Hermione, Harry og Ron í The Goblet of Fire.
Hermione, Harry og Ron í The Goblet of Fire.
Framhaldsmyndir eru þær eftirsóttustu í kvikmyndaiðnaðinum, öll kvikmyndaverin leggja ofurkapp á að koma sér upp „vörumerkjum“ (franchise), sem undantekningarlítið reynast ósviknar gullnámur.

Framhaldsmyndir eru þær eftirsóttustu í kvikmyndaiðnaðinum, öll kvikmyndaverin leggja ofurkapp á að koma sér upp „vörumerkjum“ (franchise), sem undantekningarlítið reynast ósviknar gullnámur. Um leið og nánast hvaða mynd sem er fer að sýna umtalsverðan hagnað, fara stúdíómógúlarnir og framleiðendurnir að velta fyrir sér hvort hann sýni ekki að hægt sé að mjólka meira út úr efniviðnum. Því höfum við séð þeim myndum fara fjölgandi sem bera nöfn á borð við Rambo, Rocky og Indiana Jones, í titlinum. Þau unnu það afrek að festast í kolli bíógesta þegar með fyrstu myndinni, síðan er ekkert auðveldara en að kalla til góða handritshöfunda og fá þá til að skrifa framhaldsmyndir með sama nafni, bæta að vísu við rómverskri tölu eða sölulegum undirtitli. Markhópurinn er tryggður.

Slík brögð þarf ekki að hafa í frammi hvað snertir sagnabálka eins og Harry Potter, en bækur J.K. Rawlings urðu einar sex, að auki á að gera tvær myndir byggðar á síðustu bókinni um galdrasveininn. Þá er til fjöldi sagna um flestallar teiknimyndahetjurnar sem hafa verið einstaklega vinsælt umfjöllunarefni í bíómyndum, ekki síst vegna margföldunaráhrifanna.

Nú skulum við renna yfir 20 vinsælustu „vörumerki“ kvikmyndanna, eins og listinn leit út í vetrarbyrjun, fyrir frumsýningu Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 1 – Harry Potter og dauðadjásnin: Hluti 1. Talan aftan við titilinn segir til um fjölda mynda í bálknum. Fremri upphæðin er heildarinnkoman í Bandaríkjunum, sú aftari á heimsvísu. Allt eru þetta gamlir kunningjar:

Star Wars (8) $2.226.166.672 $4,411,410,761

Harry Potter (6) $1,713,061,694 $5,419,425,820

James Bond (23) $1,609,487,453 $5,074,402,453

Batman (8) $1,465,583,452 $2,648,834,002

Shrek (4) $1,269,997,192 $2,940,512,962

Spider-Man (3) $1,113,761,163 $2,496,285,178

Pirates of the Caribbean (3) $1,038,147,461 $2,681,667,528

Lord of the Rings (3) $1,033,587,872 $2,913,933,388

Star Trek (11) $1,014,325,878 $1,463,693,273

Indiana Jones (4) $939,110,286 $1,980,610,580.

Toy Story (4) $882,988,871 $1,945,421,813

Twilight (4) $792,310,476 $1,802,383,603

X-Men (4) $786,495,030 $1,576,524,684

Jurassic Park (3) $767,320,741 $2,075,654,626

Transformers (2) $721,358,063 $1,544,576,285

Iron Man (2) $630,732,471 $1,204,732,471

Matrix (3) $592,293,378 $1,623,116,618

Ice Age (3) $568,291,731 $1,921,842,359

Rocky (6) $566,556,405 $1,126,271,447

Mission: Impossible (3) $529,893,123 $1,401,409,231

Sjálfsagt á listinn eftir að breytast lítillega á næstu árum. Harry Potter mun tróna á toppnum eftir að við bætist innkoma myndanna tveggja sem enn eru ósýndar. Síðar má reikna fastlega með því að endurbættar þrívíddarútgáfur Stjörnustríðsmyndanna 6 komi sér aftur þægilega fyrir í efsta sætinu. En ekki lengi, ef James Cameron gerir tvær myndir til viðbótar um Avatar.

saebjorn@heimsnet.is