Georg Guðni Hauksson fæddist í Reykjavík 1. janúar 1961. Hann varð bráðkvaddur á Rangárvöllum 18. júní 2011. Foreldrar hans eru Karitas Bjarney Jónsdóttir kjólameistari frá Bolungarvík, f. 15. nóvember 1937, og Haukur Sigurður Tómasson jarðfræðingur, fæddur í Reykjavík 14. febrúar 1932. Systkini Georgs Guðna voru Sigrún, þróunarstjóri bókasafna, f. 30. ágúst 1959, gift Lofti Atla Eiríkssyni menningarfræðingi, og Tómas Kolbeinn, vélstjórnarnemi, f. 20. júlí 1964, látinn 22. mars 1987. Hinn 11. nóvember 1988 kvæntist Georg Guðni Sigrúnu Jónasdóttur, lífeindafræðingi, f. 10. október 1961. Börn þeirra eru: 1) Elísabet Hugrún, f. 11. janúar 1988, nemi í arkitektúr, unnusti hennar er Björn Pálmi Pálmason, nemi í tónsmíðum, f. 7. febrúar 1988. 2) Guðrún Gígja, f. 17. ágúst 1993, verslunarskólanemi. 3) Tómas Kolbeinn, f. 7. júlí 1997. 4) Hrafnkell Tumi, f. 13. júlí 1999. 5) Jón Guðni, f. 23. júlí 2002. Georg Guðni ólst upp í Reykjavík, lengst af í Árbæjarhverfinu. Hann var efnilegur íþróttamaður, lék handbolta með Fylki og unglingalandsliði, en hætti þeirri iðkun er hann hóf myndlistarnám. Hann gekk í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en fékk síðan inngöngu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík árið 1980 og brautskráðist þaðan árið 1985. Leiðin lá næst til Hollands, þar sem hann stundaði nám við Jan Van Eyck Academie í Maastricht árin 1985 til 1987. Georg Guðni hélt fyrstu einkasýningu sína í Nýlistasafninu í Reykjavík 1985 og vakti hún mikla athygli, enda birtist þar sérstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans og markaði upphaf að ferli hans sem frumkvöðuls í endurreisn landslagsmálverksins með nýstárlegri túlkun formrænt og hugmyndalega. Hann hélt fjölmargar málverkasýningar víða um heim og hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín. Hann hlaut menningarverðlaun DV árið 1988, var tilefndur til virtra finnskra verðlauna, Ars Fennica, árið 2000 og þrívegis var hann tilnefndur til Carnegie verðlaunanna. Verk hans eru í eigu marga listasafna á Íslandi og erlendis. Listasafn Íslands hélt yfirlitssýningu á verkum hans árið 2003 er hann var einungis 42 ára. Nokkrar bækur hafa verið gefnar út um list hans, hér á landi og erlendis. Georg Guðni sat í stjórn sjóðs Richard Serra 1993-1995 og í safnráði Listasafns Íslands 1997-2001. Þá starfaði hann í ýmsum nefndum að málefnum tengdum myndlistinni. Hann fékkst við kennslu í Myndlista- og handíðaskólanum, Listaháskóla Íslands og víðar. Útför Georgs Guðna verður gerð frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag, 30. júní 2011, og hefst hún kl. 15.

Í minningu Georgs Guðna.
Þegar ég heyrði að gamli góði bekkjarfélagi minn úr Myndlista- og handíðaskólanum, Georg Guðni, og hjartkær vinur okkar hjóna til þrjátíu ára hefði skyndilega fallið frá gat ég ómögulega meðtekið þau válegu tíðindi. Mér hefði allt eins geta verið sagt að ég væri sjálfur dáinn eða að landið hefði sokkið í sæ án þess að ég hefði tekið eftir því, svo óvænt og fjarstæðukennd var fréttin. Á vissan hátt hafði ég reyndar sjálfur dáið því stór partur af lífi mínu var allt í einu horfinn og harmurinn helltist yfir.
Fyrir okkur sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Guðna náið var hann fyrst og fremst frábær vinur og yndisleg manneskja sem málaði einstakar landslagsmyndir. Strax á námsárum sínum gerðu menn sér grein fyrir að Guðni hafði brotið ísinn og blásið nýju lífi í íslensku landslagshefðina. Honum hafði tekist að laga náttúruna að nútímalegri hugsun og gert hana aftur að verðugu viðfangsefni. Listasagan fæst einkum við að flokka og skilgreina og því lá beint við að kalla hann landslagsmálara, enda gerði Guðni svo sem aldrei neinar athugasemdir við þá nafngift. En það er stór spurning hvort ekki mætti allt eins líta á hann sem afar sérstæðan portrettmálara því þegar betur er að gætt líkjast myndirnar mun meira manninum sjálfum en þeirri náttúru sem þær virðast sýna. Frá þessu sjónarhorni mætti segja að Guðni hafi stöðugt verið að mála sjálfan sig, ósýnilega fyrirsætu sem bregður fyrir í undarlegum búningi kunnuglegs landslags án þess að hönd verði á fest. Guðni notaði nefnilega náttúruna til að koma auga á eigin vitund. Hann málaði sjálfan sig inn í fjallið sem bjó í huganum, eins og hann skrifaði svo eftirminnilega í skissubók sína snemma á ferlinum.
Til að kynnast þeirri manneskju sem Guðni hafði að geyma liggur því næst við að skoða verkin hans. Þau eru laus við allan rembing, einfaldleikinn uppmálaður, jafn traust og jörðin undir fótum okkar, eins margbreytileg og árstíðirnar og einhvern veginn allt umfaðmandi. Hvert sem er litið sést hvorki maður né mús á ferð líkt og landið hafi verið rýmt til að geta tekið betur á móti áhorfandanum. En aðallega eru þó myndirnar leyndardómsfullar rétt eins og Guðna hafi verið mest í mun að festa á striga það sem ekki verður á nokkurn hátt fangað, að sýna okkur eitthvað sem ekki er hægt að sjá.
Guðni var á höttunum eftir andanum. Hann talaði stundum um að nota loftið og regnið til að líma landslagið saman og komast í áþreifanlegt vitundarlegt samband við það. Þetta var hans aðferð til að fjalla um sálina með nútímalegum hætti. Lengi trúðu menn því að augun væru gluggar sálarinnar og lögðu sérstaka áherslu á að ýkja stærð þeirra eins og best sést í koptískri myndlist á fjórðu öld eftir Krist. Guðni fæddist með svona stór augu, dreymin og spurul í senn, sem drukku í sig umhverfið. Hann hafði samt ekki síst ánægju af því að sjá heiminn í gegnum augu barna sinna, sem veittu honum ómælda gleði. Honum fannst svo gaman að sjá hvað þau voru rosalega hissa þegar þau uppgötvuðu hlutina í fyrsta skipti. Sjálfur var hann alltaf jafn hissa á því sem fyrir augu bar, sólginn í að skilja og samsama sig náttúrunni.
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska sögðu Rómverjar er þeir öttu æskunni út í orrustur. Átakanlegt fráfall Guðna sýnir ekki aðeins að guðirnir kunni gott að meta, heldur einnig að þeir geti verið eigingjarnir og algjörlega tillitslausir gagnvart þeim sem eftir lifa. Sigrún Jónasdóttir og börnin þeirra fimm hafa verið svipt elskulegum eiginmanni og ástkærum föður. Þau hjónin voru óvanalega samrýmd og eyddu öllum stundum saman. Þau voru jafn nauðsynleg hvort öðru og olía og strigi er fyrir málverk. Það duldist heldur engum sem til þekkti að Sigrún var hans stoð og stytta og langstærsti aðdáandi og á hann þó ærið marga fyrir. Sú friðsæld og innilega nánd sem við skynjum svo sterkt í verkum hans lýsir ekki síður sambandi Guðna við Sigrúnu en veruleika íslenskrar náttúru. Það er þó nokkur huggun harmi gegn að verkin eiga eftir að lifa sem varanlegur minnisvarði um góðan dreng.
Guðni var fyrir löngu kominn í tölu okkar fremstu listamanna áður en örlögin kvöddu snögglega dyra. Hann endurvakti landslagshefðina svo hressilega upp frá dauða að heill skóli af listamönnum hefur reynt að feta á eftir í fótspor hans. En það er hægara sagt en gert að fara inn í hugarheim Guðna þar sem för hans lá handan allra fjalla og firndinda, eins og fram kemur í hugleiðingum hans í janúar 1989: Ég fer út í fjarlægðina, út í eilífðina þar sem fjöllin hafa órjúfandi kyrrð, þar sem þau eru hætt að vera fjöll, þau eru loftkennd. Ég fer inn í þau, gegnum þau. Það sem býr í fjallinu er líka fyrir utan það [...] og í loftinu rúmast allar hugsanir heimsins.
Líf og list Guðna var einn samfelldur óður til Jarðar. Það er meira en táknrænt að hann skyldi hafa endað þetta ástarævintýri sitt í skauti náttúrunnar, friðsæll með opin augu alltaf jafn hissa.
Elsku Sigrún, við vottum þér og börnunum Elísabetu, Gígju, Tómasi, Tuma og Jóni Guðna okkar dýpstu samúðarkveðju. Blessuð sé minning Guðna.

Hannes og Sesselja.