Minning Soffía Smith Fædd 23. október 1919 Dáin 9. apríl 1994 Elskuleg frænka mín er látin eftir erfið veikindi og langar mig að minnast hennar hér. Soffía, eða Soffa frænka eins og ég kallaði hana, var stórbrotin persóna. Hún var ætíð hrókur alls fagnaðar og sannkallaður leikari af guðs náð. Það var sama hvar hún kom, alls staðar kom hún fólki í gott skap með glaðværð sinni.

Soffa var framúrskarandi myndarleg húsmóðir og sannkallaður höfðingi heim að sækja. Hún gat töfrað fram veisluborð að því virtist án nokkurrar fyrirhafnar. Alltaf var hún boðin og búin að aðstoða þá sem til hennar leituðu og ófáar voru kransakökurnar hennar á veisluborðum vina og ættingja.

Ung giftist Soffa Gunnari Smith og eignaðist með honum fjóra drengi. Þeirra elstur er Karl Gústaf, þá Örn, Gunnar og Hilmar. Hafa þeir reynst móður sinni afar vel í veikindum hennar. Þá má ekki gleyma tengdadætrunum sem reyndust henni alla tíð eins og bestu dætur.

Hjónaband þeirra Gunnars var afar farsælt. Þau voru á margan hátt mjög ólík, hann rólyndur og hæglátur, hún ör og nokkuð fljóthuga, en þau bættu hvort annað upp svo úr varð einstaklega ástríkt samband. Það varð því Soffu mikill harmur þegar Gunnar lést skyndilega árið 1980.

Við Soffa vorum systkinabörn. Samskiptin voru ekki mikil á uppvaxtarárum okkar. Það var ekki fyrr en við vorum giftar og komnar með börn að vináttan óx. Börnin uxu úr grasi og lífið lék við okkur. En við kynntumst líka sorginni. Árið 1980 varð maðurinn minn, Guðmundur, bráðkvaddur, og mánuði seinna var Soffa orðin ekkja því Gunnar fékk hjartaáfall og lést eftir stutta legu. Á því erfiða tímabili sem á eftir fylgdi styrktust böndin og saman unnum við okkur út úr sorginni. Ég veit hreinlega ekki hvernig ég hefði getað það án hjálpar Soffu.

Upp frá því má segja að nýr kafli hafi byrjað í lífi okkar. Við vorum saman nær alla daga, fórum og gerðum allt saman. Við fórum báðar út á vinnumarkaðinn og unnum jafnan á sama stað. Lengst unnum við saman í eldhúsinu á Heilsuverndarstöðinni. Þar var oft glatt á hjalla. Soffa frænka sá fyrir því. Hún var fljót að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu. Gerði óspart grín að okkur hinum með því einu að líkja eftir fasi okkar svo allir sáu hver í hlut átti. Kátína hennar og hlátur gerðu það að verkum að enginn gat setið nálægt henni án þess að hrífast með.

Þær voru ófáar ferðirnar sem við Soffa fórum í bæði utanlands og innan. Ógleymanlegar eru orlofsferðirnar þar sem hún hélt uppi fjöri. Setti bæði upp óæfða leikþætti og stóð fyrir fjöldasöng. Nei, það var so engin lognmolla í kringum hana Soffu mína.

Fyrir fimmtíu og fimm árum stofnuðum við nokkrar vinkonur saman saumaklúbb. Nokkrum árum seinna gekk svo Soffa í klúbbinn. Eins og nærri má geta var nú ýmislegt brallað og átti Soffa þar oftast hlut að máli. Vikulegra funda var jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu. Þegar við vorum bundnar við heimili og barnauppeldi voru þeir oftast okkar eina upplyfting.

Það var mér því sár raun þegar uppgötvaðist að Soffa væri haldin ólæknanlegum sjúkdómi sem smám saman dró úr henni allan lífskraft.

Að leiðarlokum vil ég þakka Soffu frænku allar ánægjustundirnar sem við áttum saman. Hún reyndist mér sem besta systir og því fæ ég henni aldrei fullþakkað. Hvíldu í friði kæra frænka.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég sonum hennar og tengdadætrum, svo og öllum barna- og barnabörnum sem nú sakna sárt ömmu sinnar.

Lillý.