofin sögu Austurbæjarskóla. Hún fæddist 1924, árið sem Sigurður Guðmundsson vann frumdrög nýs barnaskóla er valinn hafði verið staður á Skólavörðuholti nærri fyrirhugaðri háborg íslenskrar menningar. Faðir Dagnýjar, Valgeir Björnsson bæjarverkfræðingur, vann náið með byggingarnefnd þessa skóla er átti eftir að verða einn glæsilegasti sinnar tegundar á Norðurlöndunum. Stór ljósmynd af byggingu hans hékk í herbergi Dagnýjar heima á Laufásvegi 67. Þar ólst hún upp í faðmi fjölskyldunnar og hafði að nágrönnum valinkunna góðborgara, Ásmund biskup, Valtý Guðmundsson ritstjóra og Kristínu Jónsdóttur listmálara. Móðir Dagnýjar, Eva, var norsk.

Eftir árs dvöl í skóla Ísaks Jónssonar varð Dagný nemandi Vigdísar G. Blöndal í 4. bekk B í Austurbæjarskóla. Það var á þriðja starfsári skólans veturinn 1932-33. Sigurður Thorlacius var skólastjóri og Jón Sigurðsson yfirkennari. Í kennaraliðinu voru meðal annarra Aðalsteinn Sigmundsson og Arngrímur Kristjánsson. Allir voru þessir menn brennandi í andanum og börðust í orði og verki fyrir umbótum á skólastarfi. Eftir þá liggja fjölmargar greinar um slík málefni.

Þennan fyrsta vetur í Austurbæjarskólanum var Dagný stór eftir aldri, mældist 145 sm á hæð og vó 33.8 kg. Við vitum að hún var fjarverandi vegna veikinda í fjórtán daga en kom aðeins einu sinni of seint allan veturinn. Hún var góður og samviskusamur nemandi.

Hún kom aftur að skólanum 1961 og þá til kennslustarfa. Við minnumst hennar sem kennara sem hugsaði sérstaklega vel um nemendur sína og bar hag þeirra fyrir brjósti. Hjá henni var allt í föstum skorðum og hana vantaði sjaldan til vinnu. Hún hefur ekki orðið veik síðan ég var í níu ára bekk sagði nemandi einn kominn á gelgjuskeið og þótti nóg um stöðugleikann. En Dagný var afburða kennari og kollegum þótti gott að leita til hennar. Þar kom enginn að tómum kofanum. Hún var há og grönn, glæsileg á velli og fallega klædd, orðvör og vönduð manneskja. Hún var listunnandi, sótti tónleika og myndlistarsýningar og fylgdist vel með á menningarsviðinu.

Eftir að hún lét af störfum fyrir aldurs sakir sýndi hún skólanum ýmsa ræktarsemi og færði honum persónulegar gjafir. Þar má nefna fyrrnefnda ljósmynd en einnig vinnubækur gamalla nemenda sem skilað höfðu sérstaklega vandaðri vinnu. Þar er um gersemar að ræða. Bæði eru bækurnar afar fallegar en auk þess unnar af börnum sem sum eru orðnir þjóðkunnir einstaklingar. Hún gaf skólanum einnig gömul tímarit um skólamál með greinum eftir Sigurð Thorlacius og vopnabræður hans. Öllum sem unna sögu skólans þykir mikill fengur að þessum gjöfum. Við sem störfuðum með henni þykir einnig fengur að hafa kynnst svo vandaðri manneskju. Við vitum að við getum tekið hana til fyrirmyndar á ýmsum sviðum.

Blessuð sé minning hennar.

Fyrir hönd Austurbæjarskólans,

Guðmundur Sighvatsson og Pétur Hafþór Jónsson.