Tilvonandi brúðhjón þóttu afslöppuð og ánægð þegar þau tilkynntu um trúlofun sína en brúðkaupið verður á næsta ári.
Tilvonandi brúðhjón þóttu afslöppuð og ánægð þegar þau tilkynntu um trúlofun sína en brúðkaupið verður á næsta ári. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allt frá því að miðstéttarstúlkan Catherine Elizabeth Middleton fór að laumast á stefnumót með kærastanum sínum í háskóla hafa breskir fjölmiðlar iðað í skinninu eftir að segja fréttir og birta myndir af henni.

Allt frá því að miðstéttarstúlkan Catherine Elizabeth Middleton fór að laumast á stefnumót með kærastanum sínum í háskóla hafa breskir fjölmiðlar iðað í skinninu eftir að segja fréttir og birta myndir af henni. Kærastinn er enda ekki hinn venjulegi almúgamaður heldur sjálfur ríkisarfi gamla stórveldisins, Vilhjálmur Bretaprins. Eftir mörg ár þar sem pressan hefur reynt að sitja á sér með misjöfnum árangri hefur hún loksins fengið leyfi til að sleppa fram af sér beislinu í umfjöllun um unga parið – í vikunni var tilkynnt um trúlofun þess og undirbúningur fyrir konunglegt brúðkaup er hafinn.

Ólíkt heitmanni sínum var Kate Middleton alls óvön sviðsljósinu þegar þau hittust. Hún fæddist inn í dæmigerða miðstéttarfjölskyldu fyrir 28 árum og ólst upp í Bucklebury í Berkshire, elst þriggja systkina. Foreldrar hennar, Michael og Carole Middleton reka póstverslun sem selur leikföng og leiki fyrir barnaveislur, en aðsetur fyrirtækisins er í breyttri hlöðu skammt frá heimili þeirra, eins og fram kemur í ítarlegri úttekt BBC á væntanlegri prinsessu.

Fyrrum skólafélagar Kate bera henni vel söguna, segja hana hæfileikaríka, jarðbundna, skapandi og vinsæla auk þess sem hún hafi staðið sig vel í íþróttum. M.a. var hún fyrirliði hokkíliðs skólans og keppti í tennis fyrir utan að vera frábær námsmaður.

Þau Vilhjálmur hittust í St. Andrews-háskólanum þar sem þau bjuggu saman í fjögur ár ásamt fleirum. Fjölmiðlar bæði vestan hafs og austan hafa haldið því dyggilega til haga að prinsinn hafi sótt undirfatasýningu í háskólanum árið 2002 þar sem Kate var ein fyrirsætanna. Þá hafi Kate verið með plakat af Vilhjálmi uppi á vegg þegar hún var unglingur og er því jafnvel haldið fram að hún hafi viljandi valið St. Andrews-háskólann í þeirri von að hitta prinsinn. Ekkert af þessu hefur verið staðfest og raunar neitaði Kate því í sjónvarpsviðtali að hafa haft tilvonandi eiginmann sinn sem veggskraut á árum áður. Hins vegar hafi hún haft plakat af „einhverjum Levi's strák“ uppi á vegg sem krakki.

Vernduð fyrir ágangi fjölmiðla

Minnug örlaga móður Vilhjálms, Díönu prinsessu, hefur hirðin og unga parið lagt töluvert á sig til að halda einkalífi Kate og sambandi sínu utan kastljóss fjölmiðlanna. M.a. gekk breska höllin frá samkomulagi þar um við pressuna. Augum almennings var því fyrst beint að Kate árið 2005 þegar bresku slúðurblöðin birtu myndir af henni og Vilhjálmi þar sem þau voru í skíðafríi í Sviss. Áhugi pressunnar jókst til muna eftir að Kate fluttist til London í kjölfar útskriftar úr háskóla. Eftir að blöðin birtu myndir af henni horfa út um glugga á strætó í stórborginni staðhæfðu lögfræðingar hennar að „papparassar“ eltu hana á röndum, nótt sem dag.

Í febrúar árið eftir kvað svo sterkt að orðrómi um væntanlega trúlofun þeirra Vilhjálms að verslunarrisinn Woolworths réðst þegar í framleiðslu minjagripa. Sögusagnirnar náðu hámarki á 25. afmælisdegi Kate í janúar 2007 þegar fjölmiðlamenn þyrptust fyrir utan heimili hennar í Chelsea. Mörgum þótti þetta minna óþægilega á þann ágang fjölmiðla sem kostaði Díönu prinsessu lífið og í kjölfarið sendu Vilhjálmur og Karl faðir hans ákall til fjölmiðla um að láta Kate í friði. Samþykktu nokkur dagblöð að hætta að nota „papparassamyndir“ af henni.

Fjölmiðlum var m.a. kennt um þegar parið hætti saman í apríl 2007 en í kjölfarið tóku að birtast neikvæðar fréttir af Middleton-fjölskyldunni. M.a. var móður Kate gefið að sök að hafa jórtrað tyggigúmmí við hersýningu til heiðurs Vilhjálmi og að hafa notað orð eins og „klósett“ og „afsakið“ í viðurvist drottningar.

Stuttu síðar sótti parið minningartónleika um Díönu prinsessu, en þrátt fyrir yfirlýsingu í kjölfarið um að það væri aðeins „góðir vinir“ sást það iðulega saman við opinber tækifæri. Var Kate m.a. gestur í tveimur konunglegum brúðkaupum, án þess að Vilhjálmur væri viðstaddur. Þá var hún viðstödd þegar faðir Vilhjálms sæmdi hann RAF-vængjum hersins og sömuleiðis þegar hann var sleginn til riddara af Garter í júní 2008.

Lítið hefur þó farið fyrir Kate undanfarið og eftir að hún hætti störfum fyrir leikjaframleiðandann Jigsaw hefur hún verið starfsmaður fyrirtækis foreldra sinna.

Síðustu misseri hefur breska pressan skemmt sér við að kalla Catherine „Waity Katie“ og þannig gefið með rætnum hætti í skyn að hún biði milli vonar og ótta eftir bónorði prinsins. Af viðbrögðum pressunnar nú má ráða að fargi sé ekki síður létt af fjölmiðlunum sjálfum. Í öllu falli er ljóst að biðin er nú á enda.

Í bláu líkt og Díana prinsessa

Það vakti mikla athygli að trúlofunarhringur Kate Middleton er fyrrverandi trúlofunarhringur tengdamóðurinnar sem hún hitti aldrei, Díönu prinsessu. Í samtölum við fjölmiðla sagði Vilhjálmur að það hefði tekið hann þrjár vikur að finna réttu stundina til að bera upp bónorðið og allan þann tíma hafi hann ekki sleppt hendinni af hringnum enda vissi hann að hann myndi lenda í miklum vandræðum týndist hringurinn.

Kate þótti bera hringinn af miklum þokka og valdi að vera í látlausum en fallegum kóngabláum kjól, sem undirstrikaði stóran bláan safírinn í hringnum. Raunar var Díana prinsessa einnig í bláum kjól, þegar tilkynnt var um trúlofun hennar og Karls Bretaprins fyrir hartnær 30 árum.

Frá því að tilkynnt var um trúlofunina sl. þriðjudag hafa fjölmiðlar verið iðnir við að bera saman Kate og Díönu. Flestir hafa þeir komist að þeirri niðurstöðu að sú fyrrnefnda sé ólíkt reiðubúnari til að takast á við framtíðina við hlið ríkisarfans, en Díana, sem þótti bæði ung og reynslulaus þegar henni var kastað út í hringiðu fjölmiðlanna.

Ekki aðeins er Kate níu árum eldri en móðir Vilhjálms var þegar hún tók bónorði Karls heldur er hún að auki langskólagengin, sem er einstakt í sögunni. Auðnist henni að verða drottning Breta í framtíðinni verður hún sú fyrsta í röðinni til að geta státað af háskólagráðu, eða háskólamenntun yfir höfuð.