Undirbúningur Rabarbari hefur löngum verið vinsæll í sultur, bökur og fleira.
Undirbúningur Rabarbari hefur löngum verið vinsæll í sultur, bökur og fleira.
Dagur rabarbarans verður haldinn hátíðlegur á Árbæjarsafninu í dag og hefjast hátíðahöld klukkan 15. Dagurinn er haldinn í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands og Árbæjarsafnsins.

Dagur rabarbarans verður haldinn hátíðlegur á Árbæjarsafninu í dag og hefjast hátíðahöld klukkan 15. Dagurinn er haldinn í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands og Árbæjarsafnsins. Er honum ætlað að minna á mikilvægi þess að viðhalda ræktun rabarbarans og nýtingu hans sem hefur verið samofin sögu okkar og menningu í 130 ár. Þá er nú einnig í bígerð að koma upp svokölluðum sögulegum görðum við húsin á Árbæjarsafni. Í þeim verður að finna plöntur sem eru afkomendur þeirra plantna sem ræktaðar voru á ákveðnum tímabilum í Reykjavík.

Rabarbarinn mikið nýttur

„Erfðalindasetur Landbúnaðarháskóla Íslands er að vinna að því að styrkja sambandið á milli grasagarða og minjasafna einmitt með því að vernda gamlar nytjaplöntur og reyna að draga saman sögu þeirra og nýtingu,“ segir Birna Kristín Baldursdóttir, starfsmaður Erfðalindaseturs. Hún segir það helst vera áhugafólk um að nýta sér það sem í garðinum þeirra er sem prófi sig áfram með nýtingu rabarbarans.

„Rabarbari barst fyrst til landins í kringum 1880. Hann var mikið nýttur enda er auðvelt að rækta hann og hann er góður í alls kyns rétti. Ræturnar voru til að mynda niðursoðnar og kallaðar perur. Ég hef hitt fólk sem man eftir að hafa borðað slíkt á jólunum þegar ekkert var til af neinu,“ segir Birna Kristín.

Á dagskrá í dag verða þrjú erindi; Erfðaauðlindir og gildi flutt af Áslaugu Helgadóttur, Saga rabarbarans flutt af Vilmundi Hansen og Nýting rabarbarans flutt af Brynhildi Bergþórsdóttur. Að loknum fyrirlestrum fer síðan fram bökukeppni og eru allir hvattir til að láta hendur standa fram úr ermum og baka. Valin verður besta rabarbarabakan.