Steindór Jónsson bifvélavirki fæddist á Steinum undir Eyjafjöllum 24.9. 1908. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 16.2. 2010. Foreldrar Steindórs voru hjónin Jón Einarsson, f. 28.7. 1867, d. 21.8. 1916, og Jóhanna Magnúsdóttir, f. 29.8. 1868, d. 1.1. 1957. Systkini Steindórs, sem öll eru látin, voru Einar (1892-1994), Steinunn (1893-1893), Bergþóra (1894-1989), Magnús (1897-1927), Sigurjón (1898-1981), Guðjón (1899-1966), Guðni (1906-1957) og Guðmundur Einar (1912-1950). Steindór kvæntist Þórunni Ólafíu Benediktsdóttur, f. 24.6. 1912, d. 28.5. 1964. Þau skildu. Þau áttu fjögur börn: 1) Grímur Marinó, f. 25.5. 1933, en hann var kvæntur Rósu Jónsdóttur. Þau eiga tvö börn, Jón Þór, f. 10.1. 1965, og Grímu Sóleyju, f. 9.6. 1974. 2) Dóra, f. 28.11. 1934, gift Þorvaldi Ingólfssyni og eiga þau tvær dætur Steinunni, f. 12.12. 1954, og Ingu Hrönn, f. 21.3. 1960. 3) Hrönn, f. 26.2. 1936, d. 16.3. 1936. 4) Hrafn, f. 8.1. 1944, kvæntur Margréti Johnsen og eiga þau einn son Jón Hlöðver, f. 6.8. 1962. Steindór bjó um 7 ára skeið með Þórunni Úlfarsdóttur og syni hennar Birni Haraldi Sveinssyni. Langafabörnin eru orðin 12 og langalangafabörnin eru sex. Steindór bjó fyrstu 11 árin undir Eyjafjöllum, lengst af á Steinum. Svo fluttist hann með móður sinni til Vestmannaeyja og þar vann hann sem bílstjóri og á sumrin fór hann upp á land og vann við lagningu síma víða um landið. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1940. Þar lærði hann bifvélavirkjun og vann lengst af á bifreiðaverkstæði Landleiða. Steindór var mikill áhugamaður um jafnrétti og bræðralag og gaf atkvæði sitt öllum þeim sem unnu að því að jafna kjör í landinu og að styðja þá sem á hjálp þurftu að halda. Hann var hafsjór af fróðleik og vel heima í málefnum líðandi stundar sem og sögu lands og þjóðar. Útför Steindórs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 11. mars 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Ég var nýkominn inná hótelherbergið mitt 16.02.10 í Ghana Afríku, þegar skilaboð lágu í tölvunni minni um það að Steindór langafi hefði dáið í kvöld. Um leið streymdu fram svo margar minningar um afa, söknuður og jafnframt mikið þakklæti fyrir æfi hans sem varð meira enn 101 ár. Geri aðrir betur! Afi fæddist árið 1908 að Steinum undir Eyjafjöllum. Fyrstu ár æfi sinnar bjó hann í torfkofa og má segja að ekki margir Íslendingar  hafi upplifað þvílíka tæknibreytingu eins og afi gerði. Frá því að komast aðeins ferðar sinnar á hestum í það að þeytast um þjóðvegina á bílum eða um háloftin á þotum, þyrlum  og upplifa alla tölvuþróunina, öllu þessu varð hann vitni að.

Afi var manna fróðastur um Ísland, það var nánast ekkert um fallega landið okkar sem hann vissi ekki um, hvort sem það voru örnefni eða þjóðsögur þá vissi hann það. Hann hafði á sinni löngu æfi ferðast mikið um landið okkar og er ekki hægt að finna neinn stað sem hann hafði ekki komið á. Mér er sérstaklega ofanlega í huga allar ferðirnar sem ég fór með ömmu og afa í Skipholtinu (Dóru og Þorvaldi) ásamt foreldrum mínum í hina ýmsu sumarbústaði á landinu. Ég fékk yfirleitt að sitja í bílnum með ömmu og afa og yfirleitt kom Steindór langafi með. Í þessum ferðum sátum við afi saman í aftursæti bílsins ásamt því að lenda saman í herbergi þegar í bústaðinn var komið. Þessar ferðir voru afar lærdómsríkar fyrir mig, þar sem afi var stöðugt að kenna mér um Ísland. Það nánast brást ekki að þegar á þjóðveginn var komið og ég las af eitthverju skilti, eitthvað örnefni  eða nafn á sveitabæ, þá kom einhver saga, vísa og hafsjór af fróðleik. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við ókum að Skeiðarársandi og fjallið Lómagnúpur birtist á vinstri hönd í allri sinni mynd, þá segi ég við  afa ... sérðu afi þarna er Lómagnúpur ... Hann svaraði með ljóði  eftir Jón Helgason og þuldi Jötuninn stendur með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp, kallar hann mig, kallar hann þig, kuldaleg rödd og djúp. Sama gerðist þegar minnst varði í Dritvík á Snæfellsnesi. Hann svaraði með öðru versi og sagði.... nú er í Dritvík daufleg vist, drungalegt nesið kalda, sjást ei lengur seglin hvít  sjóndeildarhringinn tjalda. Í afa var ekki hægt að finna neitt slæmt. Hann sýndi öllum mikla góðmennsku og gerði allt til að hjálpa öðrum hvort sem það voru menn eða dýr. Man sérstaklega þegar ekið var á Trabantinn hans fyrir utan Skipholtið þar sem bíllinn stóð kyrrstæður og mannlaus. Ung stelpa sem nýlega hafði fengið bílpróf rakst aðeins utan í hann á jeppling sem var í eigu föður hennar. Trabantinn hans afa sem var að mestu úr plasti varð gjörsamlega ónýtur, en smá beygla varð á jepplingnum stelpunnar. Afi gekk til stúlkunnar tók utan um hana og sagði greyjið mitt litla, varstu að beygla bílinn þinn? En hann var ekki að hafa áhyggjur af sínum bíl sem fór langverst út úr þessu og var ónýtur, heldur fann meira til með stúlkunni sem rétt rispaði sinn bíl.

Afi sýndi mér mikin áhuga og sýndi námi mínu sérstaklega mikinn áhuga þar sem ég lærði til Þyrluflugmanns. Í hvert skipti sem við hittumst fór hann að ræða við mig um Leonard da Vinski sem gerði miklar tilraunir við að finna upp  þyrluna. Afi kallaði mig eftir þetta den Luftelephant og gladdist hann mjög yfir því þegar ég var ráðinn sem þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni haustið 2007. Mín síðasta minning af afa var þegar ég heimsótti hann í janúar þar sem ég var nýkominn heim til Íslands frá Afriku þar sem ég starfa nú við þyrluflug.  Hann kyssti mig og sagði den luft elephant. Síðan var spjallað og afi ríghélt föstum tökum í hendur mínar og strauk þeim þar sem hann vildi ekki að mér væri kalt. Þetta var sérstök stund, eins og við höfðum báðir fundið á okkur að þetta væri okkar síðasta kveðjustund í langan tíma. Við afi og mamma drógum Biblíuvers úr biblíuöskjunni sem afi hafði, og það er alveg stórkostlegt sjá hvað orð Guðs talar til okkar á svona stundum.

Elsku afi ég kveð þig með söknuði, þakklæti og gleði yfir öllu því sem þú hefur verið mér og allri fjölskyldunni. Guð hefur blessað þig með langri ævi, þú sagðir mér í janúar að þegar þú varst ungur drengur, fékkstu sjúkdóm og var þá altalað í þinni sveit að þú mundir ekki lifa lengi. En annað kom á daginn og árin urðu 101. Fyrr í vikunni las ég bók eftir Rick Warren sem segir að dauðinn sé aðeins lokin á undirbúningstímabilinu og upphafið á stærra og meira lífi sem við lifum á himnum með skapara okkar og frelsara, þess vegna samgleðst ég þér afi minn að vera komin inn í dýrðina sem engu er lík og öll við stefnum þangað. Hvíl í friði elsku afi.

Þitt barnabarnabarn,

Andri Jóhanesson og fjölskylda.

Afi var afar minnugur og fróður maður, mundi það sem hann las. Vísur og kvæði kunni hann ógrynni af, jafnt eftir þekkta menn sem óþekkta, virðuleg kvæði og svæsnar vísur. Afi þekkti landið vel og á ferðum okkar austur undir Eyjafjöll á sumrin reyndi hann að kenna mér heiti fjalla, lækja og kennileita, sagði mér sögur. Sagði mér frá fólkinu sem hann ungur sá í fjallinu þar sem fólk átti ekki að geta verið, frá álfum og draugum og frá ömmu hans sem var nokkurskonar galdrakerling. Alla tíð fylgdist hann vel með öllum fréttum og þjóðmálum, lá uppi í rúmi með blöðin, hlustaði á útvarpið og horfði á sjónvarpið og það allt á sama tíma. Mikinn áhuga hafði hann á ættfræði og fengu allir ókunnugir sömu spurninguna frá honum; ,,hvurra manna ert þú barnið mitt? og svo gat hann rakið ættir fólks langt aftur og sagt því sögur af forfeðrum þeirra. Afi var mikill jafnréttissinni, vildi að allir menn væru jafnir og öll dýr líka, ekki sízt kettir. Hann virti öll trúarbrögð en fór sjálfur alltaf í Kópavogskirkju, var í Sálarrannsóknarfélaginu og MÍR, auk þess sem hann var í Kópavogshópnum sem hann ferðaðist mikið með. Dálæti hafði hann á kenningu Darwins um þróun mannanna og mikinn áhuga á stjörnufræði. Afi var skemmtilegur maður og dáður, ekki síst af starfsfélögum sínum og á hverju ári fór hann í rútuferð með félagi bifvélavirkja, nú síðast eftir að hann varð 101 árs og að sjálfsögðu gekk bokkan á milli manna.
Mamma mín var sautján ára þegar pabbi kom með hana til afa þar sem hann bjó í ókláruðu húsi á Kársnesbrautinni. Engin húsgögn voru í húsinu utan dívans sem var í stofunni, en afi svaf á gólfinu í svefnpoka sem var götóttur þannig að fæturnir stóðu út úr pokanum, kolsvartir. Dívaninn var fyrir kettina þrettán sem hjá honum bjuggu. Á miðju stofugólfi var stærðarinnar sandhrúga (klósett) og í stórri krukku á gólfinu var lifandi mús (sjónvarp). Nöfn flestra kattanna eru týnd en hét einn þeirra Hildibrandur háloftamígur, aðrir kettir voru Kolbrandur, Hrollur og Laufpusa. Afi stofnaði meira að segja sparisjóðsbók í nafni Kolbrands sem hann rændi reglulega. Árið 1959 fluttu mamma og pabbi inn í húsið eða Uggi og Púta eins og afi kallaði þau alltaf. Afi var þá orðinn svo gigtveikur að hann gat hvorki lyft höndunum né snúið höfðinu. Afi og mamma urðu góðir vinir, spiluðu og töluðu um bækur og smám saman hjúkraði hún honum aftur til heilsu. Hún eldaði ofan í hann og skipaði honum í bað reglulega svo ekki var lengur hægt að kalla hann Steina svarta og varð hann mörgum óþekkjanlegur svona hreinn. Afi fræddi mömmu um stjórnmál og þá sérstaklega um kommúnista enda sjálfur gallharður kommúnisti og ósnúanlegur í þeim efnum. Þegar kosningableðlarnir bárust inn um lúguna skemmti hún sér hið besta við að skrifa nafnið hans á bleðlana frá íhaldinu og bæta einnig við Kæri flokksbróðir og félagi svo lá hún á hleri þegar hann fór að lesa á póstinn og hló þegar afi tautaði ergilegur óhræsis óhræsin, déllans árans, brennisteinn, Kolhreppur og Snældubeinsstaðir, þetta voru hans verstu blótsyrði. Margt fólk og hluti nefndi hann allt öðrum nöfnum en gerist og gengur, þar á meðal voru öll verkfæri. Nonni bróðir mömmu lærði bifvélavirkjun og hóf að læra hjá Landleiðum hjá afa sem kenndi honum vel en þegar hann fór að vinna með öðrum en afa lenti hann í vandræðum þar sem verkfærin hétu allt öðrum nöfnum. Því miður eru verkfæraheitin okkur glötuð utan þess að töng var gribba.
Síðustu 20 árin sem hann ók, en prófið missti hann á 93. aldursári, keyrði hann yfirleitt alltaf Trabant. Ekki gat hann samt snúið höfðinu neitt. Þegar við fórum í bíltúr hjálpaði ég til við aksturinn, er nokkur sauðaþjófur, labbakúta? spurði hann til að vita hvort nokkur bíll væri. Ef einhver svínaði á hann var sá hinn sami fjöldamorðingi og svo voru aðrir dratthalaspýtingar en það voru þeir sem keyrðu alltof hægt og gáfu svo í til að svína á aðra, hlandfroðuþeytarar voru þeir sem voru fyrir öllum og ekkert að flýta sér. Bestu vini sína kallaði hann blessaða heiðingjana en ef honum líkaði ekki við einhvern var sá hinn sami déllans ódámur en afi hallmælti engum. Við matarborðið las hann ævinlega Þjóðviljann á meðan hann borðaði. Eitt sinn er Nonni bróðir mömmu var í mat læddi mamma kartöflu og kjötbollu á diskinn í hvert sinn sem hann hvarf á bakvið blaðið. Að lokum hafði hann hesthúsað 13-14 bollum og öðru eins af kartöflum og það þrátt fyrir að vera tannlaus í neðri góm, en neðri gómnum týndi hann 63 ára. Afa fannst nú ekki taka því að vera fá sér nýjar tennur, hann færi hvort eð er að hrökkva upp af. Pabba tókst loks að fá hann til tannlæknis þegar hann var orðinn 85 ára og fá nýjar tennur sem hann notaði í meira en sextán ár.
Ég er honum þakklát fyrir allar minningarnar, allar eru þær góðar og skemmtilegar, þolinmæðina sem hann sýndi mér er hann kenndi mér að keyra Trabbann á leiðinni upp í hesthús til kýrhestanna og allan fróðleikinn og sögurnar sem hann gat endalaust þulið upp. Hvíl í friði elsku afi minn.

Þín,

Gríma Sóley.