— Reuters
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is Meðferð fyrir fyrirbura sem kölluð er „kengúra“, eða húð við húð, hefur notið vaxandi vinsælda hjá heilbrigðisstofnunum undanfarin ár.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Meðferð fyrir fyrirbura sem kölluð er „kengúra“, eða húð við húð, hefur notið vaxandi vinsælda hjá heilbrigðisstofnunum undanfarin ár. Þá er barnið, aðeins klætt í bleiu, lagt á bert brjóst foreldra sinna.

Rakel Björg Jónsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun nýbura á vökudeild Barnaspítala Hringsins, ætlar á mánudag að flytja erindi á Málstofu í Eirbergi og kynna samnorræna rannsókn á þessari meðferð.

„Fjöldamargar rannsóknir hafa verið gerðar um víða veröld á kengúrumeðferðinni og yfirleitt hafa komið í ljós jákvæð áhrif, m.a. áhrif á lífeðlisfræðilega þætti eins og hjartslátt og öndun barnsins. Einnig bætir þessi meðferð svefn barnsins, brjóstagjöfina og fleira. Og snertingin bætir tengslamyndun milli foreldra og barns.

En það er líka verið að rannsaka hvort þetta geti haft neikvæð áhrif, í hvaða tilfellum ætti ekki að beita þessari meðferð og fleira í þeim dúr. Það hafa verið ýmsar hindranir sem hafa komið í veg fyrir slíka meðferð, en þar ber helst að nefna þekkingarleysi, þegar fólk hefur einfaldlega ekki kynnt sér þetta nógu vel. Sums staðar hefur skortur á hjúkrunarfræðingum einnig hindrað meðferð, til dæmis þarf stundum tvo hjúkrunarfræðinga til að flytja barnið í fang foreldranna. Stundum geta aðstæðurnar, eða skortur á þeim, hindrað meðferð, því það þarf vissulega góðar aðstæður, til dæmis góða stóla, einrúm og ró og næði til að meðferðin virki sem skyldi.

Einnig hefur komið í ljós að starfsfólk með meiri reynslu en minni er líklegra til að beita þessari meðferð.

Veikindi fyrirburans geta líka verið hindrun í meðferð, því fyrirburar eru oft tengdir við alls konar snúrur, tæki, öndunarvél og fleira. Þessi börn eru stundum það mikið veik og óstöðug að þeim er ekki treystandi til að hreyfa sig mikið.“

Rakel segir að kengúrumeðferðinni sé töluvert beitt á vökudeildinni á Barnaspítala Hringsins. „Þetta er ekki stundað sem markviss meðferð, sem mætti gjarnan bæta úr, en við reynum að leggja okkur fram í þessum málum, þegar því verður við komið.“

Rakel segir að það geti verið mjög erfitt fyrir foreldra að þurfa að bíða eftir því að fá barnið í fangið. „Oft líður mjög langur tími þar til foreldrar geta fengið að halda á barninu sínu, en við reynum alltaf að gera það eins fljótt og ástand barns og móður leyfir.“

Málstofan er öllum opin og verður á mánudag kl. 12.10-12.50 í stofu 201 í Eirbergi, Eiríksgötu 34. www.rsh.hi.is