Töluverð umræða hefur spunnist í kjölfar ummæla um dýrahald og smölun villikatta í meirihlutasamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna á Alþingi.
Töluverð umræða hefur spunnist í kjölfar ummæla um dýrahald og smölun villikatta í meirihlutasamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna á Alþingi. Það kom því varla á óvart þegar Umferðarstofa sendi frá sér tilkynningu í fyrradag og varaði ökumenn við hundahaldi enda fyndist lögreglunni ástæða til þess að undirstrika hættuna sem því fylgdi.
Samkvæmt stjórnarliðum eru villidýr í þeirra hópi en Víkverji hefur hvorki séð boð né bönn við þeim. Hvers eiga hundar að gjalda, spyr hann eftir morgunhugvekju Umferðarstofu á miðvikudag. Þar segir að það sé furðu algengt að ökumenn aki með hunda í fanginu. Tekið sé fram í umferðarlögum að ökumenn eigi að vera með óskerta athygli við aksturinn og því megi segja að bannað sé að vera með hund í fanginu meðan á akstri stendur. „Dýrin skulu höfð í sérstökum öryggisbeltum eða búrum sem hvort tveggja má fá í gæludýrabúðum,“ segir Umferðarstofan og Víkverji tekur undir það. Upplögð jólagjöf fyrir ferfætlinga.
Annars er þetta eitt af því sem Víkverji á erfitt með að skilja. Þegar hallar á konur í umræðunni er oft sagt að þær hafi það fram yfir karla að geta gert margt í einu en þeir geti bara gert eitt í einu, ef það. Sé það rétt brjóta konur umferðarlögin frekar en karlar, að minnsta kosti lögin um akstur og dýrahald. Karlar geta ekki bæði ekið og haldið hund á sama tíma en konur fara létt með það.
Ekki er víst að konur vilji sitja undir því að brjóta lög og hvað þá í ríkari mæli en karlar. Því verður fróðlegt að fylgjast með umferðarmenningunni um jólin og sjá hverjir sitja undir hverjum.