Allir synir mínir Með helstu hlutverk í verkinu fara Jóhann Sigurðarson, Guðrún Gísladóttir, Björn Thors, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir og Atli Rafn Sigurðarson, en frumsýning er á föstudag.
Allir synir mínir Með helstu hlutverk í verkinu fara Jóhann Sigurðarson, Guðrún Gísladóttir, Björn Thors, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir og Atli Rafn Sigurðarson, en frumsýning er á föstudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.is „Umfjöllunarefnið hefur stöðuga skírskotun.

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir

ben@mbl.is

„Umfjöllunarefnið hefur stöðuga skírskotun. Verkið fjallar um að kunna að lifa í samfélagi með öðru fólki og bera samábyrgð á hag og heill fjöldans í stað þess að hugsa bara um eigin hagsmuni og láta peningafíkn og græðgi ráða gerðum sínum,“ segir Stefán Baldursson sem leikstýrir Öllum sonum mínum, verki Arthurs Miller sem frumsýnt verður á föstudag í Þjóðleikhúsinu.

Verkið samdi Miller þegar hann var rétt um þrítugt en þá hafði hann skrifað nokkur verk sem höfðu ekki notið sérstakrar velgengni. „Hann hafði sagt að ef þetta tækist ekki núna myndi hann hætta að skrifa leikrit en sem betur fer tókst þetta svona vel að það sló í gegn þegar það var frumsýnt 1947. Í framhaldinu hlóð það á sig verðlaunum og hefur lifað góðu lífi síðan, enda er það reglulega á fjölum leikhúsa um allan heim.“

Stefán segir það enga tilviljun, verkið sé frábærlega skrifað og eigi alltaf við. „Það eru mjög margir efnisþættir verksins sem hafa sterka skírskotun til þess sem hefur verið að gerast hjá okkur. Þetta fjallar um mikilvægi þess að vera heiðarlegur og svíkja ekki sjálfan sig og eigin samvisku vegna fégræðgi eða tímabundinna hagsmuna.“

Sótti í smiðju Ibsens

Verkið er hefðbundið í formi og „gríðarlega vel uppbyggt“ að sögn Stefáns, sem bætir því við að Miller hafi sjálfur sagt að hann hafi sótt í brunn Ibsens hvað það varðar. Þótt verkið gerist að lokinni seinni heimsstyrjöldinni segir Stefán ekki lögð áhersla á það í þessari uppfærslu að festa sig um of í sögulegum tíma verksins. „Auðvitað er töluvert af skírskotunum í texta verksins til seinni heimsstyrjaldarinnar af því að leikritið gerist á þeim tíma en við höfum ekki gengist upp í að binda uppfærsluna sögulega nákvæmlega í þeim tíma. Tilvísanir verksins eru algildar og geta átt við stríð almennt. Mikilvægast er að persónur leiksins séu trúverðugar manneskjur og öðlist líf á sviðinu hér og nú.“

ALLIR SYNIR MÍNIR FJALLAR UM SIÐFERÐILEGAR SPURNINGAR

Stöðugur stríðsrekstur Bandaríkjamanna

Leikverkið Allir synir mínir fjallar um fjölskyldu sem bíður eftir því að yngri sonurinn snúi aftur heim úr stríðinu, þar sem hann týndist fyrir þremur og hálfu ári, en móðirin heldur í vonina um að hann sé á lífi. Fjölskyldufaðirinn sem er verksmiðjueigandi framleiðir vélarhluti í herflugvélar og hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa selt gallaða vélarhluti sem orsökuðu dauða 21 flugmanns. Málið hvílir engu að síður mjög þungt á fjölskyldunni og er orsakavaldur í atburðarás verksins.

„Þótt Miller hafi seinni heimsstyrjöldina í bakgrunni á það stöðugt erindi vegna þeirra siðferðilegu og tímalausu spurninga, sem persónur verksins glíma við.“ segir Stefán. „Stríðsskírskotanir þessarar bandarísku fjölskyldu, sem verkið fjallar um, gætu allt eins átt við hinar ýmsu styrjaldir eftir seinna stríð, s.s. Kóreustríðið, Víetnamstríðið, Íraksstríðið eða stríðið í Afganistan. Það er stöðugt verið að senda unga, bandaríska drengi í alls kyns stríðshremmingar og hörmungar og oft beint í dauðann.“