Netið er orðið stór hluti af lífi okkar allra og líklega stærri en mann grunar eða telur að heilbrigt sé. Nú eru rúm tíu ár liðin frá því að Napster-forritið leit dagsins ljós og gerbylti neyslu og hlutverki tónlistar í okkar samfélagi.

Netið er orðið stór hluti af lífi okkar allra og líklega stærri en mann grunar eða telur að heilbrigt sé. Nú eru rúm tíu ár liðin frá því að Napster-forritið leit dagsins ljós og gerbylti neyslu og hlutverki tónlistar í okkar samfélagi. Helstu neytendahópar gátu nú nálgast efnið án þess að þurfa að borga fyrir það með tilheyrandi tekjutapi fyrir framleiðendur og útgefendur. Með bættum nettengingum og auknum hraða fylgdi framleitt kvikmynda- og sjónvarpsefni sömu leið.

Reglulega hafa borist fregnir af því að tónlistariðnaðurinn hafi beðið mikinn skaða af og að tekjur tónlistarmanna berist þeim ekki.

Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað með miklum harmkvælum er þó athyglisvert að hugsa til að á þessum tíu árum sem liðin eru hefur fjölbreytni í greininni aukist gríðarlega og erfitt væri að halda því fram að tónlistin sjálf liði fyrir þróunina. Í raun er það mín skoðun að tónlist lifi góðu lífi þótt innviðir greinarinnar hafi breyst og segja megi að búið sé að skera mikið af óþarfri og bragðvondri fitu sem fylgdi iðnaðinum. Sérstaklega er það athyglisvert að sókn íslenskra tónlistarmanna á erlenda markaði hafi haldist í hendur við þessa þróun. Ef dreifing og miðlun tónlistar hefði haldist í heljargreipum alþjóðlegra fyrirtækjasamsteypna er ólíklegt að margir af okkar áhugaverðustu tónlistarmönnum hefðu náð eyrum fólks fyrir utan landsteinana. Netið hefur snúið tónlistariðnaðinum á hvolf sem snýst nú um sköpun og hugmyndavinnu í stað sambanda og einokunarstöðu. Í raun er það eina sem ég sé dapurlegt við meint hrun tónlistariðnaðarins það bragð sem iðnaðurinn hefur gripið til í viðleitni sinni til að bjarga sér frá falli, en það er að halda risavaxnar karókí-keppnir þar sem góðum lögum er ósjaldan misþyrmt þótt yfirleitt sé engin þörf á að túlka þau upp á nýtt. Hér á landi hafa hagsmunasamtök tónlistarmanna gripið til þess ráðs að fá greitt gjald af brennanlegum geisladiskum sem hefur runnið til útvalinna tónlistarmanna til að bæta þeim tekjutapið. Þó er mér til mikils efs að þeir sem hafa tekið við þessum bótum hafi í raun orðið fyrir miklu tekjutapi, þar sem það eru jú unglingar sem brenna diska og ég efast um að þeir séu að brenna diska miðaldra íslenskra tónlistarmanna. Nú eru náttúrlega allir hættir að brenna diska og því er dæmið í raun úrelt en það sýnir þá hugsun sem hefur verið ríkjandi við þessi umskipti. En nú eru blikur á lofti þar sem bandarísk stórfyrirtæki nota nú arðinn af karókíinu til að reyna að koma löggjöf í gegnum þingið vestra sem á að snúa þessari þróun við. Lögunum sem heita SOPA (Stop Online Piracy Act) er ætlað að vernda hugverkasmíð og stöðva tekjutap í tónlistar- og kvikmyndaiðnaðnum. Þó hefur verið bent á að þau muni veita stjórnvöldum og fyrirtækjum tækifæri til að ritskoða netið og séu mikil ógn við fyrirbærið eins og við þekkjum það sem er ekki lítið mál þó að lítið hafi verið um það fjallað.

Hallur Már