NÝIR BÍLAR REYNSLUAKSTUR Lipur og dugmikil HONDA QUARTET HONDA hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar á Íslandi, að minnsta kosti síðustu misserin, í harðri samkeppni við aðra félaga sína frá Japan en bílar frá Honda verksmiðjunum hafa þó alltaf verið heldur...

NÝIR BÍLAR REYNSLUAKSTUR Lipur og dugmikil HONDA QUARTET

HONDA hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar á Íslandi, að minnsta kosti síðustu misserin, í harðri samkeppni við aðra félaga sína frá Japan en bílar frá Honda verksmiðjunum hafa þó alltaf verið heldur fallegir tilsýndar og liprir í meðförum. Enda hafa þeir gegnum árin átt ófáa aðdáendur hérlendis. Honda hefur ýmsar leiðir til að sækja í sig veðrið á ný þar sem nýr Accord hefur verið kynntur og er sá væntanlegur til Íslands síðar á árinu og verðið á línunni frá Hondu er heldur þokkalegt. Í dag er ætlunin að rifja upp kynni af millistærðinni, þ.e. Honda Quartet, sem er eiginlega fjögurra hurða útgáfa af Civic sem menn þekkja. Quartet er til í DX-i og LS-i útgáfum og eru einnig tvær vélarstærðir í boði. Verðbilið er nokkuð vítt eða frá 1.297 þúsund krónum uppí yfir 1.900 þúsund krónur.

Honda Quartet kom hingað til lands fyrir allnokkru en hann er sem fyrr segir nokkurs konar nafnbreyting á þeirri gerð af Civic sem er fjögurra hurða eða stallbaknum. Quartet er rúmleg fjögurra metra langur, framdrifinn og fimm manna bíll með ekki alltof miklu skottrými. Í útliti er Quartet með rennilegri bílum, lágur framendinn er ávalur, hliðarnar sléttar og felldar og afturendinn einnig ávalur svo allt er lag bílsins vel til þess fallið að kljúfa loftið auðveldlega og hljóðlega.

Setið heldur lágt

Innri svipur er einnig mjög rennilegur ef svo má að orði komast, mælaborð með bogadregnum línum og léttu yfirbragði, sætin eru fremur þunn að sjá og virka næstum ómerkileg og allt er með fremur fínlegum svip. Ökumaður og farþegar sitja fremur lágt í bílnum og má telja það einn af annars fremur fáum göllum. Vel fer hins vegar um alla og rýmið er þokkalegt.

Vélin í Honda Quartet LS-i er 1500 rúmsentimetrar, með 16 ventlum, beinni innsprautun og er hún 90 hestöfl. Þetta er ágætlega spræk vél sem á auðvelt með að knýja 950 kg þungan bílinn léttilega úr sporunum. Vélin gefur ágætt viðbragð, tekur sér sekúndubrot til að ná áttum og síðan tekur hún vel á. Í þjóðvegaakstri vinnur hún einnig vel og á þó nokkuð eftir fyrir hraðaaukningu ef á þarf að halda, til dæmis vegna skyndilegs framúraksturs. Helsti gallinn er að vélin er dálítið hávaðasöm og á það raunar líka við um vegarhljóðið, það heyrist heldur mikið inn í bílinn, jafnvel á malbiki.

Skemmtileg fjöðrun

Að öðru leyti eru aksturseiginleikar Honda Quartet skemmtilegir, bíllinn fjaðrar skemmtilega og er vel fallinn til aksturs á malarvegum þótt ekki sé sérlega hátt undir hann eða 15 cm. Hann liggur vel og er ökumaður í raun of fljótur að komast að íslenskum hraðatakmörkunum og finnst hann illa bundinn af þeim þegar nóg er eftir af afli og getu í þessum viljuga bíl. Góð og lipur fimm gíra handskiptingin á líka sinn þátt í því skemmtilega samspili að ná sem mestri snerpu úr vélinni.

Verðið á Honda Quartet DX-i er 1.297 þúsund krónur fyrir staðgreiddan bíl kominn á götuna. Þessi útgáfa er í sjálfu sér ekki með miklum staðalbúnaði, vökvastýri, samlæsingum og hita í sætum, svo eitthvað sé nefnt en fari menn í LS-i útgáfuna sem kostar nærri 300 þúsund krónum meira fást einnig rafdrifnar rúður, og speglar, útvarp og segulband og sitthvað fleira. Vilji menn enn sterkari vél stendur ES-i útgáfan til boða en hún er með 1600 rúmsentimetra og 125 hestafla vél og kostar 1.689 þúsund krónur með fimm gíra handskiptingu en 1.940 þúsund krónur með sjálfskiptingu.

Fyrir þau tæpu 1.300 þúsund sem ódýrasti bíllinn kostar fæst allgóður vagn og fullbúinn og alveg óþarft að bæta við nokkur hundruð þúsundum fyrir aukabúnað sem telja má fremur þægindi en nauðsyn. Og fyrir viðbótina fæst hvorki öflugri vél né meira rými svo hiklaust má mæla með ódýrustu útgáfunni, það er skemmtilegur bíll sem stendur undir væntingum og kröfum þrátt fyrir minni háttar ágalla.

Jóhannes Tómasson

Honda Quartet er rennilegur bíll og þokkalega rúmgóður.

Léttleikinn einkennir allan innri svip bílsins. Sætin styðja vel við bak og læri en menn sitja fremur lágt.

Mælaborð hefur skemmtilegan bogadreginn svip.

HONDA QUARTET DX-I

Í HNOTSKURN

VÉL: 1500 rúmsentimetrar, 4 strokkar, 16 ventlar, 90 hestöfl, bein innsprautun.

Fimm manna - framdrifinn.

Vökvastýri.

Samlæsingar.

LENGD: 4,4 m, breidd: 1,69 m, hæð: 1,37 m.

HJÓLHAF: 2,62 m.

STÆRÐ BENSÍNTANKS: 45 lítrar.

ÞYNGD: 950 kg.

BURÐARGETA: 550 kg.

Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km: 10,2 sek.

HÁMARKSHRAÐI: 180 km.

Sjálfstæð fjöðrun með tvöföldum örmum.

BENSÍNEYÐSLA: 8,8 l í þéttbýli, 5,6 l á 90 km jöfnum hraða.

Staðgreiðsluverð: 1.297.000 kr.

UMBOÐ: Honda á Íslandi, Reykjavík.

plúsar

Snöggur

Skemmtileg fjöðrun

mínusar

Véla- og

vegarhljóð