Jólabarn Vivian Svavarsson fæddist í Svíþjóð 25. desember 1910. Hún flutti til Íslands 1932 og hefur búið og starfað hér síðan.
Jólabarn Vivian Svavarsson fæddist í Svíþjóð 25. desember 1910. Hún flutti til Íslands 1932 og hefur búið og starfað hér síðan. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTAL Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Vivan Svavarsson er sannkallað jólabarn, fædd á jóladag. Og það sem meira er, þá verður hún hundrað ára á morgun.

VIÐTAL

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Vivan Svavarsson er sannkallað jólabarn, fædd á jóladag. Og það sem meira er, þá verður hún hundrað ára á morgun. „Ég er að reyna að upplifa það hvernig er að vera 100 ára, reyna að trúa því,“ segir hún á Þorláksmessu, um 80 árum eftir að hún flutti til Íslands frá Svíþjóð, þar sem hún hét Vivan Aurora Holm. „En að vera jólabarn er bara plat. Ég fékk aldrei afmælisgjafir eins og annað fólk, því það þótti nóg að ég fengi einhverja jólagjöf.“

Ástin dró hana til Íslands. Hún kynntist Benedikt Jakobssyni íþróttafrömuði í háskóla í Stokkhólmi. „Það heitir ást,“ segir hún. Þau giftust 1932 og eignuðust fjögur börn en skildu 1949. „Hún entist ekki lengur en þetta,“ heldur hún áfram og segir að börnin – Ingunn, Elín, Gunnar og Hallgrímur – hafi komið eftir settum reglum. „Ég má til með að gorta svolítið. Þetta er stórmyndarlegt fólk.“ Seinni maður hennar var Garðar Svavarsson, prestur í Laugarneskirkju.

Hin eina og sanna kreppa var mörgum erfið. „Það voru allir fátækir og maður mátti oft þakka fyrir að halda lífinu,“ rifjar Vivan upp. „Það var hvorki til matur fyrir daginn né næsta dag. En ég ætlaði að standa mig, og það gerði það að verkum að ég stóð lengur en ég ætlaði mér. Bróðir minn, sem var kannski ekki besta barn guðs, sagði að ég ætti eftir að gráta mikið og það var satt. Þetta var byrjunin en svo fór ég að starfa eins og manneskja og það bjargaði lífinu.“ Hún segir samt að matarskorturinn hafi ekki verið neitt miðað við skipbrot á sálinni. „Það er enginn vandi að vera matarlaus í þrjá daga en það getur verið vont að vera ástarlaus í þrjá daga.“

Ekki Framsóknarmaður

Heyrn og sjón eru farin að gefa sig en að öðru leyti er Vivan nokkuð hress og ánægð í íbúðinni sinni. „Ég sofna á kvöldin og vakna á morgnana, en kvöldið áður veit ég ekki hvort ég vakni að morgni. Veit það nokkur?“ Hún segist ekki eiga nein leyndarmál en sér blöskri vaðallinn og lygin. „Það ættu fleiri að þegja. Það er of mikið kjaftað og of mikið logið. Þegar maður segir eitthvað á maður að standa við það.“ Segir samt að ástandið hafi skánað ef eitthvað er, „en fólk lifir á lyginni,“ segir hún ákveðin. „Þegar ég kom til Íslands átti Jónas Jónsson frá Hriflu Ísland. Hann ákvað hver átti að vera hvað. Benedikt átti erfitt með að fá vinnu hjá Jónasi. Vinur hans þekkti Jónas vel og sagði við hann: Þú vilt ekki láta Benedikt fá neina vinnu. Þá svaraði Jónas: Það er svo sem allt í lagi með hann en pabbi hans er ómögulegur maður. Og þá dugði það til þess að hann fékk ekki vinnu hjá Jónasi enda var hann ekki Framsóknarmaður.“

Eðlilega hefur margt á dagana drifið en eitt stendur upp úr: „Að vinna úr því sem ég veit. Að geta notfært mér þekkingu mína því hún er nokkuð góð.“

Fjölskylda Vivans ætlar að halda henni veislu í sal Söngskólans við Snorrabraut frá klukkan 15.00 þriðjudaginn 28. desember. „Eitthvert hugboð hef ég um að það standi til,“ segir hún.

HÆFILEIKAKONA

Í íþróttum og tónlistinni

Vivan var fyrsti sjúkraþjálfarinn hérlendis og kom Íslandi inn í Heimssamband sjúkraþjálfara. Hún starfaði lengst af hjá Kristjáni Hannessyni en kenndi líka við Landakotsskóla og Kvennaskólann í Reykjavík. Hún var mikil íþróttamanneskja og þótti góð í fimleikum, en hún kenndi m.a. Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, leikfimi.

Vivan lék á píanó og gítar og les nótur. „Ég hef aldrei lært neitt heldur bara spilað eftir eyranu,“ segir hún og bætir við að skemmtilegast sé að hlusta á tónlistina í eigin höfði. „Ég hef aldrei spilað á Austurvelli,“ segir hún kímin.