Drög að nýrri atvinnustefnu Reykjavíkurborgar hafa verið send til umsagnar hjá fjölmörgum hagsmunaaðilum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík stefna er mótuð. Yfirskriftin er Skapandi borg .

Drög að nýrri atvinnustefnu Reykjavíkurborgar hafa verið send til umsagnar hjá fjölmörgum hagsmunaaðilum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík stefna er mótuð. Yfirskriftin er Skapandi borg . Stefnunni fylgir ítarleg aðgerðaráætlun þar sem ábyrgð á hverju verkefni er skilgreind.

Lykilmarkmið atvinnustefnunnar, sem skiptist í fimm hluta, eru að Reykjavíkurborg stuðli að góðum skilyrðum fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja, með sérstakri áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki. Þá er lögð áhersla á að skapa vaxtarskilyrði fyrir fjölbreytt, umhverfisvænt og skapandi atvinnulíf sem mæti þörfum beggja kynja. Lagt er til að komið verði á hagkvæmu skipulagi og sérhæfingu atvinnusvæða sem stuðli að myndun klasa í greinum á lykilsvæðum þar sem sóknarfæri eru í atvinnulífi.

Gert er ráð fyrir að borgin taki upp samstarf við fjárfesta til að stuðla að fjölbreyttum húsnæðismarkaði í Reykjavík. Lagt er upp með að Reykjavík verði markaðssett sem áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn, en einnig að borgin vinni markvisst að því að laða að innlenda og erlenda fjárfestingu sem stuðli að atvinnuuppbyggingu. Eitt markmið er og að tryggja samhæfingu skipulags, lóðaúthlutana, framkvæmda sem og annarra þátta.