Fótbrotnaði Eiður Smári Guðjohnsen gæti spilað seinna í vetur.
Fótbrotnaði Eiður Smári Guðjohnsen gæti spilað seinna í vetur. — Morgunblaðið/Eggert
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Endurhæfingin hjá Eiði Smára Guðjohnsen hefur gengið vel að því er faðir hans, Arnór Guðjohnsen, tjáði Morgunblaðinu en í gær voru liðnir tveir mánuðir frá því Eiður gekkst undir aðgerð í Grikklandi vegna fótbrots.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Endurhæfingin hjá Eiði Smára Guðjohnsen hefur gengið vel að því er faðir hans, Arnór Guðjohnsen, tjáði Morgunblaðinu en í gær voru liðnir tveir mánuðir frá því Eiður gekkst undir aðgerð í Grikklandi vegna fótbrots. Eiður brotnaði á sköflungi og á sperrilegg eftir að hafa lent í harkalegu samstuði við markvörð Olympiacos í leik með AEK í grísku deildinni í október.

„Ég býst við því að taki hann tvo mánuði til viðbótar að ná heilsu og ef hlutirnir þróast vel sé ég alveg fyrir mér að hann nái að spila síðustu tvo mánuðina af tímabilinu eða svo. Læknarnir vilja meina að þetta líti vel út hjá honum og það hefur ekki komið neitt bakslag í endurhæfinguna. Í vikunni voru fjarlægðir pinnar úr fætinum og nú má hann fara að stíga meira í fótinn en áður,“ sagði Arnór Guðjohnsen við Morgunblaðið í gær.

Eiður Smári er væntanlegur til Íslands í dag og mun eyða jólum og áramótum heima á Fróni. Hann samdi við AEK í sumar til tveggja ára og var búinn að spila fimm leiki í deildinni og skora eitt mark áður en hann varð fyrir því óláni að tvífótbrotna.

AEK er í baráttu við Olympiacos og Panathinaikos um gríska meistaratitilinn og er í öðru sæti sem stendur, tveimur stigum á eftir Olympiacos. Elfar Freyr Helgason leikur einnig með liðinu.