Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Útlit er fyrir að samningar náist milli sjálfstætt starfandi heimilislækna og heilbrigðisyfirvalda milli jóla og nýárs, en núverandi samningar falla úr gildi um áramótin.

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Útlit er fyrir að samningar náist milli sjálfstætt starfandi heimilislækna og heilbrigðisyfirvalda milli jóla og nýárs, en núverandi samningar falla úr gildi um áramótin. Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segist bjartsýnn á að niðurstaða náist í næstu viku. „Það eru viðræður í gangi við [sjálfstætt starfandi heimilislækna], og var fundur í gær. Svo hefur verið boðaður fundur milli jóla og nýárs,“ segir Steingrímur. Hann geti þó ekki tjáð sig um efni eða útfærslu nýrra samninga.

Sjálfstætt starfandi heimilislæknar á höfuðborgarsvæðinu eru tólf og sinna um 22 þúsund sjúklingum. Nýliðun þeirra á meðal hefur gengið illa og fáir sóst eftir þeim stöðum sem auglýstar hafa verið. „Hver svo sem niðurstaðan verður, verður það tryggt að þjónustan fer ekki í uppnám,“ segir Steingrímur. „Ég get fullyrt að það er það góður gangur í viðræðunum að það er engin hætta á að þjónustan verði ekki tryggð.“

Málið ennþá viðkvæmt

Björgvin Á. Bjarnason, formaður Heimilislækna utan heilsugæslu, tekur í sama streng. Ekki beri mikið í milli og líklegt að niðurstaða náist milli jóla og nýárs. Hann segir málið hins vegar viðkvæmt og vill ekki tjá sig um útfærslu eða efni samkomulags frekar en Steingrímur Ari.

Samningar sjálfstætt starfandi heimilislækna runnu út í ráðherratíð Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, og hún sökuð um einhliða uppsögn þeirra og að búa til óþarfa óvissu um þjónustu læknanna við hinn mikla fjölda sjúklinga sem þeir sinna. Í samtali við Morgunblaðið um mitt ár sagði hún þetta ekki rétt, samningarnir hafi runnið út um síðastliðin áramót og venjan væri sú að samningar giltu í eitt ár frá því þeir rynnu út. Á því væri engin breyting nú, en hinn 1. maí síðastliðinn hafi heimilislæknunum hins vegar verið tilkynnt að samningar yrðu ekki óbreyttir nema til áramóta. Álfheiður sagði málin ekki í uppnámi, „enda sex mánuðir til stefnu,“ en nú er ljóst að sá frestur hefur verið allur nýttur.

  • „Ég get fullyrt að það er góður gangur í viðræðunum“. Steingrímur Ari Arason

Leiðrétting 28. desember - Stöður heilsugæslulækna

Í frétt Morgunblaðsins 24. desember síðastliðinn var því ranglega haldið fram að erfitt hefði reynst að manna stöður sjálfstætt starfandi heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Hið rétta er að mikil ásókn er í þau störf. Hins vegar hefur gengið erfiðlega að manna stöður heilsugæslulækna.