Samhjálp Um 100 manns sækja kaffistofu Samhjálpar daglega.
Samhjálp Um 100 manns sækja kaffistofu Samhjálpar daglega. — Morgunblaðið/RAX
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Samhjálp stendur fyrir svokölluðum Litlujólatónleikum næstkomandi þriðjudag kl. 20 en þeir eru haldnir til styrktar Samhjálparstarfinu, sem er bæði umfangsmikið og fjölbreytt.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Samhjálp stendur fyrir svokölluðum Litlujólatónleikum næstkomandi þriðjudag kl. 20 en þeir eru haldnir til styrktar Samhjálparstarfinu, sem er bæði umfangsmikið og fjölbreytt. Samtökin hafa þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu haldið allri starfsemi ótrauð ófram og treysta á að lánardrottnar þeirra muni reynast jafnmiskunsamir samverjar og margir velunnarar félagsins.

Samhjálp rekur og sér um meðferðar- og áfangaúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga, búsetuúrræði, neyðarskýli fyrir heimilislausa karla og kaffistofu Samhjálpar, en þar borða daglega um 100 manns. Að auki er rekin göngudeild, félagsmiðstöð og nytjamarkaður í höfuðstöðvum samtakanna í Háborg.

„Alkóhólismi er ekki eigingirni, alkóhólismi er sjúkdómur sem rífur fólk frá öllu sem það elskar,“ segir Karl V. Matthíasson, framkvæmdastjóri Samhjálpar. Hann segist sjá betur og betur hversu umkomulausir þeir eru sem taka á sínum málum, fara í meðferð og lifa það af en standa svo einir á móti heiminum.

„Það sem mér finnst vanta til að við getum lokað hringnum er starfsstöð þar sem færi fram skipulögð endurhæfing. Það þarf að vera til skjól, þangað sem fólk getur leitað eftir meðferð og haldið áfram sinni vinnu í öruggu umhverfi. Síðan smám saman á það að geta stigið skrefið út,“ segir Karl.

Langt virðist þó í land þar til af þessu getur orðið. Skuldir hvíla á samtökunum vegna fasteignagjalda og fasteignaláns, sem tekið var fyrir höfuðstöðvum félagsins við Stangarhyl. „Við erum í samningaviðræðum við Landsbankann og treystum á að þær fari vel,“ segir Karl og segist vongóður um að bankinn standi við yfirlýsta stefnu sína um samfélagslega ábyrgð.

Karl segir stóran hluta tekna Samhjálpar koma frá rekstri nytjamarkaðarins í Stangarhyl en að auki hafi samtökin ýmislegt til sölu í fjáröflunarskyni, s.s. happdrættismiða, sjúkrakassa og dagbækur. Þá eru ótalin frjáls framlög frá velunnurum og velgjörðarmönnum.

„Við tókum t.d. við hálfri milljón króna frá Oddfellow-reglunni um daginn og ríkisstjórnin sendi okkur 800 þúsund krónur í stað þess að senda jólakort,“ segir Karl. „En síðan kom líka til okkar kona í fyrradag með tíu þúsund krónur og sokka og einnig höfum við notið velvildar ýmissa birgja og matvælaframleiðenda.“

Samhjálp verður með jólamat í Hlaðgerðarkoti fyrir þá skjólstæðinga sína sem ekki eiga í önnur hús að venda en Karl segir alkóhólismann hafa gert marga þeirra að einstæðingum. Jafnvel þegar fólk sé í bata reynist fyrirgefningin því erfið.

Karl segir öllum gott að hafa í huga orðin sem einkenna starf Samhjálpar: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Samhjálp á jólum
» Litlu jólatónleikarnir verða haldnir í samkomusalnum í Stangarhyl 3a þriðjudaginn 20. desember kl. 20. Miðaverð 2.000 krónur, 500 fyrir börn.
» Þeir sem vilja styðja Samhjálp geta lagt inn á reikning nr. 115-26-2377, kt. 551173-0389.