Sæluvika Skagfirðinga hafin Sauðárkróki.

Sæluvika Skagfirðinga hafin Sauðárkróki.

HIN árlega gleðivika Skagfirðinga, sem upphaflega var nefnd Sýslufundavika, en hin síðari ár Sæluvika, hófst síðastliðinn sunnudag með því að síðdegis voru tónleikar í sal Tónlistarskólans þar sem hin vinsæla söngkona Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur, troðfyllti sal skólans, og varð að loknu glæsilegu prógrammi að syngja mörg aukalög.

En í Safnahúsinu var opnuð sýningin Alþýðulist, en þar sýna níu skagfirskar handverks- og listakonur muni, sem framleiddir eru meðal annars úr leir, leðri, beini, ull og roði og flóka. Er sýningin mjög fjölbreytt og skemmtileg og kennir þar margra grasa og eru allir hlutirnir þar til sölu. Fjöldi gesta kom á opnun sýningarinnar og seldust mjög margir munir þegar á fyrstu klukkustundinni.

Á sunnudagskvöldið frumsýnir svo Leikfélag Sauðárkróks hinn grafalvarlega gleðileik Karlinn í kassanum, eftir Arnold og Bach, í leikstjórn Jóns O. Ormssonar, leikendur eru þrettán, en fjölmargir aðrir koma að sýningunni. Húsfyllir var og skemmtu leikhúsgestir sér hið besta.

Á mánudagskvöldi var svo kirkjukvöld í Sauðárkrókskirkju, en ræðumaður kvöldsins var Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri, en Kirkjukór Sauðárkrókskirkju söng ásamt Önnu Sigríði Helgadóttur, Jóhanni Má Jóhannssyni og Sigurdrífu Jónatansdóttur, sem sungu einsöng og tvísöng.

Karlakórinn Heimir, undir söngstjórn Stefáns R. Gíslasonar og við undirleik Tómasar Higgerson og Jóns Gíslasonar, verður með söng- og skemmtikvöld í félagsheimilinu Bifröst á þriðjudagskvöld, en með kórnum koma fram söngvararnir Pétur og Sigfús Péturssynir, Einar Halldórsson, Hjalti Jóhannsson, Jón Gíslason og Björn Sveinsson, þá verður farið með gamanmál, kveðskap, dansflokkurinn Securitas sýnir, og Harmonikuhljómsveit Skagafjarðar skemmtir gestum.

Á fimmtudaginn hefst Skákþing Norðlendinga í Safnaðarheimilinu og verður keppt í opnum flokki, kvenna-, unglinga- og barnaflokki, en skákþinginu lýkur með Hraðskákmóti Norðlendinga á sunnudeginum. Á fimmtudagskvöldið fer svo fram Dægurlagakeppni Sæluvikunnar, sem nú er endurvakin eftir nokkurra ára hlé. Þegar settur frestur var útrunninn höfðu borist mörg lög, en síðan fjallaði dómnefnd um lögin og valdi tíu úr, sem keppa svo til úrslita, og verður sigurlagið væntanlega kynningarlag fyrir Sumarsæluviku, sem áoformað er að halda á Sauðárkróki á komandi sumri.

Á föstudagskvöldi heldur Skagfirska söngsveitin undir stjórn Björgvins Þ. Valdimarssonar og við undirleik Sigurðar Marteinssonar tónleika í Íþróttahúsinu en með söngsveitinni syngja einsöng Sigrún Hjálmtýsdóttir, Óskar Pétursson og Guðmundur Sigurðsson, en síðar um kvöldið heldur Eldridansklúbburinn Hvellur dansleik með Hljómsveit Geirmundar í Bifröst, og á laugardagskvöldið verður lokadansleikur í Bifröst með hljómsveitinni Herramönnum og verður Græni salurinn opinn þeim sem vilja taka lagið, en einnig eru á laugardagskvöldið stórtónleikar í Miðgarði þar sem fjórir kórar: Karlakórinn Heimir, Rökkurkórinn, Skagfirska söngsveitin og Karlakórinn Þrestir, koma saman og er ekki oft sem boðið er upp á svo fjölbreytta og glæsilega söngdagskrá sem þarna verður gert.

Að loknum tónleikum kóranna, verður dansleikur með hljómsveit Illuga, sem sér um fjörið.

­ BB

Morgunblaðið/Björn Björnsson

Síðustu mínútur í búningsherbergi Bifrastar fyrir frumsýningu á Karlinum í kassanum.