[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjárhagsaðstoð ríkisins við banka og fjármálafyrirtæki hefur verið umfangsmikil og margs konar frá hruni og nemur hún samtals um 470 milljörðum króna.

Fjárhagsaðstoð ríkisins við banka og fjármálafyrirtæki hefur verið umfangsmikil og margs konar frá hruni og nemur hún samtals um 470 milljörðum króna. Hefur hún verið í formi eiginfjárframlaga gegn eignarhluta, lausafjárfyrirgreiðslu, víkjandi lána og niðurfellingu skulda. Fjármálaráðuneytið hefur sagt að stór hluti þessa fjár muni með einum eða öðrum hætti fást greiddur til baka, annaðhvort þegar lán verða greidd upp eða þegar eignarhlutar ríkisins verða seldir. Alls er hins vegar óvíst hvenær af slíkri sölu verður og hvaða verð fæst.

Fréttaskýring

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Fjármálafyrirtæki fá eiginfjárframlög, víkjandi lán og lausafjárfyrirgreiðslur upp á 470 milljarða króna

Fréttaskýring

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Fjárhagsaðstoð ríkis og Seðlabanka til íslenskra fjármálastofnana frá bankahruni, í hvaða formi sem hún hefur verið, nemur alls tæpum 470 milljörðum króna. Er þar um að ræða eiginfjárframlög, víkjandi lán, lausafjárfyrirgreiðslur eða eftirgjöf skulda. Eins og fjármálaráðuneytið hefur bent á hefur ríkið fengið eignir eða veð á móti í sumum tilfellum og því má segja að ekki sé um endanlegan kostnað að ræða. Upphæðirnar eru hins vegar mjög háar og endurgreiðslur að minnsta kosti að hluta háðar því að hagkerfið komist á lappirnar að nýju.

Fyrst ber að telja eiginfjárframlag til nýju bankanna þriggja, Íslandsbanka, Arion og Nýja Landsbankans, NBI. Samtals nemur það 135 milljörðum króna og fékk ríkið eignarhlut í bönkunum á móti. Hversu mikils virði sá eignarhlutur er verður ekki ljóst fyrr en reynt verður að selja hann eða bankarnir verða skráðir á hlutabréfamarkað.

Þá fengu Arion banki og Íslandsbanki víkjandi lán, um 30 milljarða í tilviki Arion og 25 milljarða í tilviki Íslandsbanka. Þessi lán ber að greiða til baka í evrum eftir tíu ár.

Arion og Íslandsbanki hafa að auki fengið lausafjárfyrirgreiðslu, annars vegar frá ríkissjóði og hins vegar frá Seðlabankanum. Er það vegna flutnings á innlánum frá Straumi til Íslandsbanka og frá SPRON til Arion, en einnig vegna annarra þátta sem urðu til við skiptingu gömlu bankanna frá þeim nýju. Í tilviki Íslandsbanka nemur þessi fyrirgreiðsla samtals rúmum 80 milljörðum króna en í tilviki Arion er upphæðin ríflega 135 milljarðar. Aftur er um lán eða lánsheimildir að ræða en ekki bein fjárframlög.

Lánastofnanirnar VBS og Saga Capital fengu svo samtals um 46 milljarða króna víkjandi lán í kjölfar bankahrunsins 2008. Þegar þrengja tók um á lánsfjármörkuðum á því ári störfuðu VBS og Saga Capital sem milliliður í fjármögnun viðskiptabankanna þriggja, en fjármagnið var sótt til Seðlabankans. Eftir að viðskiptabankarnir féllu stóðu fjármálafyrirtækin tvö uppi með téðar skuldir gagnvart ríkinu, en lítil veð. Lánin voru með tveggja prósenta vöxtum, sem þóttu gríðarlega góð kjör á þeim tíma og kvörtuðu keppinautar fyrirtækjanna tveggja undan því sem þeir kölluðu óeðlilega ríkisaðstoð. VBS hefur í kjölfarið verið tekið til gjaldþrotaskipta, en Saga er enn starfandi.

Að lokum ber að nefna eftirgjöf Seðlabankans á skuldum nokkurra sparisjóða og eiginfjárframlag ríkisins til Sjóvár. Það framlag nam um tólf milljörðum króna og fékk ríkið í staðinn ríflega sjötíu prósenta eignarhlut í tryggingarfélaginu. Til stóð að selja þá eign að hluta, en viðræður urðu að engu.

Sparisjóður Þórshafnar, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Vestmannaeyja fengu samtals skuldaeftirgjöf að fjárhæð um 5,1 milljarður króna frá Seðlabankanum. Var hún færð til tekna hjá mörgum þeirra og skiluðu þeir því umtalsverðum hagnaði það ár.

Dýrkeypt ríkisaðstoð í Danmörku og á Írlandi

Nágrannaríki okkar hafa ekki verið laus við áhrif fjármálakreppunnar, eins og margoft hefur komið fram í fréttum, en áhrifin hafa verið mismikil eftir ríkjum.

Fjöldi danskra banka hefur orðið gjaldþrota og hefur danska ríkið neyðst til að koma þeim til aðstoðar með eiginfjárframlögum eða með því að taka þá hreinlega yfir. Í síðustu viku sagðist Jan Kondrup, formaður samtaka smærri fjármálastofnana í Danmörku, óttast að orðspor Danmerkur í alþjóðafjármálum verði álíka slæmt og Ísland fékk í kjölfar bankahrunsins. Þessi ótti Kondrups kemur í kjölfar gjaldþrots danska smábankans Fjordbank Mors, sem er tiltölulega lítill banki, en afleiðingar gjaldþrotsins gætu orðið alvarlegar. Óttast menn að ný bylgja af bankagjaldþrotum gæti verið í uppsiglingu í Danmörku, en talið er að gjaldþrotið geti kosta danska ríkið um 65 milljarða króna. Segir Kondrup að dönsk stjórnvöld beri ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin vegna aðstoðar sinnar við bankakerfi landsins.

Fáar þjóðir hafa hins vegar þurft að bera jafnháan kostnað vegna aðstoðar við eigið bankakerfi og Írar. Írska stjórnin ábyrgðist haustið 2008 allar skuldir írskra banka og hefur í kjölfarið varið tugum milljarða evra í víkjandi lán og aðra fjárhagsaðstoð til bankanna. Þrátt fyrir það hefur hún neyðst til að taka yfir einstaka stóra banka eins og Allied Irish.

Írar fengu sem kunnugt er neyðarlán frá ESB í fyrrahaust þegar skuldavandi ríkisins reyndist því ofviða, líkt og raunin varð í evruríkjunum Grikklandi og Portúgal. Mörgum þykja kjörin á láninu allt of þungbær og hefur ný ríkisstjórn sagst vilja semja upp á nýtt um kjörin.

Áætlað er að árið 2013 fari 20% af tekjuskatti á Írlandi í að standa straum af vöxtunum af neyðarlánunum og hefur verið bent á að slík byrði hljóti að bitna á velferðarkerfi Írlands sem og öðrum verkefnum ríkisins.

Þá hefur evrópski seðlabankinn í raun verið að halda fjölda evrópskra banka á floti með endurhverfum lánum. Er til dæmis talið að mjög stór hluti lausafjár smærri banka á Spáni sé fenginn með beinum eða óbeinum hætti frá seðlabankanum. Fari svo að seðlabankinn hætti eða þurfi að hætta slíkri óbeinni aðstoð við evrópskar bankastofnanir munu þær ekki lengi geta staðið í lappirnar.

Ekki ljóst hvaða lögum björgun Sjóvár var studd

Hlutverk ríkissjóðs í endurreisn tryggingafélagsins Sjóvár árið 2009 var gagnrýnt af Ríkisendurskoðun í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2009 . Í skýrslunni er vikið að ýmsum göllum sem Ríkisendurskoðun telur sig sjá á reikningum ríkissjóðs, þar á meðal því að ekki skuli í ríkissjóði getið um verulegar fjárhagslegar skuldbindingar sem ríkissjóður tók á sig árið 2009 vegna yfirtöku banka á innstæðum í föllnum fjármálafyrirtækjum. Er þar átt við lausafjárfyrirgreiðslu til Arion og Íslandsbanka.

Hins vegar er einnig vikið að þeirri ákvörðun stjórnvalda í fyrra að leggja fram 11,6 milljarða í tengslum við endurreisn Sjóvár. Telur Ríkisendurskoðun ekki ljóst „við hvaða lagaheimild fjármálaráðherra studdist“ og þykir málið því gefa tilefni til að „endurskoða þann lagagrunn sem þátttaka ríkissjóðs í endurskipulagningu fjármálafyrirtækja hefur hingað til byggst á“.

Sjóvá var undir sérstöku eftirliti Fjármálaeftirlitsins árin 2008 og 2009 og uppfyllti ekki ákvæði laga um lágmarksgjaldþol tryggingafélaga. Samkvæmt drögum að

efnahagsreikningi frá 28. febrúar 2009 var eigið fé félagsins neikvætt um 13,5 milljarða króna en þurfti að lágmarki að vera jákvætt um tvo milljarða. Var því ljóst að leggja þyrfti félaginu til nýtt eigið fé að fjárhæð 15,5 milljarða til að uppfylla grunnskilyrði um vátryggingarekstur. Að öðrum kosti yrði félagið gjaldþrota, eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

FME benti á í minnisblaði að íslenska ríkinu bæri ekki lagaleg skylda til að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Einnig var bent á að hér á landi væri ekki ábyrgðakerfi vegna gjaldþrots

vátryggingafélaga. Hins vegar kom einnig fram í minnisblaðinu að gjaldþrot félagsins hefði alvarlegar afleiðingar. Ríkið kom því Sjóvá til bjargar í félagi við Glitni banka og Íslandsbanka.