Samhræringur Sissel M. Björkli og Erlend Samnöen skeyta óhikað saman barrokkdansi og nútímadansi.
Samhræringur Sissel M. Björkli og Erlend Samnöen skeyta óhikað saman barrokkdansi og nútímadansi.
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Danslistafólkið Sissel M. Björkli og Erlend Samnöen hafa bæði skapað sér nafn og mikla sérstöðu í heimalandi sínu Noregi á undanförnum árum.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Danslistafólkið Sissel M. Björkli og Erlend Samnöen hafa bæði skapað sér nafn og mikla sérstöðu í heimalandi sínu Noregi á undanförnum árum. Þau eru nú komin hingað til lands og munu sýna í Norræna húsinu nú á sunnudaginn kl. 20.00 og það endurgjaldslaust. Auk Björkli og Samnöen kemur fram óperusöngkonan

Jorunn Torsheim. Í sameiningu flytur þetta fólk okkur sýninguna

Gisela and Orlando's fantastic account of The Beautiful Helena. Í fréttatilkynningu frá aðstandendum kemur eftirfarandi fram:

„Gisela og Orlando flökta á milli þess hátíðlega, hversdagslega, fallega og ljóta. Innblásin af grísku goðsögninni um Helenu fögru, hverfa þau í óhlutbundið landslag þar sem þau reyna að útskýra fegurðina og upplifa hið fullkomna sem ekki verður fangað. Í sýningunni eru mörkin milli fegurðar og þess ljóta könnuð; mörk sem flæða hvor inn í önnur þannig að áhorfandinn á erfitt með að aðgreina annað frá hinu. Gisela and Orlando flytja söguna í hefðbundnum dansstíl sem er byggður á frönsku barokkleikhúsi og hirðdansi.“

Sissel M. Björkli er Íslendingum ekki ókunn þar sem hún starfar með Ernu Ómarsdóttur í dansverkinu

Teach Us To Outgrow Our Madness sem m.a. var sýnt í Þjóðleikhúsinu á síðasta ári og hefur verið sýnt víða um Evrópu á undanförnum tveimur árum.

Jákvæð ögrun

Tinna Grétarsdóttir, dansari, er hérlendur talsmaður parsins.

„Það er mikill húmor í þessu hjá þeim,“ segir hún. „Þau sækja m.a. innblástur í barokkdansa og flétta þeim saman við nútímadans sem þykir mjög óvenjulegt.“

Tinna segir að Sissel og Erlend séu dansarar sem vinni með leikhús, þetta sé í raun réttu það sem kallað er dansleikhús.

„Það er oft mikill texti í gangi t.d. Ferill þeirra beggja hefur verið á hraðri uppleið að undanförnu, þau eru orðin mjög þekkt í Noregi en hafa og ferðast nokkuð um Evrópu. Þau starfa þó ekki saman alla jafna, eru með eigin feril. Erlend er t.d. mjög virkur í heimalandi sínu, semur mikið og vinnur náið með hinum og þessum leikhúsum.“

Aðspurð hvort nálgun þeirra við nútímadansformið hafi vakið einhverja úlfúð í dansheiminum segir hún svo ekki vera.

„Þau eru ekki í því að ganga fram af fólki með því að sjokkera eða eitthvað slíkt. En þau leika sér mikið með stílinn og eru óhrædd við tilraunastarfsemi. En þau eru alls ekki að ögra á neikvæðan hátt, getum við sagt.“

Tinna segir að ástæða þess að þau séu komin til Íslands með þetta stykki séu vinatengsl. Hún starfaði sjálf um nokkurra ára skeið í Noregi og hún og Valgerður Rúnarsdóttir dansari séu að sjá um þennan innflutning ef svo má kalla.

„Sissel er orðin mikill Íslandsvinur og hún ætlar að dvelja hérna um jólin. Þá kom þessi hugmynd upp, að nýta tækifærið og setja upp eina jólasýningu. Við bárum hugmyndina undir Norræna húsið og fólk þar á bæ tók afskaplega vel í þetta.“