Tengsl Stolpe við Stasi valda áfram deilum Berlín. Frá Hrönn Marinósdóttur, fréttaritara Morgunblaðið.

Tengsl Stolpe við Stasi valda áfram deilum Berlín. Frá Hrönn Marinósdóttur, fréttaritara Morgunblaðið.

MEIRIHLUTI þingmanna í sambandsríkinu Brandenburg í austurhluta Þýskalands felldi á miðvikudag tillögu sósíalískra demókrata (PDS) um að rjúfa þing og boða til landsþingskosninga í júní. Þingmenn stjórnarandstöðunnar úr flokki kristilegra demókrata (CDU) greiddu atkvæði gegn þingrofi því að tillaga þeirra um afsögn Manfreds Stolpes, forsætisráðherra í Brandenburg, náði ekki fram að ganga á landsþinginu. Þingmenn Jafnaðarmannaflokksins (SPD) og PDS, arftakar gamla kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi, greiddu atkvæði með þingrofi en frjálslyndir (FDP) greiddu atkvæði á móti. Alls voru 49 þingmenn af 88 hlynntir þingrofstillögunni en til þurfti meirihluta eða 59 atkvæða meirihluta til að fá hana samþykkta.

Í Brandenburg ræður því áfram ríkjum minnihlutastjórn jafnaðarmanna og frjálslyndra með Manfred Stolpe í broddi fylkingar en kjörtímabilinu lýkur 11. september næstkomandi. Ásakanir um að Stolpe hafi unnið náið með öryggislögreglunni Stasi urðu þriggja flokka samsteypustjórn hans að falli hinn 22. mars síðastliðinn. Rannsóknarnefnd sú sem skipuð var af landsþinginu í Brandenburg mun halda áfram að skoða fortíð Manfreds Stolpes og tengsl hans við Stasi. Lothar Bisky, flokksmaður PDS, hefur sagt af sér formennsku í nefndinni því að hans mati er ekki hægt að komast að hlutlausri niðurstöðu þar sem kosningabaráttan er hafin. Sýnt þykir að gögn sem bárust Der Spiegel í marsmánuði séu ófölsuð en þar kom fram að Stolpe hafi verið viðstaddur fund með yfirmönnum Stasi og þegið þar heiðursorðu öryggislögreglunnar fyrir vel unnin störf. Það eykur enn frekar grundsemdir um að Stolpe hafi sagt ósatt við yfirheyrslur í fyrra. Stolpe var mjög vinsæll stjórnmálamaður í Brandenburg og samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Infas-Institut myndu um 78% íbúa sambandsríkisins kjósa hann sem forsætisráðherra í beinni kosningu. Í sömu könnun fékk SPD 47% fylgi í Brandenburg, CDU 21% og PDS 16%. Í austurhluta Þýskalands eru fimm sambandsríki og í tveimur þeirra eru forsætisráðherrar austurþýskir, Manfred Stolpe og Berndt Seite, forsætisráðerra sambandsríkisins Mecklenburg-Vorpommern. Árið 1999 er fyrirhugað að sameina Berlín og Brandenburg í eitt sambandsríki.