Breski rithöfundurinn Jaqueline Wilson nýtur gríðarlegrar velgengni og vinsælda.
Breski rithöfundurinn Jaqueline Wilson nýtur gríðarlegrar velgengni og vinsælda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bækur Jacqueline Wilson hafa heillað börn og unglinga víða um heim, einnig hér á landi. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is

Breski rithöfundurinn Jacqueline Wilson er margverðlaunuð fyrir barna- og unglingabækur sínar. Hún nýtur töluverðra vinsælda hér á landi og í ár kemur út eftir hana í íslenskri þýðingu bókin Koss, sem er tíunda bók hennar sem JPV útgáfa gefur út.

Koss segir frá Sylvie og Karli sem eru þrettán ára og hafa verið bestu vinir árum saman. Sylvie elskar og tilbiður Karl en hann er farinn að breytast og henni finnst hún ekki ná sama sambandi við hann og áður. Hvað hefur eiginlega komið fyrir Karl? Sylvie leggur allt kapp á að komast að því.

Fyndni og vandamál

Wilson er þekkt fyrir að skrifa um vandamál barna og unglinga. Skilnaðir foreldra, hegðunarvandamál barna, unglingadrykkja, þunglyndi og samkynhneigð stinga upp kollinum í bókum hennar. Ekki hafa allir verið jafn hrifnir af þessum umfjöllunarefnum, en unglingar víða um heim eru kampakátir með sína konu og sækja í bækurnar. Og eitt er ljóst, og mikilvægt að koma til skila, og það er að Jacqueline Wilson er flinkur og skemmtilegur höfundur. Hún kaffærir lesandann ekki í vandamálum heldur vefur þau fimlega inn í skemmtilega og fyndna frásögn. Hinn ungi lesandi fær á tilfinninguna að hann sé að lesa um alvöru fólk og lifir sig inn í tilfinningalíf þess. Koss er einmitt gott dæmi um þetta. Ekki er rétt að segja mikið um söguþráðinn, en í bókinni er komið inn á viðkvæm efni og tekist á við þau af sannri lipurð og skynsemi.

Jacqueline Wilson er fædd árið 1945 og skrifaði fyrstu „skáldsögu“ sína níu ára gömul, hún var rúmlega tuttugu blaðsíður og sagði frá lífi sjö manna fjölskyldu. Hún hætti í skóla sextán ára gömul og fékk vinnu hjá forlagi. Hún hafði skrifað fjörutíu bækur, þar á meðal nokkrar sakamálasögur, þegar hún sló rækilega í gegn árið 1991 með bókinni Sagan af Tracy Beaker. Síðan hefur ferill hennar verið óslitin sigurganga.

Sérstakur persónuleiki

Jacqueline Wilson giftist ung en eiginmaður hennar yfirgaf hana eftir þriggja áratuga hjónaband. Þau eignuðust eina dóttur.

Wilson er sterkur persónuleiki sem fer eigin leiðir í lífinu. Hús hennar er fullt af bókum og hún greip til þess ráðs að byggja við það til að koma öllum bókum sínum fyrir. Hún safnar gömlum brúðum, rugguhestum og öðrum gamaldags barnaleikföngum. Hún hefur sinn sérstaka fatastíl, klæðist yfirleitt svörtu og er með hring svo að segja á hverjum fingri. Hún syndir á hverjum degi fyrir morgunmat og er áhugamanneskja um tónlist, og sérstakur aðdáandi Queen og Freddie Mercury.

Hún finnur lífsfyllingu í því að skrifa fyrir þakkláta unga lesendur sem eru duglegir að senda henni aðdáendabréf, sem hún svarar nær undantekningarlaust, enda þykir henni innilega vænt um lesendur sína. Hún sagði eitt sinn: „Þegar ég var krakki sagði ég vinum mínum ekki frá þykjustuleikjunum sem ég fór í vegna þess að ég vissi að þeir myndu halda að ég væri brjáluð – sumir þeirra virtust þá þegar halda það – en núna þegar ég er fullorðin og orðin rithöfundur þá get ég stöðugt verið í þykjustuleikjum meðan ég set þá á pappír og breyti þeim í skáldsögu.“