Skip Yfir sumartímann leggja stór skemmtiferðaskip gjarnan leið sína til Reykjavíkur eða Akureyrar.
Skip Yfir sumartímann leggja stór skemmtiferðaskip gjarnan leið sína til Reykjavíkur eða Akureyrar. — Morgunblaðið/Kristinn
„Þetta er eins og seglskip, stendur hátt upp úr sjónum og tekur mikinn vind á sig.

„Þetta er eins og seglskip, stendur hátt upp úr sjónum og tekur mikinn vind á sig. Við ákveðin mörk ráða bógskrúfurnar ekki við að halda skipinu,“ segir Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, um ástæður þess að skemmtiferðaskipið AIDAluna gat ekki lagt að bryggju við Skarfabakka í Reykjavík á þriðjudag. Að sögn Ágústs var vindhraði 13 til 16 metrar á sekúndu þegar skipið kom í lóðs en eftir því sem leið á daginn bætti í vindinn. Skipið AIDAluna er um 69 þúsund tonn að stærð. Um 3.400 manns voru um borð í skipinu og því vildi skipstjórinn enga áhættu taka. „Það er ekki oft sem þetta gerist og þá er það frekar á haustin,“ segir Ágúst.

Missir að skipinu fyrir ferðaþjónustu

„Þegar skip af þessari stærðargráðu kemst ekki upp að bryggju verður auðvitað tekjumissir og tekjutap,“ segir Yngvi Örn Stefánsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel Assistance, ITA, en fyrirtækið rekur upplýsinga- og þjónustumiðstöð á Skarfabakka sem sniðin er að þörfum farþega skemmtiferðaskipa. Skipið AIDAluna kemur nokkrum sinnum á ári og hefur gert undanfarin ár. Komur skemmtiferðaskipa skipta máli fyrir íslenska ferðaþjónustu en von er á AIDAluna aftur til landsins síðar í sumar og í haust. „Það er leiðinlegt þegar þetta gerist en við búum við að vera háð ytri aðstæðum,“ segir Yngvi um atvik mála á þriðjudag og nefnir veður og vinda, eldgos og aðrar náttúruhamfarir. kristel@mbl.is