Björn Hafsteinn Jóhannsson fæddist í Reykjavík 4. júní 1939. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31. ágúst 2011. Björn var sonur Andreu Laufeyjar Jónsdóttur og Jóhanns Garðars Björnssonar. Hann ólst upp hjá föðurömmu sinni, Stefaníu Steinunni Jóhannsdóttur ásamt föðursystkinum sínum, þeim Haraldi og Ingibjörgu Smith Stefánsbörnum. Björn gekk í Austurbæjar- og Laugarnesskóla ásamt Iðnskólanum í Reykjavík og lauk sveinsprófi í rennismíði hjá Vélsmiðjunni Héðni. Hann lauk fyrrihlutaprófi í véltæknifræði frá Tækniskóla Íslands árið 1965 og prófi í rekstrartæknifræði frá Tækniskólanum í Óðinsvéum 1967. Að loknu námi starfaði Björn hjá sælgætisgerðinni Nóa-Síríusi, KR Kristjánssyni og hóf störf hjá Fálkanum hf. árið 1971 þar sem hann gerðist framkvæmdastjóri. Björn starfaði hjá Fálkanum til ársins 2002 þegar hann lét af störfum. Björn eignaðist 10 hálfsystkini föðurmegin sem eru Erna Stefanía, Jóhann, Sigurrós, Birna, Svala, Örn, Hanna, Már, Ómar, og Garðar. Móðurmegin átti Björn fimm hálfsystkini sem eru Hjörvar Óli Björgvinsson, Jón Reynir, Jens Kristberg, Þórey Díana og Jónína Dagný Hilmarsbörn. Hinn 18. júní 1960 kvæntist Björn Þrúði Guðrúnu Sigurðardóttur, f. 28. mars 1939, dóttur hjónanna Svanlaugar Rósu Vilhjálmsdóttur og Sigurðar Finnboga Ólafssonar. Björn og Þrúður eignuðust fjórar dætur sem eru Svana Helen, f. 1960, Brynja Dís, f. 1962, Hildur Inga, f. 1965, og Þórdís, f. 1978. Svana Helen, er gift Sæmundi E. Þorsteinssyni og eiga þau þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein. Brynja Dís er gift Örvari Aðalsteinssyni og eiga þau Birki, Drífu og Kára. Hildur er gift Jóhanni Kristjánssyni og eiga þau Æsu. Jóhann á fyrir Tuma, Nadíu og fósturdótturina Viktoríu. Þórdís á Öldu með Ægi Þór Þórðarsyni. Útför Björns fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 8. september 2011, kl. 11.

Við fráfall Björns tengdaföður míns vil ég minnast hans fáum orðum. Björn var sonur tveggja einstaklinga sem ekki áttust og leiddu aðstæður til þess að amma hans, Stefanía Steinunn Jóhannsdóttir ól hann upp. Stefanía var móðir sex barna og voru tvö þeirra enn á barnsaldri þegar Björn fæddist. Þau voru honum því sem systkini þótt föðursystkini væru. Þetta voru þau Haraldur og Ingibjörg Smith Stefánsbörn. Stefanía amma Björns var ekkja tveggja manna. Fjölskyldan bjó framan af við Laugaveg 76b en fluttist síðar í Skipasund 14 þar sem Jóhann, faðir Björns hafði reist sér hús. Þetta varð til þess að Björn kynntist betur föður sínum og fjölskyldu hans. Björn var sendur í sveit á sumrin að Horni við Hornafjörð. Þar bjuggu sex systkini og myndaðist ævilangur vinskapur þeirra og Björns. Á Horni var ekkert rafmagn og búskaparhættir allir með aldagömlu lagi. Þarna öðlaðist Björn reynslu sem hann bjó að alla tíð. Honum var tíðrætt um dvöl sína á Horni og var unun að heyra lýsingar á hlutum eins og gernýtingu selaafurða, heyskap í úteyjum og reimleikum í húsakynnum úteyjanna. Björn hafði ríka frásagnargáfu og naut uppbyggilegra samræðna. Hann var einnig vel máli farinn og talaði skýra lýtalausa íslensku.

Á unglingsárunum gafst Birni kostur á að starfa mikið með föður sínum sem rak lítið vélsmíðafyrirtæki. Þarna voru m.a. soðnir saman vatnskassar fyrir klósett sem víða eru enn í notkun í eldri húsum hér á landi. Þeir eru ófáir kassarnir sem Björn sauð saman. Björn lærði rennismíði hjá Vélsmiðjunni Héðni. Í fjölskyldu Björns er mikið hagleiksfólk og var hann engin undantekning á því. Hann hafði unun af vélum og hvers kyns smíði þeim tengdum þótt ekki yrði það hans ævistarf. Þar kom annar hæfileiki Björns til skjalanna sem er skipulagsgáfan. Björn skapaði sér tækifæri til að þroska þann hæfileika þegar hann hóf nám í tæknfræði við nýstofnaðan Tækniskóla Íslands. Hann lauk þar fyrrihlutaprófi í véltæknifræði árið 1965 og fór þá til Óðinsvéa þar sem hann lauk prófi í rekstrartæknifræði árið 1967. Björn og Þrúður lyftu Grettistaki þegar þau fluttust búferlum til Danmerkur með þrjú börn. Halda þurfti vel á öllu, fast um pyngjuna og ekkert mátti út af bera í náminu þrátt fyrir tungumálaörðugleika og annan mótbyr í byrjun. Þetta var fyrir daga námslána og þurftu námsmenn að treysta á sjálfa sig og nánustu fjölskyldu. Björn var tengdaforeldrum sínum ævarandi þakklátur fyrir þann stuðning sem þeir veittu fjölskyldunni á þessum tíma.

Björn sýndi framsýni í námsvali sínu, mikil gerjun var á sviði rekstrarfræðanna og þörf á innleiðingu þeirra í atvinnulífinu. Danir höfðu náð góðum árangri í uppbyggingu iðnaðar sem þakka má m.a. góðri menntun þeirra í rekstrarfræðum. Uppbygging iðnaðar á Íslandi var að hefjast, sá iðnaður sem fyrir var leið fyrir skort á aðferðum, skipulagi og hugsunarhætti rekstrarfræðanna. Það var því víða hægt að taka til hendinni árið 1967 þegar Björn kom heim frá námi þó að efnhagsástandið væri bágborið og atvinnuleysi meira en þekkst hafði um langa hríð. Björn hóf vinnu hjá sælgætisgerðinni Nóa-Síríusi þar sem hann endurskipulagði konfektframleiðsluna og er hönnun hans að hluta til enn þá nýtt. Árið 1971 gekk Björn til liðs við tengdaföður sinn og bræður hans í Fálkanum hf. Örlögin höguðu því þannig að kynslóðaskipti urðu við rekstur Fálkans  á árunum sem fóru í hönd og varð Björn einn af framkvæmdastjórum Fálkans. Björn naut sín oft vel í þessu starfi þar sem rík þörf var fyrir reynslu, menntun og skipulagshæfileika hans.  Hann lét af störfum hjá Fálkanum árið 2002 þegar þau Þrúður seldu sinn hlut í félaginu.

Í upphafi hjúskapar síns byggðu Björn og Þrúður heimili sitt í Safamýri 59. Björn varði öllum frístundum í húsbygginguna og vann sjálfur megnið af handverkinu. Þegar efni og aðstæður leyfðu hóf fjölskyldan byggingu raðhúss við Brekkusel 25 þar sem Björn tók einnig til hendinni en naut nú stuðnings dætra sinna. Fjölskyldan flutti árið 1975 í nýja húsið og undi þar hag sínum vel. Þau Þrúður áttu heima í Brekkuseli allar götur þar til Björn var orðinn illa haldinn af MND-sjúkdómnum sem síðar dró hann til dauða. Þau fluttu árið 2010 í Stóragerði 42.

Björn var einlægur áhugamaður um bridds. Hann spilaði að jafnaði vikulega með vinum sínum allt frá því snemma á 6. ártugnum. Hann var einnig mikill siglingaáhugamaður og átti seglskútuna Amíu. Hann var virkur í Snarfara, félagi siglingamanna og stjórnarmaður um tíma. Skipulagsmál voru honum einnig hugleikin og hafði hann eindregnar skoðanir á því sviði. Allt fram á seinasta dag lagði Björn mikið upp úr því að þjálfa huga sinn. Þetta gerði hann m.a. með því að leysa ýmsar gátur og hugarreikningur var honum hjartfólginn. Björn var afar traustur maður og gætinn í fjármálum. Hann var höfðingi heim að sækja, gestrisinn og minnist fjölskyldan tíðra fjölskylduboða þeirra Þrúðar með söknuði og þakklæti. Björn var félagslyndur og hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Hann var léttur í lund, hafði auga fyrir því skoplega og sá iðulega aðrar hliðar mála en flestir. Þennan eiginleika nýtti hann fram á seinasta dag og gerði sér far um að létta hjúkrunarfólki sínu lífið. Björn var listrænn og hafði sterkar skoðanir á litavali og högun umhverfis síns og jaðraði stundum við sérvisku. Hann hafði yndi af dýrum og börn hændust mjög að honum m.a. fyrir einstakan galsa sem hann átti til. Björn var afar heiðarlegur maður og úrræðagóður. Fólk leitaði einatt til hans með úrlausnarefni sín.  Hann var stoltur maður sem vildi reiða sig sem minnst á aðra. MND-sjúkdómurinn var honum reiðarslag sem gerði hann  háðan öðrum um allt. Hann mætti þó örlögum sínum með æðruleysi. Ég þakka tengdaföður mínum þriggja áratuga samfylgd og stuðning og votta Þrúði tengdamóður minni innilega samúð mína. Megi minning um góðan dreng lifa.

Sæmundur E. Þorsteinsson

Sæmundur E. Þorsteinsson