VSÍ um húsaleigubætur Leiga mun hækka og fleiri falsa samninga HÆTT er við að fyrirhugaðar húsaleigubætur leiði til hærri húsaleigu og umtalsverðrar fjölgunar falsaðra húsaleigusamninga eftir því sem Guðni N. Aðalsteinsson, hagfræðingur VSÍ, segir.

VSÍ um húsaleigubætur Leiga mun hækka og fleiri falsa samninga

HÆTT er við að fyrirhugaðar húsaleigubætur leiði til hærri húsaleigu og umtalsverðrar fjölgunar falsaðra húsaleigusamninga eftir því sem Guðni N. Aðalsteinsson, hagfræðingur VSÍ, segir. Hann varar við að tekjutenging bóta leiði til þess að hvati til að afla tekna minnki. Ákjósanlegri leið að sama markmiði sé að gera leigutekjur skattfrjálsar. Með því móti sé stuðlað að auknu framboði á leigumarkaði og lægri leigu.

Guðni sagði, að undrun vekti að jafn stórt mál virtist vera að fara í gegnum þingið án almennrar umfjöllunar. Vanda yrði til verka enda erfitt að stíga skrefið til baka þegar bæturnar yrðu einu sinni komnar á.

"Breytingin hefur þær afleiðingar að húseigendur heimta hærri leigu til að hafa upp í skattinn eða draga húsnæðið af markaðinum sem einnig hækkar leiguverð. Þannig lenda húsaleigubæturnar í vösum leigusalans eða ríkisins í stað þeirra sem bótakerfið ætlaði að þjóna," sagði Guðni.

Falsaðir leigusamningar

Jafnframt sagði hann að grundvöllur skapaðist fyrir fjölgun falsaðra leigusamninga. Ekki skipti máli í þessu sambandi skilyrði þess efnis, að ekki mætti leigja hjá venslafólki, auðvelt yrði að leita til annarra, gera samning og fá bætur. "Bæturnar hafa væntanlega líka þær afleiðingar, að fleiri fara út á leigumarkaðinn, ungt fólk í foreldrahúsnæði fer t.d. að leita að húsnæði. Eftirspurnin eykst en það á ekki að vera tilgangur frumvarpsins," sagði Guðni.