Í Eldhrauni. Séra Jón Steingrímsson sem kallaður hefur verið Eldklerkur (1728-1791) lýsti Eldmessunni þannig: „Var þá Guð heitt og í alvöru ákallaður, enda hagaði hans ráð því svo til, að eldurinn komst ei þverfótar lengra en hann var fyrir embættið, heldur hrúgaðist hvað ofan á annað í einum bunka...“
Í Eldhrauni. Séra Jón Steingrímsson sem kallaður hefur verið Eldklerkur (1728-1791) lýsti Eldmessunni þannig: „Var þá Guð heitt og í alvöru ákallaður, enda hagaði hans ráð því svo til, að eldurinn komst ei þverfótar lengra en hann var fyrir embættið, heldur hrúgaðist hvað ofan á annað í einum bunka...“ — Morgunblaðið/RAX
Eftir Einar Sigurbjörnsson eisig@hi.is

Á fyrri hluta ársins 2010 vorum við Íslendingar með eindregnari hætti en oft áður minntir á að við lifum í landi elds og ísa. Eldgosin ollu usla hjá bændum og íbúum Rangárvalla- og Skaftafellssýslna og mikil röskun varð á flugi yfir norðanvert Atlantshaf. Eftir er að reikna út hvað þetta muni hafa kostað.

Gosið í Eyjafjallajökli var vissulega aðeins smágos í samanburði við mörg Kötlugosin og önnur gos á þessum slóðum. Íslendingar hafa í sögu sinni lifað miklu stærri gos og hið stærsta þeirra voru Skaftáreldar 1783-1784. Þeir ollu mikilli þjáningu meðal fólks á Íslandi og afleiðingar þeirra náðu einnig út yfir landsteinana enda var gosið í Lakagígum eitt mesta eldgos sem sögur fara af.

Þó að eldgos hafi valdið ógn og eyðingu vitum við Íslendingar það af sögu okkar að eldsumbrot og önnur eyðingaröfl hafa ekki átt síðasta orðið og ekki eyðilagt baráttuþrek fólks. Fólkið tókst á við erfiðleika og raunir og leitaðist við að sigrast á þeim. Jörðin varð frjósöm á ný og gaf ávöxt sinn fyrir menn og dýr, bæir voru byggðir að nýju og nýtt land rutt til ræktunar.

Hamfarir geta ennþá valdið þjáningum og harðræði fyrir fólk. Við nútímamenn erum vissulega betur búin undir að mæta hamförum en menn á fyrri tíð. Það hefur sýnt sig í þessu litla sýnishorni af hamförum sem eldsumbrotin nú eru. Ef hamfarir yrðu af stærri gráðu hljótum við að velta fyrir okkur hvernig þær kæmu við þá tækni sem við ekki aðeins búum yfir heldur erum háð. Hvaða áhrif mundu hamfarir á borð við Skaftárelda hafa á virkjanir, raflínur, hitaveitur, fjarskipti? Hver yrðu áhrifin á samgöngur á landi og lofti?

Móðuharði af mannavöldum

Undanfarna áratugi hefur hugtakið „móðuharðindi af mannavöldum“ oft verið notað í stjórnmálaumræðu hér á landi en eins og öllum er kunnugt hafa ríkisstjórnir á Íslandi sérstakt lag á að valda fólki áþján með s.k. efnahagsráðstöfunum. Hugtakið fékk nýtt vægi í efnahagshremmingunum sem við Íslendingar lentum í haustið 2008 og höfum glímt við síðan. Ef þær efnahagsþrengingar sem nú er við að etja má flokka undir hamfarir þá eru það vissulega hamfarir af mannavöldum enda var það breytni manna sem olli þeim. Af lestri Rannsóknarskýrslu Alþingis má sjá að það mátti að miklu leyti sjá fyrir afleiðingar þeirrar breytni ef þær voru ekki með öllu fyrirsjáanlegar. Efnahagshrunið hér var þó ekki aðeins heimatilbúinn vandi heldur líka hluti alþjóðlegrar efnahagskreppu.

Efnahagskreppur eru ekki náttúrufyrirbæri heldur menningarfyrirbæri. Markaðurinn er ekki náttúruafl og heldur ekki lifandi veruleiki. Hann stjórnast af þeim mönnum sem starfa á honum. Það sem hagfræðin kallar lögmál er mjög ólíkt lögmálum náttúrunnar því að hagfræðin fjallar ævinlega um breytni fólks. Þess vegna verður á sviði hennar eins og á öðrum sviðum mannlífsins að styðjast við siðferðisviðmið. Árferði getur enginn maður ráðið en siðferði er á valdi manna. Náttúruhamförum geta menn heldur ekki ráðið eða stjórnað en efnahagshamförum fá menn ráðið. Menn geta varist með fyrirhyggju og skynsemi. Í góðæri er nauðsynlegt að búa yfir hvoru tveggja og nota til að búa í haginn fyrir mögru árin, beita hagfræði þeirri sem Jósef beitti forðum í Egyptlandi. Og menn þurfa líka að búa yfir góðri siðferðisvitund og líkt og Jósef mega menn ekki missa sjónar á takmarki mannlífsins.

Græðgisvæðing

Þegar menn nú til dags íhuga ástandið í þjóðlífinu og reyna að finna skýringar á því sem leiddi okkur þangað sem við erum stödd er hugtakið græðgi ofarlega í hugum fólks og nýyrðið græðgisvæðing hefur litið dagsins ljós. Í því sambandi er áhugavert að lesa hugleiðingar séra Jóns Steingrímssonar um ástandið á Íslandi í aðdraganda hamfaranna 1783. Þá verður honum fyrir að lýsa annars vegar árferði og hins vegar siðferði.

Um árferðið segir séra Jón að það hefði verið gott í landinu næstu misseri og ár á undan. Landgæði og árgæska höfðu verið mikil þó yfir tæki það síðasta árið. Það hafði þvílík blómgan og ávöxtur verið á öllu með stökustu veðráttu til lands og sjávar að aldrei áður hafði ástandið verið betra.

En þetta góða árferði endurspeglaðist ekki í siðferði fólksins. Þá eins og nú reyndist jafnerfitt að þola góða daga. Séra Jón lýsir því svo:

En hvílíkt stjórnarleysi, andvara- og iðrunarleysi hér í Vestri-Skaftafellssýslu var um þann tíma, sérdeilis í þessu Kirkjubæjar- eður Kleifarþinglagi, hjá allmörgum er sorglegra til frásagnar en ég geti þar orðum eytt að. Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letingjar, að eigi vildu nema þá allra bestu og krydduðu fæðu. Drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska, eftir sem ég með öðrum vitanlega samanreiknuðum, er svo hátt steig að prestar fundust þeir hér, sem ei þóttust geta framflutt með reglu og andakt guðsjónustugjörð nema fyrir brennivíns tilstyrk hverjum og svo urðu síðan sín hús í eyði látin og margra annarra sem féllu á sömu sveif.

Þá segir hann frá mönnum sem voru svo ríkir að þeir vissu ekki tölu sinna sauða en komu sér undan að greiða skyldug gjöld til kóngs og prests. Fólk smalaði ekki afréttinn, þjófar voru frómir kallaðir, menn teygðu og toguðu lögin. Til viðbótar sóttu menn illa kirkju og þegar þeir mættu til kirkju tolldu þeir illa inni.

Þessar hugleiðingar séra Jóns Steingrímssonar gætu að breyttu breytanda átt við enn þann dag í dag! Þegar siðferðisvitund fólks sljóvgast gleymir það samfélagsábyrgð sinni og makar eigin krók. Menn sem hafa til þess ráð beita lögum eða hagnýta sér lögin í eigin þágu. Allt er það vel þekkt á öllum tímum.

Að líta í eigin barm

Öllum er nauðsynlegt að líta í eigin barm og það er gagnlegt að íhuga hvernig presturinn séra Jón Steingrímsson íhugaði stöðu sína og leitaðist við að flýja ekki eigin ábyrgð í þessum efnum. Hann kafaði í eigið hugskot. Í sjálfsskoðun sinni tekur hann fram að messufall hefði orðið hjá sér níu sunnudaga í röð í undanfara gossins þó að veður hefði verið gott. Í ljósi þess spurði hann: Voru messuföllin aðeins þeim að kenna sem ekki komu til kirkju? Eða vildi Guð sýna honum eitthvað áþreifanlegt? Var kannske dómur, refsing, í vændum sem mundi byrja á húsi Guðs (sbr. 1Pét 4.17)?

Í þeim þönkum dreymdi hann eina nótt að tígulegur maður kæmi til sín er sagði:

„Allt er svo sem þú meinar, en það er af því að þú kennir ekki fólkinu rétt.“ En þá er ég angraðist af því orði þóttist ég spyrja hann að hvað ég ætti þá að kenna en hann svaraði: „Esaiæ [Jesaja] 30. kap. Og haf það til sannindamerkis, þú skalt fá gott tækifæri að embætta á morgun,“ hvað og svo skeði þó þá ólíklegt væri.

Þetta er athyglisverður vitnisburður. Af ævisögu séra Jóns má ráða að hann var sér ákaflega meðvitandi um eigin köllun og um rétta breytni sína. Þarna opinberar hann sálarbaráttu sína og sjálfsskoðun og spyr sjálfan sig: Er siðferðilegur sljóleiki sóknarbarna minna af mínum völdum? Stafar hann af einhverju því sem ég hef gert eða látið ógert?

Boðskapur Jesaja

Draumamaðurinn – engillinn – benti séra Jóni á 30. kafla spádómsbókar Jesaja og hvatti hann til að íhuga og haga kenningu sinni eftir þeim kafla. Þar segir frá atburðum sem urðu um 740 f. Krist. Þá sátu Assýríumenn um Jerúsalem og hafði framsókn þeirra alið á ótta meðal fólks. Ráðamenn í Jerúsalem með konunginn í broddi fylkingar vildu binda bandalag við Egypta og fá liðsinni þeirra gegn Assýríumönnum.

Því voru ekki allir sammála og Jesaja spámaður fyllti flokk andstæðinga ráðandi manna og lagði Jesaja á það áherslu að Egyptar mundu hvorki geta veitt hjálp né liðsemd, liðveisla þeirra yrði fánýt og gagnslaus. Að fara á fund þeirra yrði því ekki aðeins til einskis heldur mundi það hafa tortímingu í för með sér.

Í framhaldinu boðar Jesaja að menn þurfi ekki að skelfast Assýríumenn því að þeirra bíði líka dómur. Assýríumenn munu skelfast raust Drottins þegar hann lýstur þá með kylfu sinni, segir Jesaja og hann lýkur dómsorðunum á að segja að eldfórnargryfja sé fyrir löngu undirbúin, ætluð konungi Assýringa. Hún er djúp og breið, í henni er mikill viður og eldur sem andgustur Drottins kveikir eins og brennisteinsflóð. (Jes 30.31 og 33)

En milli dómsorðanna yfir Egyptum og þeim sem vildu bandalag við þá og dómsorðanna yfir Assýringum eru orð sem geyma fyrirheit og loforð. Þar eru lykilorðin þessi: „Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera. [...] Drottinn bíður þess að sýna yður náð, hann mun rísa upp til að miskunna yður. [...] Hann verður þér náðugur. Þegar þú hrópar á hjálp mun hann bænheyra þig.“ (Jes 30.15, 18-20).

Boðskapur Jesaja er þessi: Það er Drottinn sem fer með lokaorðið, hvorki Egyptar né Assýringar.

Útlegging séra Jóns

Prédikun séra Jóns þegar ógnir Skaftárelda herjuðu enduróma þennan boðskap spámannsins. Því lýsir hann þegar hann segir:

Ég hlaut öllum mínum ræðum og prédikunum svo að haga sem tíminn nú útheimti. Helst hlaut ég að kenna að Guð gerði alla hluti vel og ei óréttvíslega, að mönnum byrjaði að ákalla hann og líða þolinmóðlega, það hann á legði. hann vissi betur en menn hvað þeim væri gagnlegt, að hann gæfi þeim eilíft líf, er hann vissi tilreiddir væru...

Eldmessunni sjálfri lýsir hann svofelldum orðum:

Var þá Guð heitt og í alvöru ákallaður, enda hagaði hans ráð því svo til, að eldurinn komst ei þverfótar lengra en hann var fyrir embættið, heldur hrúgaðist hvað ofan á annað í einum bunka. Þar með komu ofan á hann öll byggðarvötn eður ár, sem kæfðu hann í mestu ákefð. Einum Guði sé æra [dýrð].

Þannig lýsir séra Jón Steingrímsson því hvernig eldurinn stöðvaðist bæði fyrir kraft Guðs og vilja og með ráðum náttúrunnar sjálfrar þar sem það voru vötnin sem kæfðu eldinn. Fyrirvarinn, „einum Guði sé æra [dýrð]“, er úr 115. Davíðssálmi: „Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss heldur þínu nafni dýrðina, sakir miskunnar þinnar og trúfesti.“ Hann er sá sami og Jóhann Sebastian Bach notaði á verk sín: Soli Deo gloria – einum Guði sé dýrð.

Eldmessudagurinn 20. júlí 1783 var fimmti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Guðspjall þess dags fjallar um köllun lærisveinanna (Lúk 5.1-1). Þar segir frá því að Pétri postula hafi orðið ljós máttur Jesú Krists og fallið til jarðar óttasleginn og sagt: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En Jesús svaraði: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ (Lúk 5.8, 10) Pistill dagsins geymir orðin: „Þótt þið skylduð líða illt fyrir að gera það sem er rétt, þá eruð þið sæl. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum. En helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar.“ (1Pét 3.14-15a)

Það er líklegt að séra Jón hafi í prédikun sinni notað hvatninguna: Óttast þú ekki! Hræðist eigi og skelfist eigi!

Reiði Guðs?

Menn eiga það sameiginlegt á öllum öldum að meta vonda atburði sem refsingu guðlegrar reiði. Það hendir líka fólk sem ekki metur líf sitt í ljósi trúar að það spyr sjálft sig ef hörmung dynur yfir: Hvers vegna henti þetta mig?

Um daga Skaftárelda taldi fólk að hamfarirnar væru opinberun á reiði Guðs.

Hugtakið reiði Guðs merkir viðbrögð Guðs við illsku mannanna. Hugtakið er okkur nútímamönnum framandi og jafnvel ógeðfellt. Það er notað í Biblíunni og var mikið notað í kristinni guðfræði og prédikun fyrri alda. Að biblíulegum skilningi getur reiði Guðs birst sem afleiðingar illrar breytni t.d. þegar græðgi og dramb leiða menn til falls. Reiði Guðs getur líka birst þegar náttúran leikur lausum hala.

Sr. Jón taldi eldsumbrotin vera reiðield Guðs. Þar með vildi hann árétta að þrátt fyrir allt væri tilgangur í því sem gerðist. Eðli Guðs er nefnilega ekki að eyða heldur er eðli Guðs kærleikur til uppbyggingar, verndar, sköpunar. Tilgangur þeirra sem notuðu hugtakið reiði Guðs var þrátt fyrir allt ekki sá að ógna og skelfa heldur að áminna og hvetja.

Þannig gekk presturinn séra Jón Steingrímsson fram í þjónustu sinni. Vissulega benti hann fólki á hvar því væri ábótavant, hvar breytni þess hefði valdið skaða og tjóni og mundi halda áfram að gera það ef það sæi ekki að sér. En umfram allt hvatti hann og uppörvaði söfnuð sinn, gekk með fólki til verka, hvatti það til vinnu og til að gera hið besta úr aðstæðum.

Æðruleysi og traust

Þegar ógn og hætta steðjar að fólki er það alltaf óskiljanlegt. Það er þaðan af síður hægt að skilja af hverju Guð lætur náttúruhamfarir og skelfingar tengdar þeim dynja yfir fólk.

Í slíkum aðstæðum hefur trúin ekkert annað svar en að hvetja til æðruleysis, trausts á að Guð hafi þrátt fyrir allt ekki sleppt hendi sinni af mönnum. Þó að illska og eyðing virðist leika lausum hala er eyðingin ekki það afl sem mun eiga síðasta orðið. Síðasta orðið á Guð. Þess vegna verða menn í iðrun og von að treysta á hann.

Vorið eftir ógnaveturinn mikla 1783-84 var séra Jón gripinn örvæntingu og hugleiddi að fyrirfara sér. Þá þótti honum þessum orðum mælt til sín í draumi:

Öll mín fyrirheit stöðug standa,

styrki ég nú og jafnan þig,

í allri þinni eymd og vanda,

ákalla skaltu og treysta á mig.

Séra Jón skildi drauminn þannig að Jesús hefði sjálfur komið til sín og birt honum að hann hefði aldrei sleppt hendi sinni af honum, barni sínu.

Séra Jón sannfærðist um það fyrirheit. Það eyddi örvæntingunni og styrkti hann til áframhaldandi þjónustu.

Þessi raunsæja lífsafstaða séra Jóns Steingrímssonar er sama lífsaðstaða og við sjáum í ritum Jóns Vídalíns, Hallgríms Péturssonar og Fræðum Lúthers. Hana getum við kallað kristilegt raunsæi. Kristilegt raunsæi áréttar að sérhver einstaklingur er ábyrgur fyrir Guði, skapara sínum. Frá Guði þiggjum við þær gjafir sem við búum yfir bæði til líkama og sálar. Þess vegna tölum við um hæfileika sem gáfur, gjafir, sem við eigum að nota að vilja gjafarans og samferðarfólki okkar til blessunar.

Meðal þeirra gjafa eða gáfna er skynsemin. Skynsemi, dómgreind, er það verkfæri sem Guð gefur okkur til að gera okkur lífið bærilegt.

En til að skynsemin fái unnið verður hún að stjórnast af samvisku sem er upplýst af orði Guðs.

Orð Guðs er í fyrsta lagi lögmál sem skipar fyrir um hið góða. Lögmálið hefur Guð skráð á hjörtu allra manna og þess vegna hafa allir menn vitund um hið góða, reyna að leita eftir því og heyra dóminn þegar þeir bregðast.

Í öðru lagi er orð Guðs fagnaðarerindi sem hvetur okkur og uppörvar, boðar okkur að við erum dýrmæt í augum Guðs.

Skynsemi og samviska upplýst af orði Guðs – þetta tvennt verður að haldast í hendur. Í hörmungum og erfiðleikum mun það nú sem fyrr verða okkur haldreipi.

Grátur breytist í gleðisöng

„Að kveldi gistir oss grátur en gleðisöngur að morgni,“ segir í einum Davíðssálmi (Slm 30.6). „Þeir sem sá með tárum munu uppskera með gleðisöng,“ segir í öðrum Davíðssálmi (Slm 126.5). Þessi orð voru séra Jóni hugleikin þegar hann íhugaði hversu hagur fólks umbreyttist í prestakalli hans eftir hamfarir Skaftárelda og Móðuharðindin. Trúin var haldreipi fólks í hörmungum þess, trúin sem neitaði að gefast upp í örvæntingu og örvilnan heldur lét hughreystast af fyrirheitum þess Guðs sem segir: „Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.“ (Jes 43.1)

Það er falleg lýsing séra Jóns á embættisgjörð sem hann framdi í kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri 5. sunnudag eftir þrenningarhátíð árið 1789, réttum sex árum eftir Eldmessuna. Þá gaf hann saman hjón og talaði til þeirra út frá 4. kapitula Orðskviðanna. Þar er að finna ýmsar áminningar spekinnar, m.a. þessa:

Hafnaðu ekki viskunni, hún mun varðveita þig, elskaðu hana og þá mun hún vernda þig. Viska er fyrir öllu, aflaðu þér visku, kostaðu öllu til að afla þér hygginda. Hafðu hana í hávegum og þá mun hún hefja þig, faðmaðu hana og hún mun verða þér til sæmdar. Hún mun setja unaðslegan sveig á höfuð þér og sæma þig glæstri kórónu. (Okv 4.6-9)

Að velja hjónunum texta úr Orðskviðunum fjórða kafla lýsir vel skoðun séra Jóns á því hvernig skynsemi og samviska upplýst af orði Guðs vinna saman. Og lýsingu sinni á gleði þessa dags lýkur séra Jón á þessa leið:

Skeði hér og við eitt meira, að þetta var sá sami dagur í tölunni, sem eldurinn sýndist ætla að eyðileggja það guðshús og allir þessir voru þar þá inni staddir, rétt á milli lífs og dauða. Svo var nú Guð alhagur að snúa því voru hryggðarvatni í sætt gleðivín.

Lærdómur

Sá lærdómur sem við getum dregið af lífsspeki séra Jóns Steingrímssonar er einkum tvenns konar. Hið fyrra er að sýna í hvívetna æðruleysi andspænis erfiðleikum og hættum og gæta þess að láta ekki örvæntingu og reiði ná tökum á okkur. Það er hjálp að fá og hana finnum við í samfélaginu, meðal meðbræðra okkar og systra. Við megum í því sambandi ekki ala á tortryggni, öfund og ekki gerast útbreiðendur rógs og svigurmæla. Og okkur er nauðsynlegt að hafa eilífðartakmarkið sífellt fyrir augum. Eilífðartakmarið er okkar innsta eðli sem sköpun góðs Guðs sem hann ætlar til samfélags við sig í lífi og dauða,.

Hið síðara er að sýna kjark og visku til að takast á við aðstæður okkar og beita til þess skynsemi okkar og samvisku á réttan hátt. Og meðal þess sem skynsemi okkar og samviska á að geta frætt okkur um er að siðferði verður ekki stjórnað með skrifuðum reglum eða lögum. Siðferðinu getur hugarfarið eitt og viljinn einn stjórnað.

Stephan G. var að vísu enginn vinur kirkju og kristni en svo vel var hann uppfræddur að hann gat komið þessari kristnu lífspeki fyrir í vísunni góðu:

Þitt er menntað afl og önd

eigirðu fram að bjóða

hvassan skilning, haga hönd,

hjartað sanna og góða.

Séra Jón Steingrímsson hefði bent honum á fulltingi bænarinnar: „Skapa í mér hreint hjarta, ó, Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Slm 51.12) Um leið hefði hann minnt á sæluboðunina: „Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.“ (Matt 5.8)