[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað ertu að hlusta á um þessar mundir? Þessa dagana er ég að hlusta á Swanlights, nýja diskinn með Antony and the Johnsons. Hann er yndisfagur og sama orð myndi ég nota um Innundir skinni með Ólöfu Arnalds.
Hvað ertu að hlusta á um þessar mundir?

Þessa dagana er ég að hlusta á Swanlights, nýja diskinn með Antony and the Johnsons. Hann er yndisfagur og sama orð myndi ég nota um Innundir skinni með Ólöfu Arnalds. Líklega hef ég þörf fyrir yndisfagra tónlist um þessar mundir.

Hvaða plata er sú besta sem nokkurn tíma hefur verið gerð að þínu mati?

Hounds of Love með Kate Bush er býsna góð. Ég segi eins og skáldið Ísak Harðarson í síðustu ljóðabók sinni: „Kate Bush á spilaranum, hvað ég vildi að hún væri mamma mín – trúi að augu hennar myndu spegla mig skilyrðislausri elsku.“

Hver var fyrsta platan sem þú keyptir og hvar keyptirðu hana?

Ein af fyrstu plötunum sem ég keypti var The Unforgettable Fire með U2 sem ég keypti hjá Dóra í Plötubúðinni í desember 1984. Hvílík plata! Ég fór fljótt aftur til Dóra og keypti Boy, October og War. Síðar eignaðist ég myndina Under a Blood Red Sky á beta-spólu.

Hvaða íslensku plötu þykir þér vænst um?

Áfram stelpur! er sögufræg plata með boðskap sem alltaf á við. Textarnir eru drepfyndnir en líka sorglegir. Ég átti hana á diski en keypti mér hana á vínyl fyrir stuttu. Mér þykir líka ósköp vænt um Sálma með Ellen Kristjánsdóttur og Fisherman's Woman með Emilíönu Torrini. Þá síðarnefndu hef ég oft sent útlenskum vinum.

Hvaða tónlistarmaður værir þú mest til í að vera?

Ég fór á sálmakvöld í Hallgrímskirkju fyrir stuttu þar sem verið var að fjalla um sálm sem ég hafði ort. Við sama tækifæri var fjallað um sálm eftir KK og flutti hann sálminn sjálfur og lék undir á gítar. Síðan fékk hann viðstadda, aðallega presta og kórfólk en líka hr. Karl biskup, til að syngja með sér Kátir voru karlar. Mig langar kannski ekkert til að vera KK en mig langar alveg til að vera í sama herbergi og hann og fá að hlusta á hann spila og syngja.

Hvað syngur þú í sturtunni?

Ég á það til að raula U2-lagið Gloriu af October.

Hvað fær að hljóma villt og galið á föstudagskvöldum?

Horses með Patti Smith er frábær diskur. Svo er hún líka svo góður penni. Ég er nýbúin að lesa bókina hennar, Just Kids, og finnst hún mögnuð.