ÉG HEITI... FELDÍS LILJA ÓSKARSDÓTTIR FELDÍS er ekki algengt nafn á Íslandi, en þó til. Í þjóðskrá eru skráðar tvær Feldísir.

ÉG HEITI... FELDÍS LILJA ÓSKARSDÓTTIR

FELDÍS er ekki algengt nafn á Íslandi, en þó til. Í þjóðskrá eru skráðar tvær Feldísir. Nafnið er þó ekki alveg nýtt, því ein kona bar þetta nafn 1845 og 1910 er ein kona skráð undir þessu nafni, að því er segir í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson. Þar segir að nafnið muni upphaflega sett saman af karlmannsnafninu Felix og kvennafninu Herdís.

ær tvær konur sem nú bera þetta nafn eru báðar um þrítugt, Feldís Hulda Einarsdóttir og Feldís Lilja Óskarsdóttir. Við slógum á þráðinn til Feldísar Lilju, sem er lögfræðingur og starfar við þinglýsingarnar hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Hún sagði að þær einu tvær, sem þetta nafn bera nú, séu frænkur og heiti báðar í höfuðið á ömmu hennar, sem var langamma Feldísar Huldu. Hún hét Feldís Felixdóttir frá Máskeldu í Saurbæ í Dalasýslu, fædd 1894 og þá sú sem sama sem var á skrá 1910.

Feldís segir að nafnið komi fólki á óvart, það hvái gjarnan þegar hún kynni sig í síma, heyrist hún segja Herdís eða Seldís. En þótt hún beri tvö nöfn og gæti einfaldlega notað það síðara gengur hún óbangin undir nafninu Feldís. Stundum þegar hún var yngri, gekk í Laugaskóla í Dalasýslu, þá þótti henni svolítið verra að heita þessu óvenjulega nafni. Nú kveðst hún nota bæði nöfnin jöfnum höndum, sagði hún í símann.

Feldís Lilja er 28 ára gömul. Hún segir gott að bera nafn ömmu sinnar, sem var góð kona. Hún heldur að í sinni ætt sé nafnið upphaflega samsett úr Felix og Þórdís. En slíkar samsetningar á karlmanns- og kvenmannsnöfnum eru mjög algengar í íslensku nafnakerfi. Hér áður fyrr var fólk alltaf að vitja nafns, eins og það var kallað, koma í draumi til ófrískrar konu, sem var túlkað sem svo að sá vildi fá nafn sitt endurnýjað og fært yfir á nýja barnið. Ef barnið reyndist svo ekki sama kyns, þá þurfti að gera kvenmannsnafn úr karlmannsnafni eða karlmannsnafn úr kvennafni. Eða að foreldrar vildu láta eitt barn heita í höfuðið á karlmanni og kvenmanni, afa og ömmu til dæmis, og þá voru þessi samsettu nöfn úrræðið eins og Feldís, sem í raun er ljómandi fallegt og þjált eins og önnur dísarnöfn. Bara dálítið óvenjulegt.

Morgunblaðið/Emilía

Feldís Lilja Óskarsdóttir