Það er ómetanlegt að fá innsýn í ólíka heima tilverunnar í gegnum linsu ljósmyndarans Ragnars Axelssonar. Nú síðast bauðst honum að ferðast til suðurskautsins með leiðangri sem skipulagður var á slóðir landkönnuðarins Shackletons.

Það er ómetanlegt að fá innsýn í ólíka heima tilverunnar í gegnum linsu ljósmyndarans Ragnars Axelssonar. Nú síðast bauðst honum að ferðast til suðurskautsins með leiðangri sem skipulagður var á slóðir landkönnuðarins Shackletons. Það gat ekki farið hjá því, að rættist vel úr slíku stefnumóti. Og afraksturinn lætur ekki á sér standa.

Stórkostlegar ljósmyndir og frásögn RAX af fjölskrúðugu dýralífinu á suðurskautinu eru bornar á borð fyrir lesendur Sunnudagsmoggans á aðfangadag. Í áramótablaðinu verður lýst leiðangrinum og þrautseigju, afrekum og ævintýrum Shackletons, en með myndum og frásögn RAX. Og að síðustu verður farið yfir þá hlið sem lýtur að vísindamönnum í leiðangrinum í fyrsta Sunnudagsmogganum á nýju ári. Jafnframt getur fólk glöggvað sig á lífinu, landslaginu og hljóðunum á þessum framandi slóðum með því að skoða myndskeið á Mbl.is.

Ljósmyndirnar eru birtar á sama tíma og áhrifarík sýning er á ljósmyndum Ragnars í Gerðubergi og metnaðarfull ljósmyndabók hans um lífið á norðurhjara. Það var ekki að tilefnislausu að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, ritaði fyrir skemmstu í vikulegum pistli sínum „af innlendum vettvangi“ í Sunnudagsmogganum um það „mikla menningarafrek“ sem RAX hefði unnið „af hógværð en staðfestu og listfengi“.

„Raxi, þessi ungi piltur, sem nú er kominn yfir fimmtugt og hefur alla tíð látið lítið yfir sér, hefur unnið einstakt afrek, ekki bara á mælikvarða okkar hér á þessari eyju, heldur á alþjóðavísu með því að ljósmynda lífshætti fólks á norðurhjara veraldar og tryggja með því að heimildir um líf þess verða til, hvernig sem fer um framtíð þess á þeim slóðum á næstu áratugum, sem enginn getur spáð fyrir um. Þetta hefur Raxi gert án þess að sérstaklega væri eftir því tekið ásamt því að sinna daglegum störfum sínum á ritstjórn Morgunblaðsins.

Með myndum sínum frá norðrinu hefur Raxi ekki aðeins tryggt að heimildir verða til um menningu fólksins, sem þar býr. Hann hefur líka þau áhrif með myndunum að beina athygli okkar að því, sem okkur stendur sem þjóð nær en flest annað. Við lifum í útjaðri veraldar þessa fólks en við erum engu að síður í hópi næstu nágranna þess og þess vegna eigum við að láta örlög þess okkur nokkru varða.“

RAX hefur unnið á Morgunblaðinu frá átján ára aldri, en hann byrjaði raunar fyrr í sumarvinnu, sextán ára, og vann þá við að framkalla og taka ljósmyndir á íþróttaviðburðum. Full ástæða er til að taka undir niðurlagsorð Styrmis í fyrrgreindum pistli:

„Ég efast ekki um, að Ragnari Axelssyni hefur þótt nokkuð til þess koma átján ára gömlum að vera ráðinn til starfa á Morgunblaðinu.

Nú er það Morgunblaðinu vegsauki að hafa Raxa í hópi starfsmanna sinna.“

Einnig er ástæða til að geta þess jafnframt að ljósmyndarar Morgunblaðsins hafa jafnan borið hróður blaðsins víða og verið eftirsóttir utan blaðs sem innan. Nýjasta dæmið um það er ljósmyndabók Einars Fals Ingólfssonar, Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwoods, sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Sú eigulega bók hefði raunar staðið betur undir því en flestar aðrar að vera tilnefnd í flokki „fagurbókmennta“, sem sýnir hversu torvelt getur verið að skilgreina listina.