Arnar Jónsson leikur Lé konung í Þjóðleikhúsinu þegar verkið verður frumsýnt á annan í jólum.
Arnar Jónsson leikur Lé konung í Þjóðleikhúsinu þegar verkið verður frumsýnt á annan í jólum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lér konungur mun stíga á svið Þjóðleikhússins á sunnudaginn í leikstjórn Benedicts Andrew. Notast verður við nýja þýðingu verksins eftir Þórarinn Eldjárn. Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is

Shakespeare byggði verk sitt um Lé konung ( King Lear ) á keltneskri goðsögn um Leir konung sem hegðaði sér heimskulega á síðustu metrum síns valdatíma. Lér konungur Shakespeares skiptir konungdæmi sínu milli tveggja dætra sinna sem mest smjaðra en gerir þriðju dótturina, sem er hreinskilin og góð, arflausa. Þegar dæturnar eru komnar með völdin í sínar hendur missa þær virðinguna fyrir föður sínum og hrekja hann einsamlan á vergang. Valdagræðgin og sviksemin smitar út frá sér og brátt brýst út stríð í ríkinu og bræður og systur berast á banaspjót. Verkið er svo mikill harmleikur að skrifaður var nýr endir á það eftir lát Shakespeares og um tíma var hann ávallt notaður til að áhorfendur færu ekki niðurbrotnir heim til sín.

Lér konungur er reglulega sýndur út um allan heim og hefur haft gríðarleg áhrif á velflestar listgreinar samfélagsins. Ótalmargar bíómyndir hafa verið gerðar beint eftir verkinu og síðan nokkrar frægar sem eru byggðar á því. Dæmi um slíkt er fjórða dogmamyndin, The king is alive , indverska bíómyndin The Last Lear og Ran eftir Akira Kurosawa þar sem hann færir Lé konung inní japanska Sengkoku-tímabilið á 17. öld. En sú áhrifamikla mynd sem er frá 1985 er sá brunnur sem Steven Spielberg átti síðar eftir að ausa úr við gerð Saving Private Ryan .

Verkið á langa sögu hér á landi. Ein þekktasta sýning á Lé var árið 1977 þegar Líbanski Armeninn Hovhannes var fenginn til að stýra verkinu. Sumir sem störfuðu með honum sögðu að það hefði breytt lífi sínu en þeir sem sáu sýninguna lofuðu hana mjög. „... hátindur á ferli Þjóðleikhússins og tímamótaviðburður í íslensku leikhúslífi,“ skrifaði Sverrir Hólmarsson í Þjóðviljann.

Nú í ár er það Ástralinn Benedict Andrews sem leikstýrir verkinu en það er skemmtileg tilviljun að það verk sem verður í hvað mestri samkeppni um áhorfendur er Shakespeare-verkið Ofviðrið sem hinn vinsæli leikstjóri Oskaras Koršunovas setur á svið á sama tíma í Borgarleikhúsinu. Andrews er bæði vinsæll og virtur leikstjóri og verður áhugavert fyrir áhorfendur að sjá nálgun hans á verkinu.

Þýðingin

Þórarinn Eldjárn var fenginn til að þýða verkið og hefur hann þegar fengið tilnefningu til Þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína. Í tilnefningunni segir: „Þróttur og dirfska einkenna þýðingu Þórarins öðru fremur, og ber hún þess merki að vera gerð fyrir leiksvið þar sem miklu skiptir að tilsvörin séu í senn mergjuð og beinskeytt.“

Aðspurður segir Þórarinn að markmiðið hafi verið að „ganga alltaf fyrst og fremst út frá því hvað er verið að segja, hvernig er hægt að segja það á venjulegri nútímaíslensku þannig að það skiljist,“ segir hann. Ljóst er af samanburði á þýðingum Helga Hálfdanarsonar og Þórarins að nútímamanni er ljós merking setningana í þýðingu Þórarins strax við lesturinn en sumar setningar Helga þarf maður að lesa nokkrum sinnum til að skilja þær. Hvor þýðingin er betri er líklega álitamál en báðar eru þær mjög góðar.

Sem dæmi úr meðförum textans er þetta atvik í verkinu þar sem Lér formælir dóttur sinni Góneríl:

Shakespeare:

Into her womb convey sterility!

Dry up in her the organs of increase; / And from her derogate body never spring / A babe to honour her! / If she must teem, / Create her child of spleen; that it may live, / And be a thwart disnatured torment to her!/ Let it stamp wrinkles in her brow of youth...

Í þýðingu Helga Hálfdanarsonar:

Lát ófrjósemi hníga henni í skaut og hennar fóstur-fangstað þorrinn visna, og aldrei vaxa af hennar smánar-holdi það barn sem hana heiðri. Fæði hún samt, þá skapaðu henni bölsins barn, sem lifi henni til sjúkrar hörmungar og kvala, risti feiknstöfum hennar unga enni...

Í þýðingu Þórarins Eldjárns:

Ég grátbið þig að gelda hennar kvið, þurrka í henni æxlunarfærin öll, svo aldrei megi kvikna í klúrum búki yndislegt barn, en ef hún gýtur samt, þá gerðu henni úr því barni böl sem lifi og valdi henni kröm og kvölum heiftarlegum! Láttu það krumpa ennið hennar unga...

Báðir eru textarnir óskaplega fallegir en blæbrigðamunur er á þeim. „Þetta er ekki nein spurning um það að vera að módernísera eða poppa upp textann,“ segir Þórarinn. „Bara að þetta sé skiljanlegt mannamál fyrir leiksvið. Markmiðið er að áhorfandinn nemi alltaf textann jafnóðum.

En að öðru leyti, þá var ég mjög strangur og fylgi bragnum þrælslega. Geri enga málamiðlun með það. Það sem er í bundnu máli það er þannig í þýðingunni.

Ég fylgi stakhendunni út í gegn einsog Shakespeare gerði það. Það sem er í prósa, það er það áfram í þýðingunni. En á íslensku bætist við stuðlasetning. Svo eru auðvitað breytingar í uppsetningunni, það er leiksýningunni sjálfri. Þar er ekki allur textinn notaður, þar er skorið niður á stöku stað.

Þegar svoleiðis er þá er ég kallaður til að laga samskeyti, stöðva blæðingar og rimpa saman. En þýðingin í heild sinni kom út á bók og næsti leikstjóri mun geta notast við hana og skorið eitthvað annað út,“ segir hann. „Menn setja sig oft í einhverjar hátíðlegar stellingar þegar þeir nálgast Shakespeare. En það er algjör óþarfi, hann var ekkert sérlega hátíðlegur sjálfur,“ segir Þórarinn.

Lér konungur verður frumsýndur á annan í jólum, núna á sunnudaginn, í Þjóðleikhúsinu.