Alþingi Formaður Sjálfstæðisflokksins vill þingið til starfa.
Alþingi Formaður Sjálfstæðisflokksins vill þingið til starfa. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjalti Geir Erlendsson hjaltigeir@mbl.is Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að þing verði kallað saman hið fyrsta. Hann segir sífelt bætast í sarpinn af nýjum málum sem valdi tjóni fyrir borgarana og hagsmuni Íslendinga.

Hjalti Geir Erlendsson

hjaltigeir@mbl.is

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að þing verði kallað saman hið fyrsta. Hann segir sífelt bætast í sarpinn af nýjum málum sem valdi tjóni fyrir borgarana og hagsmuni Íslendinga.

Nýjasta klúðrið séu vandamál við að tryggja þeim sem eigi rétt á hlutaatvinnuleysisbótum greiðslur í haust. Þá þurfi að tryggja að útboðsmálin á Drekasvæðinu geti hafist sem fyrst og sömuleiðis telur Bjarni fullt tilefni til að ræða aðildarviður Íslands við Evrópusambandið í þinginu.

Óvissa um atvinnuleysisbætur

Ekki tókst að afgreiða frumvarp um framkvæmd atvinnuleysistrygginga fyrir þinglok í vor vegna mikilla anna í þinginu. Málið hafði verið rætt í tvær umræður en var ekki vísað til nefndar milli annarrar og þriðju umræðu vegna samkomulags í félags- og tryggingamálanefnd. Málið var hins vegar aldrei afgreitt og því hefur skapast óvissa um greiðslur, til einstaklinga sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum en eru í hlutastarfi, í ágúst og byrjun september. Þingmenn hafa bent á að með því að kalla saman þing sé hægt að klára málið auðveldlega. Einnig megi setja bráðabirgðalög sem tryggi greiðslurnar.

„Ég tel ekki tilefni til að setja bráðabirgðalög, það er augljóst að það væri eðlilegra að kalla þingið saman til þess að ljúka þessu máli og ekki síður hinu málinu, sem er ekki síður mikilvægt, sem eru útboðsmálin á Drekasvæðinu sem hafa tafist vegna klúðurs,“ segir Bjarni Benediktsson í samtali við Morgunblaðið.

Útboðsmálin á Drekasvæðinu komist í almennilegan farveg

Huganlega þarf að fresta útboði á olíuleit á Drekasvæðinu þar sem ekki tókst að afgreiða nauðsynleg frumvörp fyrir þinglok. Samkvæmt áætlunum áttu útboð að hefjast 1. ágúst en gildandi lög samræmast ekki útboðsskilmálum sem búið er að kynna.

Með því að kalla saman þing gæfist tækifæri að mati Bjarna til að bæta úr klúðri stjórnarinnar í fjölda mála. Hann segir útboðsmálin á Drekasvæðinu mikið hagsmunamál sem þurfi nauðsynlega að koma í almennilegan farveg í sumar.

„Orkumálastjóri hefur sagt að málið sé að frestast á versta mögulega tíma. Þá eiga menn bara að bretta upp ermar og kippa því í liðinn,“ segir Bjarni. Hann telur einnig eðlilegt að ræða þá stöðu sem uppi er í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

„Síðan þinginu var frestað í vor hafa þau tímamót orðið að viðræðurnar um aðild Íslands að ESB hafa farið af stað og ef þingið kæmi saman þætti mér eðlilegt að menn gæfu sér tíma í að ræða þá stöðu sem uppi er í því máli.

Bjarni telur lítið mál að kalla þingið saman. Hann leggur til að fulltrúar allra þingflokka komi saman og ákveði tímaramma sem þingið gæti starfað eftir í sumar.