Oskar Schindler, 1908-´74 1.

Oskar Schindler, 1908-´74 1. Og þau lögðu stein við stein á marmarahvíta gröf þína þau sem áttu að falla úr margvígðum reykháfi Auschwitz eins og snjóflyksur úr svörtu kófi líkbrennsluofnanna meðan dauðinn valdi sér eldivið

af gamalkunnri tilviljun

og sótsvört jörðin

blygðaðist sín

fyrir dauðhreinsaðar kveðjur

af himnum.

2.

En vélbyssurnar

geltu

í höndum þeirra

og djöflar miskunnarlausra

trúboða

dönsuðu í sigurvissri

vitund

og enginn rak þá út

eins og Kristur forðum

en Lúsífer fór hugskot þeirra

hauskúpugulum

luktum

og sótsvartir þrumufleygar

brenndu sig

inní sólmyrkvaðan himin

sem skelfur

eins og Golgata

í athvarfslausum augum

undir brennsluhvítri

þögn

og þeir dönsuðu stríðsdans

og það var eina skemmtun þeirra

og þeir dönsuðu til heljar

þar sem reyklaus eldur

logar við gin blóðhundanna.

3.

Slökkvið ekki eldana

rekið ekki djöflana út

því þeir eru þáttur

af sálarlífi dýrsins

breytið ekki dansandi

byssumanni

í vængjaðan engil

eins og sálgreinir

breytið dýrinu í mann

og beizlið djöflana

eins og soltna sleðahunda

á Grænlandsjökli.

M

(meira næsta sunnudag)