Hátíð í bæ Ágætu vinir og samferðamenn. Þá er hann runninn upp hátíðisdagur okkar flestra, aðfangadagur, sem hæst ber kl. 18 en þá hefst jólahátíðin.

Hátíð í bæ

Ágætu vinir og samferðamenn. Þá er hann runninn upp hátíðisdagur okkar flestra, aðfangadagur, sem hæst ber kl. 18 en þá hefst jólahátíðin.

Við hjónin njótum þeirra forréttinda að vera boðið í mat til dótturinnar, tengdasonarins og barnabarnanna. Ekki þarf að sjá um matarstandið, aðeins setjast til borðs þegar kallið, gjörið svo vel, kemur. Þessu fylgir auðvitað að nú ræður maður engu lengur og gerir bara eins og manni er sagt.

Svona hefur þetta verið nokkur undanfarin ár og venjan verið sú að byrjað er að borða einhvern tíma milli 18 og 19.

Fyrir mig er þetta nokkur breyting frá því ég var strákur og einnig eftir að ég fór að búa. Matarveislan hófst þá venjulega kl. 17 og ef mögulegt var þá var búið að vaska upp fyrir messu. Ef við fórum ekki í kirkju var hlustað á messuna í útvarpinu og ekki litið til pakkanna fyrr en messan var búin.

Hátíðarmessan er mjög hefðbundin og auðvitað var það svo að maður var farinn að kunna ferlið utan að kannski 12 ára gamall. Þegar hér er komið í skrifræðinu er loksins komið að því af hverju penna var stungið niður. Ég held nefnilega að barnabörnin hafi aldrei farið í kirkju um jólin og ef þau þekkja sögu jólanna þá er það helst í gegnum skólann. Ég er ekki viss um að þau viti t.d. að sálmurinn Í Betlehem er barn oss fætt er fremst í messusöngnum og Heims um ból aftast. Þau eru nefnilega að borða og bíða eftir því að rífa upp pakkana á meðan messan stendur yfir.

Kannski er þetta bara nöldur í mér sem á ekki einu sinni heima í Velvakanda en eins og segir einhvers staðar í auglýsingu þá á maður alltaf að segja eins og manni finnst og kannski er bæði betra eins og þar stendur. Gömlu góðu siðirnir eru bara börn síns tíma eða hvað?

Gleðilega jólahátíð öll sömul. Farið varlega í hálkunni.

Guðjón.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12
velvakandi@mbl.is