[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sprautum úr límtúpunni og bætum á brúsann sem geymir þetta sem heldur fólki saman.

Jú, nú hellast þau barasta yfir mann eina ferðina enn, jólin dásamlegu, þessi tími þegar mannskepnan leggur sig fram um að vera almennileg við sína eigin tegund og jafnvel hin dýrin líka.

Faðmar opnast, kossar og knús skella á fólki hvert sem það snýr sér, bros fljúga um loftin blá.

Okkur hefur verið kennt að láta allt það besta í okkur njóta sín á þessum árstíma og því er um að gera að vera alls ófeiminn við að láta væmnina ná tökum á sér.

Sagði ekki góður maður einhvern tíma að sá sem ekki þyrði að vera væminn hann missti af miklu.

Missið því alls ekki af öllum þeim sykursætu tilfinningum sem flæða um líkamann þegar við opnum fyrir heilastöðina sem hýsir væmnina.

Horfum í augun á öllum þeim sem við elskum mest og látum fallegu orðin óma frá innstu hjartarótum, eins og hvern annan fjölradda kórsöng.

Gröfum djúpt í sálina þar sem við erum mýkst og finnum eitthvað frumlegt, væmnin hefur frekar gott af því að fara í nýjan og litríkan búning.

Ausum af gnægtabrunninum okkur sjálfum.

Öll sú sæla í mat og drykk sem fylgir jólunum kveikir heldur betur á nautnastöðinni og ekkert því til fyrirstöðu að opna þær rásir upp á gátt og njóta holdlegs samræðis í hvívetna yfir hátíðirnar. Þetta fer jú allt svo ágætlega saman, andleg sæla og holdleg.

Jólapakkar geta verið margskonar og vissulega er alltaf gaman að leika með nýtt dót og af nægu er að taka í úrvali á þeim vettvangi. Sumir fá titrandi jólapakka frá einhverjum sem titrar af hvílubragðatilhlökkun. Aðrir fá kannski farseðil á einhvern stað sem báða aðila hefur lengi dreymt um að heimsækja. Það skerpir ævinlega á ástarbrímanum að upplifa saman ókannaðar slóðir, hvort sem þær eru á landakortinu eða annars staðar.

En bestu jólapakkarnir eru yfirleitt þeir sem enga hafa lögun og kosta ekki krónu.

Gerum saman, verum saman, tölum saman.

Snertumst, strjúkum, gælum og kyssumst.

Sprautum úr límtúpunni og bætum á brúsann sem geymir þetta sem heldur fólki saman.

Við skulum líma okkur sem mest saman á jólunum, njóta þess að klístrast saman, giljagaurast og bjúgnakrækjast, opna hjörtun, láta kærleikann flæða frá okkur og inn í okkur.

Halelúlja!