Málaferli Björn hjá Vélum og verkfærum er ósáttur við stjórnsýsluna.
Málaferli Björn hjá Vélum og verkfærum er ósáttur við stjórnsýsluna. — Morgunblaðið/Golli
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Dómur Hæstaréttar frá 1. desember sl. í máli Véla og verkfæra hf. gegn Samkeppniseftirlitinu hefur vakið athygli. Þótt málið sé ekki stórt hefur það undið upp á sig.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Dómur Hæstaréttar frá 1. desember sl. í máli Véla og verkfæra hf. gegn Samkeppniseftirlitinu hefur vakið athygli. Þótt málið sé ekki stórt hefur það undið upp á sig.

Vélar og verkfæri hafa í áratugi selt svokallað höfuðlyklakerfi sem er ein tegund aðgangskerfa þar sem sami lykill getur gengið að fleiri en einni læsingu, að sögn Björns V Sveinssonar, innkaupa- og markaðsstjóra hjá Vélum og verkfærum. Fyrir nokkrum árum hafi fyrirtækið tekið að veita ýmsum þjónustuaðilum sínum heimild til að selja og þjónusta þessi kerfi og það hafi leitt til aukinnar samkeppni.

Upphaf málsins má rekja til þess að Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir við samninga fyrirtækisins við þjónustuaðilana, úrskurðaði að Vélar og verkfæri hefði misnotað meinta einokunarstöðu sína og gerði þeim að greiða 15 milljón króna sekt.

Björn V. Sveinsson, innkaupa- og markaðsstjóri hjá Vélum og verkfærum ehf., var ekki sáttur við þann úrskurð: „Við teljum fjarri lagi að samningar okkar við þjónustuaðila hafi raskað samkeppni,“ segir Björn. „Þetta er ekki nema 40 milljóna króna markaður og þessi sekt því mjög há. Samkeppniseftirlitið rannsakaði málið nánast ekkert, aðferðafræði þeirra var meingölluð og skilningur á málum sem reynt var að hafa til samanburðar bersýnilega afar takmarkaður. Við áfrýjuðum og áfrýjunarnefndin féllst á að markaðsskilgreiningin væri röng hjá Samkeppniseftirlitinu en þar með var grundvallarforsendan fyrir öllum ályktunum þess brostin.

Samt lækkaði nefndin aðeins sekt fyrirtækisins í 10 milljónir króna en lét hana ekki falla niður með öllu. Fyrirtækið skaut málinu til dómstóla og staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Var málinu þá skotið til Hæstaréttar sem felldi úrskurð áfrýjunarnefndarinnar úr gildi.“

Björn vill meina að í dómnum komi fram að Hæstiréttur telji áfrýjunarnefndina ekki hafa rökstutt nýja markaðsskilgreiningu með fullnægjandi hætti né gætt þeirrar skyldu sinnar að rannsaka málið með ásættanlegum hætti.

„Dómurinn hefur vakið talsverða athygli lögfræðinga því með honum er vikið frá þeirri framkvæmd að ef íþyngjandi úrskurður æðra stjórnvalds sé ómerktur falli jafnframt niður íþyngjandi úrskurður lægra stjórnvaldsins,“ segir Björn. „Hafa margir lögmenn undrast þessa úrlausn sem ekki er sérstaklega rökstudd í dómnum.“

Björn segir viðbrögð Samkeppniseftirlitsins við dómnum furðuleg: „Eftirlitið sendi frá sér fréttatilkynningu samdægurs þar sem fullyrt er að með dómnum standi fyrri úrskurður þess og þar sé þriðjungi hærri sekt staðfest. Þetta er alrangt, enda fjallar Hæstiréttur alls ekki um þann úrskurð. Fremur má draga þá ályktun að dómurinn sé ekki aðeins áfellisdómur yfir áfrýjunarnefndinni heldur einnig yfir Samkeppniseftirlitinu sjálfu og vinnubrögðum þess, enda grundvallaðist úrskurður áfrýjunarnefndarinnar á vinnu eftirlitsins. Okkur finnst það ansi bíræfið af opinberri stofnun að fara fram með slíkum hætti þegar hún hefur hlotið jafn alvarlegar ákúrur frá Hæstarétti.“

Léleg stjórnsýsla

Aðspurður hvort málið sé þá úr sögunni segir Björn svo ekki vera. „Þetta er fyrst og fremst dæmi um lélega stjórnsýslu. Niðurstaðan er að málið þarf nú væntanlega að fara aftur fyrir áfrýjunarnefnd og jafnvel dómstóla, allt á kostnað skattgreiðenda ef að líkum lætur. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að með þessum dómi sýnir Hæstiréttur að Samkeppniseftirlitið þarf að vanda vinnubrögð sín betur,“ segir Björn.