Tilnefningar til bandarísku Golden Globe verðlaunanna liggja nú fyrir og í flokki kvikmynda hlýtur The Artist flestar, eða sex talsins. Myndin er m.a. tilnefnd sem besta gamanmynd eða söngvamynd, fyrir besta leikarann í aðalhlutverki, Jean Dujardin, bestu aukaleikkonuna, Bérénice Bejo og besta leikstjórann, Michel Hazanavicius. The Descendants og The Help hlutu fimm tilnefningar hvor. George Clooney er tilnefndur sem besti aðalleikari fyrir leik sinn í The Descendants og leikstjóri myndarinnar, Alexander Payne, sem besti leikstjórinn og leikkonur úr The Help, þær Viola Davis, Octavia Spencer og Jessica Chastain hlutu tilnefningar fyrir The Help.
Í flokki bestu dramatísku kvikmyndanna voru tilnefndar Hugo, The Ides of March, Moneyball og War Horse. Leikkonurnar Kate Winslet og Jodie Foster eru tilnefndar sem bestu aðalleikkonur í gaman- eða söngvamynd, fyrir leik sinn í Carnage og leikarinn Ryan Gosling er tilnefndur fyrir leik sinn í tveimur kvikmyndum, Ides of March og Crazy, Stupid, Love. Af öðrum kvikmyndum í flokki gaman- eða söngvamynda eru tilnefndar 50/50, Midnight in Paris, Bridesmaids og My Week With Marilyn. Í flokki sjónvarpsefnis eru m.a. tilnefndar þáttaraðirnar Homeland, American Horror Story og Boss í flokki dramatískra þátta og í flokki gamanþátta Enlightened og New Girl.
Verðlaunin verða afhent 15. janúar og verður gamanleikarinn Ricky Gervais kynnir.