Það er komið að skuldaskilum hjá Tinnu Stefánsdóttur sjúkraþjálfara, sem gerir fastlega ráð fyrir því að í dag hefnist henni fyrir öll þau skipti sem hún gerði grín að aldri þrítugra vinkvenna sinna. Það er nefnilega loksins komið að henni.

Það er komið að skuldaskilum hjá Tinnu Stefánsdóttur sjúkraþjálfara, sem gerir fastlega ráð fyrir því að í dag hefnist henni fyrir öll þau skipti sem hún gerði grín að aldri þrítugra vinkvenna sinna. Það er nefnilega loksins komið að henni.

„Ég er búin að skjóta svo mikið á vinkonur mínar og nú fæ ég þetta allt til baka,“ segir Tinna, sem er þrátt fyrir allt sallaróleg yfir aldrinum.

Afmælið ætlar hún að halda upp á með frænkunni sem hún fékk í afmælisgjöf fyrir 25 árum en þær hafa boðið fjölskyldunni til sameiginlegs kökuboðs í dag. Vinkonudjammið, og hefndin væntanlega, bíður kvöldsins. Þrátt fyrir jólaamstrið gerir Tinna ráð fyrir að mætingin verði góð. „Ég á svo fína móður, sem sagði við fólk þegar ég fæddist að það skyldi bara gjöra svo vel að mæta í afmælin mín, ég gæti ekkert að því gert að vera fædd rétt fyrir jól,“ segir Tinna. Það hafi hins vegar reynst erfitt á yngri árum að halda afmæli, jól og áramót í einni bunu og þurfa svo að bíða í heilt ár eftir að endurtaka leikinn.

En eitt enn er á dagskrá í dag og það er að knúsa litla systursoninn sem hún fékk næstum því í afmælisgjöf. „Systir mín var að eignast strák í gær og ætli ég knúsi hann ekki að minnsta kosti einu sinni!“ holmfridur@mbl.is