Bandaríski leikarinn Robert Wagner var mikill kvennaljómi og er líka skarpur.
Bandaríski leikarinn Robert Wagner var mikill kvennaljómi og er líka skarpur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef alltaf verið sílesandi. Oftast er ég með nokkrar bækur í takinu. Auk þess les ég að staðaldri ensk dagblöð og tímarit. Núna eru sex bækur á náttborðinu.

Ég hef alltaf verið sílesandi. Oftast er ég með nokkrar bækur í takinu. Auk þess les ég að staðaldri ensk dagblöð og tímarit. Núna eru sex bækur á náttborðinu. Þær eru hver annarri skemmtilegri og fróðlegri, en ef mér líkar ekki bók hika ég ekki við að leggja hana frá mér.

Efst í staflanum er Must You Go? Þar tvinnar Antonia Fraser saman dagbókarfærslur um árin með Harold Pinter, en ástarsamband þeirra vakti mikla athygli á sínum tíma. Þetta er skínandi fín bók. Þar sem ég bjó lengi í Englandi kannast ég við ýmsar skírskotanir í bókinni.

Einnig les ég mér til mikillar ánægju endurminningar bandaríska leikarans Roberts Wagners, Pieces of My Heart . Mér fannst aldrei mikið til um hann sem leikara en hann reynist harðgreindur og hafa frá mörgu að segja. Það er varla dauður punktur í bókinni. Robert var mikill kvennaljómi og segir hann frá mörgum ástkonum sínum (flestar frægar kvikmyndastjörnur), en aðallega þó stóru ástinni í lífi sínu, Natalie Wood.

Öðru hverju glugga ég ritgerðasafn sem heitir The Anti Chomsky Reader . Þar er flett ofan af allri vitleysunni sem út úr þeim manni veltur. Það er til vitnis um ástandið í þessu landi að fólk skuli fylla Háskólabíó til að hlusta á rausið í Noam Chomsky.

Ég er líka langt kominn með kostulega ævisögu egypska svindilbraskarans Als Fayeds sem til skamms tíma átti Harrods í Lundúnum. Bókin er eftir rannsóknarblaðamanninn Tom Bower sem skrifað hefur margar fínar ævisögur áhrifamanna í óþökk þeirra.

Þá bættist nýlega á náttborðið nýútkomin skáldsaga Sigurjóns Magnússonar, Útlagar . Ég hlakka mikið til að byrja á henni. Sigurjón er kunnur að því að draga upp áhrifamiklar myndir í bókum sínum sem festast með manni.