Minnismolar frá Rúanda eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur ÞEGAR ég var í Rúanda í nokkrar vikur vorið 1989 var friður í landinu og allt með ró og spekt.

Minnismolar frá Rúanda eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur

ÞEGAR ég var í Rúanda í nokkrar vikur vorið 1989 var friður í landinu og allt með ró og spekt. Höfuðborgin Kigali kemur fyrir sjónir eins og þorp, þar er varla nokkur miðbær í okkar skilningi og langflestir bjuggu í leirkofum eða litlum timburhýsum. Ein tegund bygginga skar sig úr, það voru bankarnir, þeir hefðu þess vegna getað verið hvar sem var í heiminum. Útlendingarnir bjuggu í sérstöku hverfum og þar virtist allt til alls.

fljótu bragði man ég ekki eftir nema smáspottum sem voru malbikaðir, hvort sem var í Kígali eða úti á landinu. Moldargötur í bæjunum, malarvegir og oft hrikalegir úti um fjöllótt landið. Bílaeign er ekki mikil og mörg farartækin komin til ára sinna og ástand þeirra eftir því.

Rúanda er mörgum kunnugt vegna fjallagórillanna á Virungafjöllum. Starf Dian Fossey til verndunar þeim og athugun á lifnaðarháttum þeirra varð frægt. Ferðamenn í Rúanda halda yfirleitt norður í landið að sjá górillurnar en stoppa síðan ekki öllu lengur. "Menn vita allt um górillurnar en ekkert um okkur íbúana," sagði einn við mig og er ekki fjarri lagi.

Landið er fallegt og Rúandar er fágætlega iðjusamir. Mér fannst þeir kurteisir en fálátir og grunnt á tortryggni í garð útlendinga. Fátækt er mikil, þéttbýli úr hófi og erfiðlega hefur gengið að bæta ástandið. Ýmsar erlendar þróunarstofnanir hafa aðsetur í Kígali og þar starfar fjöldi útlendinga. Rúandar sögðust ekki sjá breytingar til batnaðar og ýmsir sögðu fullum fetum að þróunaraðstoðin virtist eintóm skriffinnska og skýrslugerð. "Þeir skrifa skýrslur, endalausar skýrslur um okkur," sagði gítarleikarinn Einmanaleiki sem ég hitti í Gisenyi. "Svo gerist ekkert meira."

Ólæsi er mikið, fólksfjölgun hamslaus og heilsugæsla klén. Þó það eigi að heita svo að börn skuli læra að lesa er misbrestur á því.

Rúanda var lengi mjög einangrað. Fram eftir síðustu öld komu þangað fáir; landið er fjöllótt og erfitt yfirferðar og íbúarnir höfðu orð á sér fyrir grimmd. Það var ástæða fyrir því að Rúandar komu lítið við sögu í þrælaversluninni í Zanzibar.

Belgar skildu landið eftir í fullkominni upplausn. Þeir héldu öllum taumum í höndum sér og við brottförina kom í ljós að það var varla nokkur maður eftir með menntun eða tæknikunnáttu eftir í landinu og stjórnkerfið var á brauðfótum.

Staða kvenna í Rúanda hefur verið bágborin og þær hafa lítt barist fyrir meiri réttindum. Stúlkur giftast snemma og eru upp frá því oftast undirokaðar af eiginmönnum sínum. Það er litið á það með velþóknun ef karl tekur sér fleiri konur. Geri konan sig seka um eitthvað sem eiginmaðurinn metur ósiðlegt má dæma hana í fangelsi. "Maður á þak yfir höfuðið og fær oftast að borða ef maður nær sér í mann. Guði sé lof." Þetta sagði ung kona við mig í Gisenyi og hún deilir þessari skoðun með miklum fjölda Rúandakvenna. Því fannst mér það gleðiefni þegar þær fréttir bárust að kona hefði verið skipuð forsætisráðherra þegar í fyrra. Hún hefur nú fallið fyrir hendi morðóðra ásamt þúsundum annarra.

Þegar maður leitar eftir skýringu á því af hverju fámennur minnihluti Tútsa hefur komist upp með það að ráða því sem hann hefur gert voru svörin auðvitað eftir því hvort maður var að tala við Húta eða Tútsa. "Þeir líta á sig sem æðri verur. Manni skilst þeir séu svona eins konar útvalin þjóð. En svo eru þetta flestir ótíndir glæpamenn og spilltir öfgamenn," sagði Húti í Kígali. "Við erum siðmenntaðri og fágaðri en Hútar, sem eru hálfgerðir villimenn," sagði Tútsi í Gisenyi. Báðir staðhæfðu þó að ættbálkarnir ættu að geta lifað saman í friði og til þess væri vilji. En illskan og heiftin sem undir kraumaði hefur snúist upp í blóðbað sem ekki sér fyrir endann á.