Álfheiður Jónasdóttir fæddist á Geirseyri í Patreksfirði 22. nóvember 1931. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 5. desember 2011.

Foreldrar hennar voru Jónas Magnússon, skólastjóri, síðar sparisjóðsstjóri á Patreksfirði, f. 4. sept. 1891 á Geitagili Rauðasandshr., V-Barðastrandarsýslu, d. 7. ágúst 1967, og Ruth Jónsdóttir, f. 7. júlí 1902 á Patreksfirði, d. 14. okt. 1975. Bróðir Álfheiðar var Sigurður Jónasson, f. 3. desember 1925, d. 6. apríl 1986.

Þann 17. janúar 1953 giftist Álfheiður Jakobi Ágústssyni, f. 12. nóvember 1926. Foreldrar hans voru Ágúst Sigurðsson verslunarstjóri á Bíldudal, f. 13. ágúst 1886, d. 18. febrúar 1943, og Jakobína Jóhanna Sigríður Pálsdóttir, húsfreyja á Bíldudal, f. 15. október 1892, d. 18. febrúar 1943. Börn Álfheiðar og Jakobs eru: 1) Sigurbjörn Hlíðar, f. 12. ágúst 1963, kvæntur Regínu Vilhjálmsdóttur. Barn þeirra er María Rós. 2) Hafsteinn Sævar, f. 29. ágúst 1964, kvæntur Birgittu Guðjónsdóttur. Börn þeirra eru Jakob, Fannar og Daníel. 3) Ruth, f. 28. október 1972, í sambúð með Rúnari Helga Kristinssyni. Börn hennar eru Sandra Karen, Kristófer Leví og Álfheiður Birta, barn þeirra saman er Lilja Rún.

Álfheiður og Jakob fluttust til Ólafsfjarðar árið 1952 þar sem Jakob hafði skömmu áður tekið við stöðu rafveitustjóra. Þar hófu þau sinn búskap og bjuggu þar alla tíð. Álfheiður var lengst af heimavinnandi húsmóðir, en aðstoðaði við rekstur á Tjarnaborg á árunum 1961-1972, og vann um tíma við fiskvinnslu hjá Saltfiskverkun Sigvalda Þorleifssonar. Einnig sá hún um ræstingar hjá Pósti og síma um skeið.

Útför Álfheiðar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 17. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma.

Hvað gerðist eiginlega? Hver ræður þessu? Af hverju fékk ég ekki tíma til að undirbúa mig undir þetta áfall? Þú greindist með krabbamein fyrir rúmu ári síðan og sigraðist á því, eins og flestu sem þú þurftir að takast á við í lífinu, af hverju sigraðir þú ekki þessa allt of stuttu baráttu? Barnið í mér hélt virkilega að þú yrðir hér alltaf.

Hver á nú að reka á eftir mér að fara snemma að sofa, því mér veiti ekki af hvíldinni og hringja svo seint um kvöld til að athuga hvort ég hafi farið að þínum ráðum?

Hver á nú að segja mér að keyra varlega í göngunum, „hann Jón“ eða „hún Sigga“ sem alltaf keyra svo löglega hafi nú bara örlítið gleymt sér og sitji nú uppi með háa sekt. Hver ætlar nú að sjá um að vera með (að manni finnst) óþarfa afskiptasemi, sem maður veit svo að er ekki afskiptasemi, heldur einlæg umhyggja og ekkert annað? Í hvern á ég nú að hringja og rífast og skammast, af því að eitthvað er að, geta svo hringt aftur þegar ég er búin að jafna mig, biðjast afsökunar og vita að mér er sko alveg fyrirgefið og viðkomandi hafi vitað að það var engin meining á bak við þetta?

Já, elsku mamma, ekki veit ég hvernig við förum að án þín. Líklegast lærum við það smátt og smátt, en þú skilur eftir stórt tóm í hjörtum allra þinna, sem aldrei verður fyllt. Það var, er og verður enginn eins og þú.

Margar minningar hafa sprottið upp undanfarna daga og nánast í hverri einustu kemur upp matur, þessi ótrúlega seigla, nýtnin, umhyggja fyrir öllu og öllum, jóladúllerí. Já, jólin voru sko þinn tími, svafstu einhverntíma í desember? Þú varst allavega enn á fótum, að bardúsa eitthvað, þegar allir voru steinsofnaðir og einnig varstu á fótum þegar við vöknuðum. Þú hafðir óendanlega þolinmæði í að dúllast með mér þegar ég var yngri, leyfðir mér að taka þátt í öllu og svo síðar börnunum mínum, innpökkun jólapakka var ótrúlega spennandi athöfn, man ekki hvað ég var gömul þegar ég var farin að skrifa á jólakortin með þér, öll þessi milljón og sjötíu eða svo, að fletta upp heimilisföngum í símaskránni kvöld eftir kvöld, smákökubaksturinn, já og bara bakstur yfirleitt, ég held að ég hafi verið farin að snúa kleinum áður en ég lærði nokkuð annað.

Veisluhöld, þú elskaðir að halda veislur. Þrem vikum áður en þú kvaddir fékkstu að halda þína síðustu veislu, þegar pabbi varð 85 ára. Mikið er ég glöð hvað vel tókst til. Allt fólkið þitt saman komið, þá leið þér best. Þú ljómaðir, mamma mín, þennan dag og þannig eigum við öll eftir að muna þig.

Að eldast, veikjast og vera uppá aðra komin var ekki þinn stíll enda fórstu með yndislegri værð áður en til þess kom.

Ég er svo ólýsanlega þakklát fyrir að hafa fengið að eiga þig elsku mamma.

Verndi þig englar, elskan mín,

þá augun fögru lykjast þín;

líði þeir kringum hvílu hljótt

á hvítum vængjum um miðja nótt.

Nei, nei það varla óhætt er

englum að trúa fyrir þér;

engill ert þú og englum þá

of vel kann þig að lítast á.

(Steingrímur Thorsteinsson)

Þín

Ruth.

Mig langar að minnast konu sem var mér svo kær, það er hún tengdamóðir mín. Ég vona að hún hafi vitað það og séð. Tengdamamma var einstök kona og þekki ég fáa líka henni. Ég kom fyrst á heimili hennar og Jakobs stuttu eftir að við Hafsteinn kynntumst og var mér strax tekið sem einni af fjölskyldunni. Ég elskaði að koma til Öbbu og Jakobs því þar fann maður hlýju, góðvild og elskulegheit.

Ég á margar góðar minningar í gegnum árin með Öbbu. Íþróttaáhugi hennar var mikill og fylgdist hún vel með á öllum vígstöðvum og ekki þótti henni leiðinlegt að eiga börn og barnabörn sem hún gat fylgst með og var hún einstaklega stolt af þeim. Hún var mjög gestrisin og átti alltaf nóg með kaffinu og nóg af mat og man ég alltaf eftir minni fyrstu máltíð í Aðalgötunni, það var dýrindis læri með öllu tilheyrandi og ís og ávextir á eftir, en það var ekki búið, því eftir það komu terturnar og þannig var þetta alla helgina. Enginn skyldi fara út úr húsi svangur eða leiður. Það passaði hún virkilega upp á.

Eftir að við Hafsteinn eignuðumst strákana okkar þrjá þá var nú aldeilis gott að eiga ömmu Öbbu að. Hún var svo góð við barnabörnin sín og vildi allt fyrir þau gera og höfðu þau öll matarást á henni og fannst gott að leita til hennar því hún var svo jákvæð og glaðlynd og fann alltaf leiðir til að leysa málin. Það fyrsta sem strákarnir mínir gerðu þegar þeir komu í Aðalgötuna var að knúsa ömmu sína og afa og síðan lá leiðin að ísskápnum og eða búrinu og þar var alltaf nóg til. Þetta þótti Öbbu vænt um og elskaði að gefa þeim að borða sem voru duglegir að taka til matar síns.

Abba elskaði jólin og var hún allan ársins hring að kaupa jólagjafir og glaðnaði vel yfir henni þegar jólin nálguðust. Þá ljómaði heimili hennar af fallegu jólaskrauti og ljósum sem glöddu alla sem komu til hennar.

Ég held að ég hafi aldrei kynnst eins kraftmikilli konu sem vakti langt fram á nótt og var vöknuð fyrst á morgnana alltaf jafn spræk og glöð. Það er góður eiginleiki og er ég svo þakklát að hafa kynnst henni og átt svona yndisleg ár með henni. Ég hef lært margt af tengdamömmu en það sem stendur upp úr er hvað það er mikilvægt að vera lífsglaður eins og hún og að fylgjast með henni í veikindum hennar var mikill styrkur fyrir alla í kringum hana, hún gafst aldrei upp og barðist allan tímann við það að ná bata og sýndi mikinn lífsvilja síðustu dagana sem hún lifði.

Það sem bíður okkar sem lifa er að minnast góðrar konu sem gaf allt sitt líf í það að gefa, þjóna og gleðja.

Elsku Abba, ég vildi að ég gæti knúsað þig að mér og sagt þetta allt við þig en svona er lífið og ætla ég að halda áfram að lifa því glöð í góðri minningu um yndislega konu sem gaf mér og mínum svo mikið.

Elsku Jakob, þú hefur misst mikið en ég veit að hún mun ávallt vera hjá þér og styrkja þig og styðja um ókomin ár.

Megi góður Guð gefa eiginmanni, börnum, barnabörnum og fjölda mörgun vinum sem sakna hennar styrk og vilja til að lifa lífinu áfram í gleði og af sama krafti og hún sýndi okkur.

Birgitta Guðjónsdóttir.

Það er með mikilli sorg og söknuði sem ég kveð mína elskulegu tengdamömmu, Öbbu. Abba er með þeim fallegustu gullmolum sem ég hef fengið að kynnast um ævina. Ég segi „er“, því ég á enn bágt með að trúa að hún sé farin frá okkur og að ég eigi ekki eftir að hitta hana aftur eða spjalla við hana í síma meir. Ekki grunaði mig að ég væri að kveðja hana í síðasta sinn þegar ég kvaddi hana eftir stórafmælishelgi þeirra hjóna á Ólafsfirði um miðjan nóvember. Þar var hún alsæl og hamingjusöm með alla sína afkomendur í kringum sig ásamt góðum og hjartfólgnum vinum og tengdafólki. Ég geymi minninguna um síðasta faðmlagið hennar, ilminn af henni og hlýjan vangakossinn, ásamt yndislegum kveðjuorðum í huga mér og rifja þessa stund upp aftur og aftur með þakklæti og trega.

Þó að Abba væri orðin 80 ára þá var hún í mínum huga eins og 65 ára, jafnvel yngri, því hún hafði þvílíka orku og kraft, lífsgleði og dugnað sem mun yngri manneskja en hún hefði verið stolt af. Ég hafði misst mína móðir nýlega eftir að við Bjössi hófum sambúð og var Abba sem mín mamma í þau 10 ár sem við fengum saman. Hjartahlýja hennar gagnvart mér og mínum börnum var einstök, og tók hún mér strax einstaklega vel sem sinni tengdadóttur sem og börnum mínum tveim sem ég átti fyrir, Benedikt Axel og Rebekku, sem hún leit strax á sem sín barnabörn og hafði alltaf áhuga á þeirra lífi og gjörðum eins og hennar eigin. Það var unun að sjá hvað hún dekraði barnabörnin sín með ástúð, hlýju og gjafmildi. Hún virtist eiga endalausa ást að gefa þeim og hvert og eitt þeirra átti sinn stað í hjarta hennar. María Rós dóttir okkar Bjössa bað mig að skrifa bréf til ömmu sinnar eftir að hún fékk þær fréttir að amma Abba væri dáin, það var hennar aðferð til að tjá sig:

„Elsku amma. Okkur þykir rosa vænt um þig og við söknum þín mikið. Og þú ert best. Þú ert besta amma í heimi. Þú ert alltaf svo góð við mig og gefur mér rosa mikið af gjöfum og ég á eftir að sakna þín. Við söknum þín. Þín María Rós.“ Bréfið myndskreytti hún svo með hjarta og brosköllum. Þetta bréf fær að fara í kistu ömmu.

Öbbu verður mjög sárt saknað af allri fjölskyldunni og þó sérstaklega af eiginmanni sínum, þar sem hún hefur verið hans haldreipi í veikindum hans síðustu ár. Ég bið Guð að styrkja alla hennar ástvini og vil jafnframt minna á orð Spámannsins; „Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“

Þeir segja þig látna, þú lifir samt

og í ljósinu færð þú að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá litlu hjarta berst lítil rós,

því lífið þú þurftir að kveðja.

Í sorg og í gleði þú senda munt ljós,

sem að mun okkur gleðja.

(Guðmundur Ingi Guðmundsson)

Minning þín verður ljós í lífi okkar,elsku Abba.

Þín tengdadóttir,

Regína Vilhjálmsdóttir.

Amma, amma var konan sem gat allt, amma var konan sem var alltaf til staðar, amma var ennþá bara 25 ára. Hún kleif upp hæðir og hóla fyrir minnstu hluti, hún sem var alltaf svo dugleg. Þessi kona var með eindæmum mögnuð, hún gerði alltaf allt sem hún gat og gott betur en það. Að gefast upp var ekki til í hennar orðabók.

Alltaf þegar eitthvert okkar var í vondu skapi var hún vön að segja „teldu upp að 10, það virkar“ en ekkert okkar trúði henni, við litum á þessa „teldu upp að 10-reglu“ sem algjöra þvælu.

Hún gerði alltaf gott úr öllu. Það er ekki hægt að gleyma konu eins og þessari, minning hennar mun lifa í hjörtum allra sem þekktu hana og hún mun lifa þar að eilífu.

Við erum enn að bíða, bíða eftir að hún hringi heim á kvöldin til að segja okkur að fara að sofa snemma eða athuga hvort við höfum ekki náð að vakna í skólann um morguninn. Við erum enn að bíða eftir að hún komi heim til að gagnrýna ruslið í herbergjunum okkar og biðja okkur að vera góð við mömmu. Okkur leiddist þetta allt á meðan hún var hér, en ég er orðin hrædd um að við séum öll farin að sakna þess, það er allt frekar einmanalegt án þessara áhyggna.

Hún átti aldrei slæma daga (samkvæmt henni), það var alltaf allt eins og það átti að vera. Hún var nú bara 25 ára svo afhverju ætti eitthvað að vera að?

Það var alltaf svo gott að koma til hennar og fá nammi og setjast við eldhúsborðið og spila við hana, hún leyfði okkur líka alltaf að vinna. Já við munum svo sannarlega sakna hennar, konunnar sem var okkur til skammar út í búð þegar hún leitaði að vörum á tilboði eða afslætti til að kaupa, sem keypti sokka handa nýja kærastanum í fjölskyldunni til að bjóða hann velkominn, konunnar sem taldi upp Hafnfirðingabrandara fyrir framan vinkonurnar og vinina og hló svo ein.

Það var alltaf svo gott að koma og kúra hjá henni yfir nóttina, það var sko dekrað við okkur þá. Hún bað alltaf faðir vorið og tvær aðrar stuttar bænir fyrir svefninn og alltaf fannst okkur það tilgangslaust en gerðum það samt með henni.

Amma hafði endalausar sögur að segja, sögur frá því mamma var lítil, sögur af mömmu sinni og pabba sem við fengum aldrei að kynnast, sögur af gömlum vinkonum sem gerðu eitthvað vandræðalegt á almannafæri. Amma var full af sögum og alltaf fannst henni jafn gaman að segja frá þeim. Oft skáldaði hún sögur, ég man eftir sögunni sem hún las fyrir mig þegar ég var yngri frá lífinu í himnaríki, það var nú meiri draumaheimurinn. Einn daginn mun hún koma til mín í draumi og segja mér hvort sagan sé sönn eða ekki.

Það er ekki auðvelt að kveðja, kona eins og þessi á skilið góða kveðju, hún á skilið endalausa rafræna kossa og faðmlög, sem hún fær. Hvíldu í friði, elsku amma.

Sandra Karen, Kristófer Leví og Lilja Rún.

Elsku besta amma mín, ég man þegar ég gisti hjá þér allar nætur, það var svo gott. Þú gafst mér alltaf nammi og gos, þú gafst mér alltaf allt sem ég vildi og gerðir meira en þú gast. Þú hafðir alltaf allt svo fínt og sagðir mér alltaf að hafa hreint í herberginu mínu.

Þú sagðir mér sögur síðan þú varst lítil, svo baðstu alltaf bænirnar með mér, þú baðst alltaf um handleggi og það bara ef ég væri að sækja eithvað og koma svo aftur. Ég sakna þess að fá knús á hverjum degi og fá svo alltaf að spila. Heyra á hverjum degi hvað þér þykir vænt um mig. Ég var ekki tilbúin að missa þig, þú varst alltof góð að ég vildi aldrei fara frá þér, ég elskaði þig svo heitt, þú varst mín besta amma, ég gat ekki gert neitt annað en að vera hjá þér öll kvöld, þú sýndir mér og kenndir mér svo margt. Takk fyrir allt elsku besta amma mín. Hvíldu í friði.

Kveðja,

Álfheiður Birta.

Í dag verður til moldar borin frænka mín, Álfheiður, sem ætíð var kölluð Abba á meðal ættingja og vina. Hún var fædd á Patreksfirði og ólst þar upp hjá góðum foreldrum og stórri móðurfjölskyldu sem bjuggu á símstöðinni. Systkinin á stöðinni voru ellefu talsins, móðir hennar elst og mín yngst. Barnabörnin voru lengi vel bara tvö, systkinin Abba og Dengi.

Á mínum yngri árum dvaldi Abba oft á heimili foreldra minna þegar hún kom til Reykjavíkur. Mér er sérstaklega minnisstæð ein heimsóknin. Við deildum saman herbergi og er ég vaknaði að morgni sá ég glitta á trúlofunarhring á hendi frænku minnar. Þar með var Jakob kominn til sögunnar, það var gæfuspor þeirra beggja og upphaf að farsælu og góðu hjónabandi alla tíð. Þau settust að á Ólafsfirði, þar sem Jakob gerðist rafveitustjóri, og hafa búið þar alla tíð. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að bærinn hafi verið heppinn að fá þetta góða og trausta fólk, þau unnu staðnum og vildu hag hans sem bestan.

Systkinabörn þeirra Öbbu og Jakobs; Örn, Ásta og Jónas, dvöldu hjá þeim í lengri eða skemmri tíma. Þau tóku einnig þrjú kjörbörn Sigurbjörn, Hafstein og Ruth. Börnin voru þeirra ríkidæmi og barnabörnin, sem eru orðin 10, voru þeim miklir gleðigjafar.

Abba hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og lét sig ekki muna um að fara til Reykjavíkur, panta sér tíma hjá ráðamönnum ef henni fannst á hallað. Sérstaklega er henni ætíð þökkuð umhyggjan sem hún sýndi móðursystur okkar, Gurru. Abba fór aldrei til útlanda en undi ávallt glöð við sitt heima á Ólafsfirði. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja, þar var ætíð gestkvæmt og má segja að heimilið hafi legið um þjóðbraut þvera.

Hugur minn er hjá Jakobi, sem nú dvelur að Hornbrekku. Hann sér að baki sínum góða lífsförunaut. Honum og börnunum sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur. Að lokum vil ég gera orð systur minnar að mínum: „Hún Abba var með svo stóran faðm.“

Ása Hanna Hjartardóttir.

Álfheiðar Jónasdóttur er gott að minnast. Ávallt var eins og maður hefði farið í gær þegar hún tók á móti manni, en samt kominn um svo langan veg og seinfæran að maður hlyti að vera aðframkominn af hungri og vosi.

Jakob föðurbróðir minn var gæfumaður að eiga hana og vissi það vel og lét hana stýra því sem hún vildi. Slíkar konur hafa reynst okkur frændum mörgum vel, enda stundum kallaðar Álfheiðar þegar okkur þykir sérlega mikið í lagt.

Hún bjó nafna og börnunum þeirra gott atlæti og var öll glóandi af umhyggju og hluttekningu í gleði og sorg, jafnvel svo að henni kvað ráðlegast að vera ekki of nærri þegar þeir bræður kepptu í fótboltanum. Hún hvatti þau og aðstoðaði og lét ekki af því þótt þau færu að heiman og náði örmum um þau allt suður í Reykjavík og lengra ef því var að skipta.

Ég kom til þeirra Öbbu og Jakobs um páska og endranær þegar ég var í skóla á Akureyri og fékk viðtökur af þeim báðum sem seint verða fullþakkaðar. Ég minnist sérstaklega fertugsafmælis nafna sem haldið var með annáluðum myndarbrag. Ég var beðinn um að koma með drykkjarföng og þótti óreyndum nafni ætla að gera vel við menn í drykk, en svo kom í ljós að hann var löngu búinn að efna í veisluna, vildi bara vera viss um að hafa nóg. Eftir þessu voru tertuflákar Álfheiðar um allar hillur og uppslegin borð í bílskúrnum sem okkur Ödda frænda var stranglega bannað að snerta meðan við værum að blanda bollurnar. Og þótt við hefðum etið svo sem við höfðum lyst á, og hún gat verið mikil eins og stundum sannaðist, þá hefði ekki séð högg á vatni.

Systur mínar, Martha og Hera, minntu mig á það hve jólagjafirnar frá þeim Öbbu og Jakobi voru tilhlökkunarverðar og gaman þegar þau komu vestur á sumrum á dögum barnæsku okkar á Bíldudal.

Seinna þegar við Auður komum við hjá þeim með strákana okkar voru viðtökurnar eftir þessu og Daníel okkar, sem hefur legið þar í landi löngum vegna uppruna Völu sinnar á þeirra slóðum, hefur á sama hátt notið dálætis þeirra og þau öll sem honum fylgja.

Ég skil að nafna muni þykja sól af himni núna og langnætti. Sigurbjörn, Hafsteinn og Rut eiga um hana minningar um gleðileg jól þótt ljómi þessara verði minni. En það mun stöðugt birta af eilífri sól elskunnar sem alla vill baða birtu sinni og hlýju. Undir henni skulum við safnast saman seinast öll. Í ljóma hennar hugsum við til Álfheiðar og þökkum líf hennar. Kveðjur frá Auði minni, systrum mínum og okkur öllum.

Jakob Ágúst Hjálmarsson.

Kær vinkona okkar í Ólafsfirði er látin, Álfheiður Jónasdóttir. Margir munu minnast hennar og notalegra stunda á heimili hennar í Aðalgötu 25 með kaffi og meðlæti í eldhúsinu eða stofunni. Þar komu vinir saman, sumir á hverjum morgni til að spjalla og vera samvistum við þessa konu sem hafði svo mikla hjartahlýju og ljúfa nærveru og leit á þá eins og þeir væru úr fjölskyldunni. Úr varð lítið samfélag sem varð jafnvel nánara heldur en margir ná að öðlast heima hjá sér í venjulegum stórum eða smáum fjölskyldum. Álfheiður var þar í essinu sínu og var eins og hún lifði og hrærðist fyrst og fremst á því að láta fólki líða vel í kringum sig, spjalla við það og láta það finna að einhver kærði sig um það og áhuga á að deila með því gleði og þrautum lífsins.

Abba, eins og við vinir hennar kölluðum hana, fæddist og ólst upp á Patreksfriði og eiginmaður hennar í Bíldudal. Þau fluttust ung til Ólafsfjarðar árið 1952, en þá gerðist Jakob rafveitustjóri þar. Þau áttu fyrst heima á Brekkugötu 19 í húsi Gunnu frænku og Gríms Bjarnasonar. Þær fjölskyldur urðu strax afar nánar. Við Rúna nutum þess að vera heimilisvinir þeirra eftir að við komum í Ólafsfjörð árið 1960. Við vorum tekin ljúflega inn í vinasamfélagið. Það var sérstök upplifun að kynnast því hvernig þau urðu eiginlega meiri Ólafsfirðingar en við hin, sem höfðum alist þar upp, hvað þau tóku virkan þátt í að berjast fyrir framfaramálum í bænum. Jakob varð bæjarfulltrúi og haslaði sér fljótt völl í forystusveit kaupstaðarins. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir á þjóðmálum og sveitarstjórnarmálum. Abba var enginn eftirbátur hans í þeim efnum, hélt fast á sínum málstað. Hún var mikil sjálfstæðiskona, en fór aldrei í manngreinarálit á pólitíska sviðinu. Það var hins vegar einstaklega gaman að því hvað hún var mikil keppnismanneskja í pólitíkinni eins og knattspyrnunni. Það fór ekki á milli mála að hún studdi Leiftur á knattspyrnuvellinum né heldur hvar hjarta hennar sló í stjórnmálunum. Á kosningadag var oft mannmargt á heimili þeirra Öbbu og Jakobs. Það var gaman að finna spennuna og brennandi áhugann á mönnum og málefnum. Þá var ekki slegið af gestrisninni og höfðingskapnum, sem einkenndi þau bæði.

Abba var afar heppin og farsæl í einkalífi sínu. Þau Jakob voru samhent að búa sér og sínum notalegt heimili. Þau voru börnum sínum, Sigurbirni, Hafsteini og Rut einstakir foreldrar. Það var stórkostlegt og lærdómsríkt að sjá hvað þau umvöfðu þau. Nú er mikill harmur að þeim öllum kveðinn og ekki síst Jakobi, sem er orðinn heilsulítill og dvelst á Hornbrekku. Við Rúna sendum þeim og öllum vinum Öbbu innilegustu samúðarkveðjur. Við biðjum góðan Guð að blessa okkur öllum minningu Álfheiðar Jónasdóttur.

Guðrún (Rúna) og Lárus Jónsson.

Hún Abba mín er dáin. Þessi staðreynd er eins og þungur steinn í hjarta mínu. Hún sem alltaf var svo dugleg, hún sem ég gat alltaf leitað til í blíðu og stríðu. Hún gaf mér ráð og kjark í öllum raunum. Þegar börnin mín voru veik voru þau vön að segja:„Getum við ekki bara hringt í Öbbu?“ Og alltaf kom Abba. Hún reyndist mér ómetanlegur vinur, sem besta systir, og var frá fyrstu kynnum hluti af minni fjölskyldu.

Ég var unglingur þegar Abba flutti hingað í Ólafsfjörð og kynntist ég henni fljótt. Við unnum mikið saman við bakstur og matargerð, en það var hennar uppáhald. Hún kenndi mér mikið í þeim efnum og þegar ég fór að læra hárgreiðsluna kom Abba mér til hjálpar og kom mér á samning hjá móðursystur sinni, Mörtu. En systurdóttir hennar var nýkomin úr námi frá Bandaríkjunum og setti upp stofu á Laugaveginum. Þar vann ég í fjögur ár. Allt vildi Abba gera fyrir mig.

Álfheiður, eins og hún hét fullu nafni, var frábær móðir og amma. Hún bjó fjölskyldu sinni fallegt heimili og var höfðingi heim að sækja, enda gestagangur mikill hjá henni alla tíð. Þau hjónin áttu marga góða vini og oft var þröngt setið við eldhúsborðið. Eins voru vinir hennar ávallt velkomnir og gengu þar út og inn. Hún átti alltaf góðar kökur og bauð í svanga munna.

Eftir að Jakob, maður hennar, veiktist hugsaði hún um hann af mikilli alúð alveg fram á síðasta dag. Það var hennar lífsviðhorf að halda áfram meðan kraftarnir leyfðu. Hún glímdi við sín veikindi af æðruleysi – ætlaði ekki að láta undan en sjúkdómurinn hafði betur.

Við kveðjum elsku Öbbu með djúpri virðingu og kæru þakklæti. Hennar er sárt saknað. Nú hvílir hún í faðmi frelsarans, guð blessi hana og varðveiti. Elsku Jakob, Bjössi, Hafsteinn, Rut og fjölskyldur, guð styrki ykkur í sorginni og blessi minningu einstakrar eiginkonu, móður og ömmu.

Guðrún Jónsdóttir og fjölskylda.

Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið bezt af sléttunni.

(Úr Spámanninum)

Kær vinkona er látin. Vinskapur okkar Öbbu hófst strax þegar ég flutti til Ólafsfjarðar fyrir 43 árum. Eiginmenn okkar voru vinir og við vorum nágrannar öll þessi ár. Fyrst í Ólafsveginum, þar sem nokkur hús voru á milli okkar og síðar fluttum við í Aðalgötu og bjuggum í húsunum nr. 25 og 27 í yfir 30 ár. Það var stutt að skjótast á milli húsa í kaffi og spjall. Abba var höfðingi heim að sækja, gestrisin með afbrigðum og borð alltaf hlaðin kræsingum. Í mörg ár voru nokkrir vinir þeirra hjóna fastagestir í morgunkaffi og ef einhver ekki mætti á tilsettum tíma var hringt og spurt hvort viðkomandi væri lasinn. Það þurfti góða og gilda ástæðu fyrir því að mæta ekki í morgunkaffið! Abba var alltaf heilsuhraust en síðastliðið ár hefur verið henni erfitt. Hún ætlaði sér að sigrast á þessum veikindum og stóð á meðan stætt var, en maðurinn með ljáinn hafði betur.

Við leggjum blómsveig á beðinn þinn

og blessum þær liðnu stundir

er lífið fagurt lék um sinn

og ljúfir vinanna fundir

en sorgin með tregatár á kinn

hún tekur í hjartans undir.

Við þökkum samfylgd á lífsins leið

þar lýsandi stjörnur skína

og birtan himneska björt og heið

hún boðar náðina sína

en Alfaðir blessar hvert ævinnar skeið

og að eilífu minningu þína.

(Vigdís Einarsdóttir)

Að leiðarlokum skal þökkuð áratuga vinátta og samfylgd.

Elsku Jakob, Bjössi, Hafsteinn, Ruth og fjölskyldur. Ég flyt ykkur hugheilar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu mætrar konu.

Klara.