Hluti eins verks Eggerts Péturssonar - „Litaspilið vísar miklu frekar til hugmynda um annars heims ævintýri en til íslenskrar náttúru.“
Hluti eins verks Eggerts Péturssonar - „Litaspilið vísar miklu frekar til hugmynda um annars heims ævintýri en til íslenskrar náttúru.“
Sýningin stendur til 2. janúar. Opið alla daga nema þriðjudaga kl. 12-17 og fimmtudaga til kl. 21. Aðgangur ókeypis.

Blómamálverk Eggerts Péturssonar eru kapítuli út af fyrir sig í íslenskri listasögu. Málverkin virtust í byrjun raunsæisleg af því þau voru máluð á raunsæislegan hátt, en nú þegar Eggert hefur yfirgefið ljósmyndanákvæmnina og hellt sér út í expressjóníska sýrukennda útfærslu liggur ljóst fyrir að málverkin voru aldrei raunsæisleg.

Verkin sem nú eru til sýnis í Hafnarborg eru yfirgengileg og grótesk, einhver undarleg upphafin blanda af rómantísku náttúru- og listmálarablæti. Litaspilið í verkunum vísar miklu frekar til hugmynda um annars heims ævintýri en til íslenskrar náttúru og gefur tilfinningu fyrir einhverjum exótískum trúarupplifunum sem minna á verk listamanna Decadent-hreyfingarinnar, Rósakrosshreyfingarinnar og symbólistanna sem komu fram undir lok nítjándu aldar.

Þekktar íslenskar plöntur raða sér upp, kannski eftir leynilegu kerfi, eins og þær séu fyrirsætur málarans, engin planta er á bak við aðra. Þetta minnir á ritúal eða galdur og leiðir hugann að seiðkörlum og seiðkonum fyrri tíma. Tilfinningin fyrir lynginu, hrauninu og íslenska móanum er horfin og annarleg undirheimabirta leikur um plönturnar.

Vísunin í hraun og gjótur kemst vel til skila, sums staðar er eins og jurtir eða tré séu að reyna að vaxa neðanjarðar eða undir örfoka rofabörðum þar sem þær krypplast saman og fá sjónrænt einkenni rótarkerfa.

Sýningin kom undirritaðri á óvart, eftirsjá eftir gamla myndmálinu blandaðist eftirvæntingu yfir því nýja sem hefur verið að þróast undanfarin ár, myndmál sem erfitt er að átta sig á og skilgreina en þeim mun auðveldara að upplifa enda kalla myndirnar fram sterkar og jafnvel líkamlegar tilfinningar.

Þóra Þórisdóttir