Tíu luku námi frá tilraunaskóla fyrir atvinnulausar konur í gær Juku sjálfstraust, þekkingu víðsýni og skemmtu sér vel TÍU konur frá 26 ára til 65 ára luku námi frá MFA-skólanum í gær.

Tíu luku námi frá tilraunaskóla fyrir atvinnulausar konur í gær Juku sjálfstraust, þekkingu víðsýni og skemmtu sér vel

TÍU konur frá 26 ára til 65 ára luku námi frá MFA-skólanum í gær. Hann var rekinn af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu í tilraunaskyni og var skólastarfið í ár ætlað atvinnulausum konum sem eiga stutta skólagöngu að baki. Markmið skólastarfsins er meðal annars að auka vald nemenda á svonefndum grunngreinum, tileinka þeim sjálfstæð og skipuleg vinnubrögð og auka sjálfstraust þeirra. Vilborg Einarsdóttir, kennari við skólann, segir að tilraunin hafi tekist vel og vonast til að framhald verði á starfinu næsta vetur. "Konurnar voru jákvæðar og áhugasamar og fróðleiksþorstinn þeirra helsta einkenni," segir Vilborg. Tvær kvennanna, Jensey Stefánsdóttir og Kolbrún Sigurðardóttir, sögðust í samtali við Morgunblaðið bæði hafa lært mikið og skemmt sér vel í skólanum.

Tuttugu og sjö umsóknir bárust um skólavist, tólf konur fengu inngöngu og tvær þurftu að hætta námi. Segir Vilborg konur með stutta skólagöngu hafa gengið fyrir við valið. Kennslan hófst 22. nóvember og var með tvennum hætti. Annars vegar var um að ræða beina kennslu í grunngreinum auk tölvunáms og hins vegar um hópvinnu og sjálfstæða vinnu í samfélagsfræðiverkefnum. "Áður en eiginleg kennsla hófst var haldið viku sjálfsstyrkingarnámskeið sem kom mjög vel út. Þær fóru á tölvunámskeið í tvær vikur og þvínæst var haldið námskeið í hópefli en námið byggist mikið upp á hópvinnu. Auk þess var farið yfir skipuleg vinnubrögð og hvernig setja á upp ritgerðir og læra heima," segir Vilborg. Áhersla var lögð á skil á skriflegum og munnlegum verkefnum. Einnig þurftu konurnar að halda fyrirlestra og segir Vilborg að þær hafi mikið til verið að kenna hver annarri. Við val á námsefni var reynt að taka tillit til hverrar og einnar en mest áhersla lögð á stafsetningu, stíl og rétt málfar. "Í enskukennslunni gekk kennslan út á að konurnar þyrðu að tjá sig á ensku þótt farið væri yfir undirstöðuatriði í málfræði. Þær lærðu einnig prósentu- og vaxtareikning og að vinna á vasareiknivél. Við reyndum að finna hagnýt atriði enda var tíminn ekki mikill," segir Vilborg. Segir hún að síðan hafi ýmislegt í stjórnkerfinu verið tekið fyrir, til dæmis skipting valdsins, starfsemi Alþingis, ráðuneytanna og löggjafans. Konurnar skoðuðu jafnframt lífeyrissjóði og tryggingar, tekjur ríkissjóðs og meðferð hins opinbera á almannafé.

Miklar framfarir

Hún segir konurnar hafa tekið ótrúlegum framförum en misjafnlega langt er síðan þær sátu síðast á skólabekk, allt frá 10 árum til 48 ára. Með þeirri ráðstöfun að hefja námið með þessum hætti mátti fyrirbyggja ýmis vandamál og auka sjálfstraust nemendanna. Konurnar útskrifast í dag og var námsmatið meðal annars með þeim hætti að þær skrifuðu greinargerð um sig sjálfar þar sem lagt var mat á kunnáttu í einstaka greinum eftir nám vetrarins. Að því búnu var einum degi varið í það láta konurnar lesa sjálfsmatið upphátt fyrir bekkjarsystur sínar. Hópnum var síðan skipt í tvennt og útkoman rædd. "Engin ofmat kunnáttu sína, tilhneigingin var frekar í hina áttina en flestar voru mjög raunsæjar í mati sínu," segir Vilborg. Hún samdi síðan meðmælabréf þar sem fram koma upplýsingar sem nýtast atvinnurekanda, til dæmis ástundun og kunnátta í námsgreinum, auk ummæli hinna nemendanna um viðkomandi, en þrjár kvennanna hafa fengið vinnu. Loks segir Vilborg að hópurinn hafi verið alveg ótrúlega námsfús. "Það var sama hvaða verkefni maður lagði fyrir þær, þær voru alveg órúlega áhugasamar. Það sem einkenndi þær mest var þorstinn í að læra meira," segir hún loks.

Full tilhlökkunar

Jensey Stefánsdóttir, sem er 65 ára, hefur verið atvinnulaus í tæp tvö ár. Hún starfaði áður á Landakoti. Jensey segir að hún hafi verið hvött til þess að sækja um skólavist og segist ekki sjá eftir því. Í fyrstu hafi hún óttast að hún þætti of fullorðin en ákveðið að láta kylfu ráða kasti. Fjörutíu og átta ár eru síðan Jensey lauk gagnfræðaprófi 17 ára og segist hún hafa verið spennt að byrja aftur. "Ég var frekar full tilhlökkunar en kvíða, ég vissi auðvitað ekkert hvað ég var að fara að takast á við. Mér finnst ég hafa lært mikið, til dæmis í sambandi við skatta og tryggingamál. Við kynntum okkur löggjafar- og dómsvaldið og þetta var auðvitað mjög spennandi en erfitt til að byrja með. Við lærðum líka óskaplega mikið hver af annarri enda var hópvinnan stór þáttur í náminu. Hún skilaði góðum árangri því við lögðum það sem við vissum í púkk og margfölduðum þannig kunnáttuna. Sjálfsstyrkingin var mjög góð og ég vildi að ég hefði kynnst þessu fyrr. Hún jók sjálfstraust og opnaði ýmsa möguleika sem maður hafði ekki hugleitt því maður var hvattur áfram." Jensey lætur einnig vel af tölvunáminu og segir að hún hafi gantast með það að hún væri að kynnast nýju leikfangi þar sem tölvan væri. "Ég hef ekki leitað mér að vinnu og býst við að það gæti reynst erfitt fyrir konu á mínum aldri en ég gæti vel hugsað mér að skaffa mér sjálf vinnu heima, enda hef ég mörg áhugamál. Ég gæti til dæmis hugsað mér að vinna eitthvað á tölvu. Mér fór fram í ensku enda var kennslan sett fram í mjög skemmtilegu formi með ýmiss konar leikjum og þrautum. Þannig hefði þetta mátt vera þegar ég var yngri," segir Jensey sem segist eiga eftir að sakna hópsins enda hafi verið mjög gaman í skólanum.

Erfitt að vera atvinnulaus

Kolbrún Sigurðardóttir er 26 ára og var búin að vera atvinnulaus í tæpa þrjá mánuði þegar hún settist á skólabekk á ný eftir 10 ára fjarveru. Kolbrún segir dýrmætast að hafa kynnst konunum í skólanum enda sé erfitt að byggja sig upp í kjölfar þess að missa vinnuna. Hún segist einnig ánægð með námið enda finnist henni hún hafa lært gagnlega hluti. "Þetta hefur styrkt mig mjög mikið og sjálfstraustið hefur aukist. Á meðan ég var atvinnulaus fannst mér ég vera undir, mér leiddist enda hentar það mér ekki að vera aðgerðarlaus. Einnig fannst mér að fólk héldi að ég nennti ekki að leita mér að vinnu," segir Kolbrún loks en hún er búin að fá vinnu á ný.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Námshestar

VILBORG Einarsdóttir lengst til hægri ásamt hluta nemenda í tilraunaskóla MFA, sem útskrifuðust í gær.

Jensey Stefánsdóttir

Kolbrún Sigurðardóttir