Ég var að fletta vísnamiðum föður míns og rakst á þennan samkviðling. Matthías Jochumsson byrjaði:
Þegar hross rassar hátt
kveða hrynhenduslátt
svo að hriktir í merstertum skornum.
Steingrímur Thorsteinsson bætti við:
„Ó, þann himneska tón“
segir Halldór við Jón
er þeir hittast á þjóðvegi fornum.
Hér er ýmislegt látið ósagt milli línanna og væri gaman ef einhver gæti fyllt upp í eyðurnar. En auðvitað fellur spjall milli góðra vina oft þannig að ókunnugir geta illa eða alls ekki fylgst með. Þannig geta orðið til „mállýskur“ í þröngum hóp með sérstökum orðatiltækjum eða skírskotunum.
Þessa stöku rakst ég á eftir Magnús Ásgeirsson:
Freistinganna fári í heim
fékk ég oft og tíðum hnekkt,
en þegar féll ég fyrir þeim
fannst mér það líka skemmtilegt.
Glosi orti:
Vertu góður, vinur minn,
við þá menn sem hrasa
því að hinsti hjúpur þinn
hefur engan vasa
Hér kemur gamall húsgangur:
Eg því svara ef þú spyr,
hvað auðnu heimsins brjálar:
Það eru of margir Merðirnir
en miklu færri Njálar.
Guðmundur Böðvarsson orti:
Ekki þarf að efa það
ef það bara sprettur
sæmilega þá er það
þriggja lesta blettur.
Og Skáld-Rósa. Hér verður að gæta þess að hafa „ofaná“ í einu orði til að ekki verði ofstuðlað:
Hvað á að segja um þegna þá
sem þamba bjór á kvöldin
og sér hvolfa ofaná
Amors stór-keröldin.
Og þessi nafnlausa staka mætti vel vera ort um ríkisstjórnina:
Heldur grána gaman kann
geðs í þjáningunni
ef að lánast uppskeran
eftir sáningunni.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is