Karl Frímannsson skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit fylgist með hópi glaðra nemenda í kennslustund.
Karl Frímannsson skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit fylgist með hópi glaðra nemenda í kennslustund. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Karl Frímannsson skólastjóri segir lykilatriði, þegar hugað sé að því hvernig bæta megi samfélagið, að hver og einn byrji á því að bæta sjálfan sig og nánasta umhverfi. Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Hvað? „Minn útgangspunktur er alltaf sá sami þegar rætt er um að bæta samfélagið; maður verður að byrja á sjálfum sér og sínu nærsamfélagi. Ég er mjög upptekinn af því að okkur beri að ala upp ábyrga þjóðfélagsþegna, sem taka ákvarðanir um sitt eigið líf.

Ég vil laða fram það góða í manneskjunni,“ segir Karl Frímannsson skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit.

Hver? „Allir. Hver og einn verður að líta í eigin barm og ekki bara í stutta stund. Ég sem skólastjóri get til dæmis ekki rifist og skammast ef við ætlum að byggja skólastarf á virðingu fyrir hvert öðru, eins og hefur verið yfirlýst stefna hér í skólanum í um það bil áratug. Það þýðir sem sagt ekki bara að tala um hlutina. Við þurfum að sýna vingjarnleikann og virðinguna í verki.“

Hvers vegna? „Af því að við viljum skapa réttlátt, sanngjarnt og farsælt samfélag. Það getur ekki gerst nema menn séu sáttir við umhverfið og lögin sem þeir búa við. Ef ekki er borin virðing fyrir lögum, ef menntunarstig er lágt, þá skapast óreiða. Á Íslandi hafa báðir þessi þættir verið í lagi undanfarna áratugi og eru enn þrátt fyrir ákveðinn forsendubrest í kjölfar efnahagshrunsins.

Við gætum farið þá leið að láta rétt hins sterka ráða, en þá endaði leikurinn eins og ef menn spiluðu fótbolta án þess að styðjast við reglur – með ofbeldi. Íþróttafélagsfræðingar hafa einmitt bent rækilega á að ástæðan fyrir því að settar voru reglur fyrir hina ýmsu leiki var til þess að draga úr ofbeldinu.

Við getum aldrei tryggt að við séum að ala upp siðferðilega sterka einstaklinga og mannfólkið virðist þannig gert að það hugsar fyrst um eigin hagsmuni frekar en almanna hagsmuni, en það er mikið unnið með því að ala fólk upp við það að bera virðingu fyrir lögum.“

Hvernig? „Það þarf að efla einstaklinginn þannig að hann verði sem hæfastur til þess að lifa í lýðræðissamfélagi. Fyrirmyndir skipta mestu máli og þegar drífandi fólk er á mörgum stöðum í samfélaginu verður til ákveðinn galdur. Ég get nefnt sem dæmi að frjáls félagasamtök hér í Eyjafjarðarsveit tóku að sér í annað skipti nú í sumar að sjá um árlega handverkshátíð að Hrafnagili. Það er engin smá framkvæmd því 7.000 borguðu sig inn á sýninguna á einni helgi,“ segir Karl.

Í fararbroddi þeirra sem komu að því að sjá um hátíðina er ungmennafélagið Samherjar og hjálparsveitin Dalbjörg en kvenfélögin og Lionsklúbburinn komu einnig við sögu. Mjög margir leggja hönd á plóginn í sjálfboðavinnu en félagasamtökin fá ákveðið fjármagn fyrir.

„Líklega hafa um 120 manns starfað á hátíðinni fyrir ungmennafélagið, þar af helmingurinn börn. Þeim voru fengin verkefni sem þau réðu við, börn og fullorðnir voru því á sama báti og starfið þar af leiðandi mjög fjölskylduvænt og „eignarhaldið“ sameiginlegt.“

Þessi leið er mikilvæg, segir hann; að gefa öllum tækifæri; að skapa vettvang þar sem flestir og helst allir geti tekið þátt.

„Við búum í sósíaldemókratísku samfélagi og viljum að samneyslan komi þeim til hjálpar sem geta ekki bjargað sér eða búa við skerðingu af einhverju tagi. Við byggjum á þeirri grundvallarreglu að allir hafi sama aðgang að heilbrigðis- og menntakerfi og ég er sannfærður um að við eigum að halda í þetta fyrirkomulag og laða það enn frekar fram með lýðræðislegum aðferðum sem mjög hafa verið í umræðunni hér undanfarin tvö ár.“

Talandi um fyrirmyndir: „Arnar Árnason oddviti Eyjafjarðarsveitar, hefur verið í farabroddi í sjálfboðaliðastarfinu og það eru góð skilaboð að forystumaður í sveitarfélagsins leggi sitt af mörkum endurgjaldslaust,“ segir skólastjórinn.

Karl nefnir annað dæmi um samtakamáttinn í sveitarfélaginu; hópur fólks innan vébanda U.m.f. Samherja tók sig til og er um þessar mundir að ljúka við fullkominn sparkvöll við skólann, sambærilegan þeim sem KSÍ hafði frumkvæði að víða um land. „Fullbúinn völlur myndi kosta sveitarfélagið 17-20 milljónir en við náum að klára hann fyrir rúmar sjö milljónir,“ segir Karl.

Aðeins er greiddur efniskostnaður en nokkur hópur manna hefur lagt fram mikla sjálfboðavinnu. „Kostnaður vegna jarðvegsskipta við svona völl er til dæmis áætlaður um ein og hálf milljón króna en kostar okkur líklega 50 þúsund. Bændur og fleiri sjálfboðaliðar komu hingað á vélum sínum og þetta var klárað á tveimur eða þremur dögum.“

Karl segir verkefnið samfélaginu gríðarlega mikilvægt og sjálfboðaliðastarfið við byggingu vallarins börnum mikil fyrirmynd.

Hvar? „Skólinn er mjög góður vettvangur en uppeldið fer sannarlega fyrst og fremst fram á heimilinu. Börnum á að sjálfsögðu að líða vel í skóla, þau eiga að búa við öryggi og eiga að fá þjónustu og faglega vinnu af bestu gæðum því við höfum mannskap til þess. En ef maður setur hlutverk skóla í annað samhengi kemur í ljós að barn á grunnskólaaldri er að meðaltali þrjá klukkutíma á dag í skólanum – þegar reiknað er meðaltal fyrir alla daga ársins – en samkvæmt íslenskum rannsóknum þá eru börn rúma fjóra klukkutíma á dag fyrir framan sjónvarp eða tölvu heima hjá sér. Barnið er því lengur við skjáinn en í skólanum að meðaltali yfir árið. Hlutverk heimilanna er því sannarlega mikið og mikilvægt í þessu samhengi.“

Karl segir skólann aldrei geta sagt foreldrum fyrir verkum við uppeldið en samtal þurfi alltaf að eiga sér stað á milli skóla og heimilis. „Skólinn má ekki verða eyland í samfélaginu en við megum heldur ekki ganga svo langt til móts við óskir samfélagsins að við gefum afslátt af kjarnastarfsemi okkar sem er nám barnanna. En á báðum stöðum er mikilvægur vettvangur til þess að efla einstaklinginn og að koma börnum vel til manns.“

Karl segir að umræða um skólastarf í fjölmiðlum snúist oftar en ekki um annað en nám og kennslu. Oft sé þrýstingur frá samfélaginu um að skólar eiga að gera hitt og gera þetta. „Stundum er talað um að við eigum að halda þyngd barnanna innan skynsamlegra marka eða að skólinn eigi að sjá um að mataræðið sé í lagi, en það gefur auga leið að slík verkefni eru skólum of vaxin. En skólinn er auðvitað vettvangur til þess að vinna með foreldrum að uppeldi barna; að börnin séu alin upp sem ábyrgir einstaklingar sem taki farsælar ákvarðanir um eigið líf, rækti eigin heilsu, vilji mennta sig, rækti vinasambönd og haldi góðu sambandi við foreldra sína, svo dæmi séu tekin. Við munum bæta samfélagið ef þessum þáttum verður gert hátt undir höfði.“

Karl nefnir að sem betur fer hafi tóbaksneysla dregist saman, vímuefnasneysla, þ.m.t. áfengisneysla, virðist hins vegar heldur vera að aukast og þá bendir hann á að svo mikið sé af of þungu fólki í dag að aukningin sé skilgreind sem faraldur í læknisfræðilegu samhengi. „Því má ekki gleyma að þetta eru allt þættir sem við tökum ákvarðanir um sjálf. Þyngd fólks er yfirleitt ekki tilviljum heldur stjórnast að langmestu leyti af mataræði, svo dæmi sé tekið.“

Hvenær? „Ég kemst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að þetta sé eilífðarverkefni. Mannlegt eðli og hegðun er einhvern veginn þannig að við virðumst sífellt þurfa að minna okkur á svokallaða sjálfsagða hluti.“

Hver er maðurinn?

Karl Frímannsson hefur verið skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit frá árinu 1999.

Áður kenndi hann árum saman auk þess að starfa sem íþróttaþjálfari. Hann útskrifaðist sem íþróttakennari frá Laugarvatni árið 1984, íþróttafræðingur frá íþróttaháskólanum í Osló 1992 og tók meistarapróf frá Háskólanum á Akureyri í júní 2010.

Karl sat í stjórn Leikfélags Akureyrar frá 2003 til 2008 og hefur verið formaður stjórnar menningarfélagsins Hofs frá 2008.