Kolbrún Bergþórsdóttir
Kolbrún Bergþórsdóttir
Atvinnurekendur hljóta ekki einungis að gera þá sjálfsögðu kröfu til starfsmanna sinna að þeir nenni að vinna heldur einnig að þeir vandi vinnubrögð sín.

Atvinnurekendur hljóta ekki einungis að gera þá sjálfsögðu kröfu til starfsmanna sinna að þeir nenni að vinna heldur einnig að þeir vandi vinnubrögð sín. Þjóðin hlýtur að gera þessa sömu kröfu til ríkisstjórnar Íslands, en jafnvel umburðarlyndustu og mildustu menn hljóta að vera við það að missa þolinmæðina, því ríkisstjórnin verður uppvís að fúski í hverju málinu á fætur öðru. Nú síðast í kvótamálinu.

Reyndar er kvótamálið eitt af þeim málum sem maður hefur fram að þessu fagnað því að þurfa ekki að hafa skoðun á. Maður hefur hugsað með sér að sennilega sé best að láta stjórnmálamennina um að útkljá það mál. Þeir séu einmitt kosnir til þess að taka upplýsta afstöðu og skynsama ákvörðun í þessu flókna máli. En svo hallar maður sér aftur, fylgist með ríkisstjórninni að störfum og ekki líður á löngu áður en manni er gjörsamlega ofboðið. Um leið er enginn annar kostur í boði en að rétta upp hönd og segja: Augnablik, þetta er nú ekki í lagi hjá ykkur!

Það er sérstakt baráttumál þessarar ríkisstjórnar að breyta kvótakerfinu. Þar hefur ríkisstjórnin meirihluta landsmanna á bak við sig. Fátt er þjóðinni nefnilega verr við en „útgerðarauðvaldið“ svokallaða, en þá er átt við þá sem hagnast hafa á kvótakerfinu. Reyndar minnir þetta viðhorf um of á gamaldags kommúnisma, en látum það liggja á milli hluta að þessu sinni. Aðalatriðið er að flumbrugangurinn í þessari ríkisstjórn er svo mikill að hún sendir frá sér kvótafrumvarp sem allir sérfræðingar eru sammála um að sé ekki bara óbrúklegt heldur beinlínis skaðlegt. Getur einhver haldið því fram að þetta verklag ríkisstjórnarinnar sé í lagi?

Ef ríkisstjórnin vill breyta kvótakerfinu, og vel má vera að þess þurfi nauðsynlega, þá verður að gera þá lágmarkskröfu að hún vandi vinnubrögð sín og komi saman frumvarpi sem sæmileg skynsemi er í. En það er greinilega óvinnandi vegur þegar þessi ríkisstjórn á í hlut. Hún veit nákvæmlega ekkert hvað hún er að gera. Þess vegna væri skást fyrir þegnana að hún gerði sem minnst. Hún ylli þá ekki alvarlegum skaða á meðan.

Það þýðir ekki fyrir ríkisstjórnina að gala stöðugt að það sé brýnt mannréttindamál að kvótakerfinu verði breytt! Það verður að vera sýnilegt að breyting sé til bóta, en stuðli ekki að kollsteypu í sjávarútvegi, kalli ógæfu yfir sum byggðarlög og skaði fyrirtæki sem nú eru vel rekin.

Innan ríkisstjórnarinnar eru menn sem sjá að betur hefði verið heima setið en af stað farið í þessu máli. Klúðrið blasir við. Skynsamir menn innan ríkisstjórnarinnar – já þeir finnast víst nokkrir, halelúja! – verða að standa fast á sínu og andmæla hástöfum. Þeim verður kannski gefið afar illt auga við ríkisstjórnarborðið vikum saman en geta huggað sig við að þeir eru að tala máli skynseminnar. Og það er sannarlega þörf á dágóðum skammti af skynsemi í ríkisstjórn sem er á endalausum villigötum. kolbrun@mbl.is