Hólmfríður Gísladóttir
holmfridur@mbl.is
Pole fitness, eða súlufitness, hefur hingað til verið kvennasport á Íslandi en nú hefur bæst í hóp iðkenda Jón Baldur Bogason, sem er 25 ára og eins og nafnið gefur til kynna, karlmaður. Hann hefur æft íþróttina í hálft ár og segir hana skemmtilegri en nokkra aðra líkamsrækt.
„Mig langaði rosalega að prófa þetta og við vorum tveir strákar sem byrjuðum saman og svo bættist sá þriðji við,“ segir Jón Baldur en hann var sá eini af strákunum sem hélt áfram. „Ég var í glötuðu formi, hef aldrei æft íþróttir og gafst upp á ræktinni eftir hálft ár. Þetta er miklu skemmtilegra,“ segir hann en viðurkennir að fyrstu tímarnir hafi verið erfiðir og þeim hafi fylgt harðsperrur og tilheyrandi.
„Súlufitness reynir mikið á vöðvana í efri hluta líkamans, t.d. magavöðvana,“ segir Jón sem blæs á þá gagnrýni að súlufitness sé íþróttavæddur nektardans og segir súluna ekkert annað en fimleikaáhald. „Við getum gert rútínur af æfingum sem sumir myndu túlka sem dans en mér finnst það bara glatað því þetta er fáránlega erfitt og bara eins og fimleikar á súlu. Maður á bara að vera elegant og reyna að gera þetta án þess að vera með mikinn brussugang,“ segir hann og hlær.
Jón æfir í Pole Sport og er í hópi með fjórum stelpum en hann segir að erlendis séu margir karlmenn fáránlega færir á súlunni og að á Evrópumeistaramótinu í íþróttinni keppi þeir í sama flokki og konurnar. „Ætli þetta sé ekki ein af fáum íþróttum í heiminum þar sem karlar og konur keppa á jafnræðisgrundvelli.“
Líka fyrir karlmenn