Höfum við gengið til góðs Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur: Á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins er gott að staldra við og hugleiða örlítið "höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg"? Jú, framfarir hafa vissulega átt sér stað hjá þjóðinni...

Höfum við gengið til góðs Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur: Á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins er gott að staldra við og hugleiða örlítið "höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg"? Jú, framfarir hafa vissulega átt sér stað hjá þjóðinni, stórkostlegar margar hverjar, en með stökkinu úr torfbæjum í tíguleg hús nútímans hefur ekki fylgt sú þjóðerniskennd og samstaða sem einkenndi marga vora forystumenn sem uppi voru á þeim tíma. Þeir menn gerðu sér glögga grein fyrir, hve samstaða var mikilvæg, málum öllum til heilla og einnig hve nauðsynlegt það var, að halda saman einni skoðun á lofti. Frumkvæði og djörfung þurfti til að þoka málum áfram, þjóðinni til velsældar. Þeir sögðu eitthvað án þess að vera spurðir og gerðu eitthvað án þess að vera beðnir. Við höfum fengið mjög mikið upp í hendurnar frá forfeðrunum. Kunnum við að meta öll þau lífsþægindi sem við eigum við að búa nú? Ég held að við gleymum stundum að þakka hversu gott við höfum það í rauninni. Við skipum okkur á bekk meðal fremstu þjóða í þeim efnum. Það er nú samt sem áður svo að því betra sem við höfum það, þeim mun óánægðari virðumst við vera.

Hefur mat okkar á gildum lífsins breyst á þessum fimmtíu árum? Getur verið að forsjálni og fyrirhyggja hafi troðist undir í lífsgæðakapphlaupinu? Manni virðist stundum vera svo, er hver veltur um annan þveran í vandamálum. Vandamál eru til þess að leysa, en til þess að glata ekki hæfileikunum til þess, þurfum við að eiga til víðsýni. Við megum ekki einskorða sjónarhorn vort við svart og hvítt, gott og vont og ekkert þar á milli. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Við lifum á öld upplýsingaflóðsins, þar sem hnettir uppi í himingeimnum halda sambandi heimshluta á milli. Það fer ekki lengur framhjá okkur hvað gerist úti í hinum stóra heimi. Frjálsræði í útvarpsrekstri hér á landi hefur fært okkur flóð af efni á silfurfati, allra handa efni, svo mikið að ég held við kunnum varla lengur að velja og hafna og metum meira magn en gæði. Við þurfum að halda vöku okkar til þess að tapa ekki tungumálinu, fyrir ofan garð og neðan. Áhersla á kunnáttu í máli voru, hvað varðar læsi, skilning og framsögn, þarf að vera ennþá meiri, alveg frá leikskóla upp í háskóla. Við foreldrar höfum þá skyldu á herðum vorum að fylgja málfari barnanna úr hlaði. Því miður virðist sem yngri kynslóðin hafi einangrast á köflum. Það er að segja ræði ekki við aðra en sína jafnaldra. Það kunna ef til vill að finnast skýringar á því með leitun í fjölskyldumynstrið. Æ fleiri börn búa nú ein með öðru foreldri, sem vinnur þá jafnvel úti allan daginn. Því er tími samveru og samskipta lítill og erilsamur. Fjölskyldan, hver er staða hennar í nútíma samfélagi? Ég held að hún sé veik. Það er ekki búið að hjónabandinu sem stofnun, hvorki fjárhagslega né félagslega. Jafnréttisbarátta kvenna hefur mótað svör samfélagsins undanfarinn áratug. Margt hefur áunnist af sjálfsögðum réttindum konum til halda, en því miður vilja hlutir oft snúast í öndverðu sína, heift og þröngsýni. Áróður kvenna byggist oftar en ekki á óuppfylltum væntingum til karla, síðan kemur málefnaleg umfjöllun. Þar sem áróður fyrir gildi fjölskyldunnar í samfélaginu hefur ekki verið hafinn til vegs og virðingar á sama tíma, er ekki furða að upplausn hjónabanda hafi átt sér stað. Umræða og áróður mótar vort samfélag á hverjum tíma.

Nú á ári fjölskyldunnar þarf að halda á lofti upplýsingum um það, hversu miklu ríkari börnin okkar eru, að fá að alast upp í öryggi sem felst í því að hafa foreldra sína báða, hvorn til sinnar handar, svo ekki sé talað um eitt heimili. Þessi stóri þáttur getur verið grunnur að því að fá að njóta sín seinna meir sem fullgildur þjóðfélagsþegn.

Setjum hina íslensku fjölskyldu í öndvegi á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins, ekki eingöngu í nefndum og ráðum hér og þar, heldur líka í hugum vorum.

Með því fáum við farmiða inn í framtíðina.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

Látraströnd 5,

Seltjarnarnesi.