Sigurður Bjarnason fæddist í Vigur í Ísafjarðardjúpi 18. desember 1915 og ólst þar upp. Hann lést í Reykjavík 5. janúar 2012. Foreldrar Sigurðar voru Bjarni Sigurðsson, f. 24.7. 1889, d. 30.7. 1974, hreppstjóri í Vigur, og k.h., Björg Björnsdóttir, f. 7.7. 1889, d. 24.1. 1977, húsfreyja. Sigurður var elstur sex systkina. Systkini Sigurðar: Björn Bjarnason, f. 31.12. 1916, d. 20.10. 1994, bóndi í Vigur; Baldur Bjarnason, f. 9.11. 1918, d. 8.7. 1998, bóndi, oddviti og hreppstjóri í Vigur; Þorbjörg Bjarnadóttir, f. 16.10. 1922, d. 7.1. 2006, fyrrv. skólastjóri Húsmæðraskólans á Ísafirði; Þórunn Bjarnadóttir, f. 14.7. 1925, kennari, búsett í Reykjavík. Sigurlaug Bjarnadóttir, f. 3.7. 1926, kennari og fyrrv. alþm., búsett í Reykjavík. Sigurður kvæntist 5.2. 1956 eftirlifandi eiginkonu sinni, Ólöfu Pálsdóttur, f. 14.4. 1920, myndhöggvara. Hún er dóttir Páls Ólafssonar, útgerðarmanns og ræðismanns, og k.h., Hildar Stefánsdóttur húsmóður. Börn Sigurðar og Ólafar eru Hildur Helga, f. 8.8. 1956, sagnfræðingur og blaðamaður í Reykjavík og er sonur hennar Óðinn Páll, f. 12.4. 1994; Ólafur Páll, f. 13.6. 1960, bókmenntafræðingur, skáld og kvikmyndaleikstjóri. Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1941 og lauk framhaldsnámi í lögfræði í Cambridge á Englandi 1945. Sigurður var ritstjóri Vesturlands 1942-59, ritstjóri Stefnis 1950-53, blaðamaður við Morgunblaðið frá 1941, stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins frá 1947 og aðalritstjóri blaðsins 1956-69. Hann var alþm. Norður Ísafjarðarsýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1942-59, varaþm. 1959-63 og alþm. Vestfjarðarkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1963-70. Hann var forseti neðri deildar Alþingis 1949-56 og1963-70. Sigurður var skipaður sendiherra Íslands í Danmörku 1970-76 og jafnframt á Írlandi, í Tyrklandi og fyrsti sendiherra Íslands í Kína, var sendiherra í Bretlandi 1976-82 og jafnframt Írlandi, Hollandi og Nígeríu. Hann starfaði í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík 1982-85, var sendiherra á Kýpur frá 1983 og á Indland, Kýpur og í Túnis 1983-85. Sigurður vann mikið að heimkomu handritanna til Íslands sem sendiherra Íslands í Danmörku. Sigurður var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 1938-39, var formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1941-42, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar 1946-50, formaður Blaðamannafélags Íslands 1957-58, og formaður Norræna blaðamannasambandsins 1957-58, var stjórnarformaður menningarsjóðs blaðamanna 1946-62, sat í Útvarpsráði 1947-70 og var formaður þess 1959, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 1953-59 og 1963-70, og var einn af forsetum ráðsins 1953-56, 1958-59 og 1963-70, sat í Þingvallanefnd 1957-70 og var formaður Norræna félagsins 1965-70. Sigurður var formaður utanríkismálanefndar Alþingis um skeið, var skipaður í undirbúningsnefnd löggjafar um þjóðleikhús 1947, sat í endurskoðunarnefnd laga um skipun prestakalla og endurskoðunarnefnd íþróttalaga 1951, var kosinn í milliliðagróðanefnd 1951, í úthlutunarnefnd atvinnuaukningarfjár 1959-60, sat í úthlutunarnefnd listamannalauna 1961-66 og í stjórn Atvinnubótasjóðs, síðar Atvinnujöfnunarsjóðs 1962-70, skipaður í nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipan ferðamála á Íslandi 1962 og í endurskoðunarnefnd hafnalaga 1966, í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis 1966 og skipaður í endurskoðunarnefnd laga um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis 1968. Hann sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1960-62. Sigurður skrifaði fjölda tímarits- og blaðagreina ásamt útvarpserindum um þjóðleg og söguleg efni. Hann var sæmdur fjölda orða og heiðursmerkja og sýndur annar sómi í viðurkenningarskyni fyrir margháttuð opinber störf sín. Útför Sigurðar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 30. janúar 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Það kveða við dynkir neðan úr Grænustofu í gamla bænum í Vigur. Hasarleikur okkar frændanna í rúmi afa og ömmu á efri hæðinni snemma að morgni hefur vakið Sigurð frænda sem hafði komið inneftir kvöldið áður þegar við vorum sofnaðir. Hann bankar í loftið til að fá frið til að lúra örlítið lengur enda kominn örþreyttur heim í sveitina sína eftir erfiða vinnutörn. Þetta er ein af mínum fyrstu minningum af frænda sem þá sat bæði á þingi og ritstýrði Morgunblaðinu. Við höfðum þá takmarkaðan skilning á þeim erilsömu og mikilvægu störfum hans.

Þegar Sigurður var kominn á ról var hins vegar stutt í að hann laumaði einhverju góðgæti og hlýjum orðum að okkur frændsystkinunum. Hann kom aldrei tómhentur heim.

Ég kynntist aldrei stjórnmálamanninum Sigurði Bjarnasyni. Ég var of ungur þegar hann stóð í því hanaati, en mér fróðari menn segja hann hafa verið leiftrandi pólitíkus með mikinn kjörþokka. Enda stóð hann í þeirri rimmu að ná rauða bænum Ísafirði af krötunum fyrir íhaldið og tókst það.

Og lengi vel þegar ég heimsótti hann á hjúkrunarheimilið Grund þar sem hann dvaldi við þokkalegan aðbúnað síðustu árin spurði hann mig að því hvernig gengi hjá íhaldinu. Hann var trúr sínum flokki og sínu Morgunblaði sem hann las á hverjum morgni fram á síðustu daga.

Ég kynntist Sigurði best í Vigur en hann þráði alltaf að komast heim í eyjuna sína grænu og notaði hvert tækifæri sem honum gafst til að komast þangað til að efla lífsandann. Þar var hann í essinu sínu. Eftir að hann komst á eftirlaun var hann tíður gestur í Pukru, litlu sumarhúsi sem þau systkinin frá Vigur, sem brottflutt voru, byggðu saman. Þar dvöldu þau oft öll saman og var einatt kátt á hjalla.

Eftir að Sigurður gerðist sendiherra í útlöndum færði hann mér ætíð forláta minjagripi frá ferðum sínum um heimsálfurnar. Ég var í nokkru uppáhaldi hjá honum. Hann kallaði mig dannebrogsmand þar sem langalangafi minn og alnafni frá Kjaransstöðum á Skipaskaga hafði verið sæmdur slíkum titli á öndverðri nítjándu öld. Þannig kom húfa eins og Maó gekk með inn á heimilið þegar hann fór til Kína en hann var fyrsti sendiherra Íslands í því mikla ríki kommúnistanna, ekta skæruliðahúfa frá Nígeríu og forláta stafur frá Rússlandi sem hann kallaði montprik. Mér tókst að véla það út úr honum með því að dást í sífellu að því þar til hann gaf mér það.

Á milli þeirra systkinanna sex frá Vigur var einstakt samband. Það einkenndist af mikilli og djúpstæðri vináttu og virðingu. Systurnar þrjár dekruðu við Sigurð þegar hann dvaldist hjá þeim.  Á milli bræðranna þriggja, Sigurðar, Björns og Baldurs var einnig alveg sérstakt samband. Þeir áttu það til að kíta en það var alltaf góðlátlegt og gekk aldrei lengra. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt styggðaryrði falla á milli þeirra bræðra. Voru þó langt því frá skaplausir menn.

Sigurður var alla tíð hlýr og notalegur í minn garð. Það var alltaf gaman að hitta hann. Oft sá maður bregða fyrir leiftri í augum hans frá gamalli tíð. Hann hafði yndi af því að segja frá og fræða okkur ungviðið um örnefni og annað sem tengdist umhverfinu í Vigur.  Svo lét hann mann þylja upp nöfn á fjöllum og öðrum kennileitum til að vera nú alveg viss um að vísdómurinn hefði síast inn. Hann var einnig gjörsamlega fréttasjúkur og skrúfaði frá gufunni með skruðningum um leið og hann opnaði augun á morgnana. Það var rútína gamla blaðamannsins sem hafði staðið vaktina á Mogganum í áratugi.
Í Vigur stundaði Sigurður jafnan lundaveiðar af kappi á meðan hann gat enn lyft háf og stráði skarfakáli út á hafragrautinn til að efla hreysti sína. Það síðarnefnda þótti okkur unglingunum í kringum hann miður gott á bragðið enda sat hann einn að þeirri krás.
Ég heimsótti hann tvisvar á meðan hann var sendiherra í London og lærði þá nokkuð á heimsborgina. Sigurður tók mig með sér í sendiráðið og svo fórum við og drukkum te á Grosvenor hótelinu þar sem hann stundaði sund sér til heilsubótar á hverjum degi eftir vinnu. Að öðru leyti fékk ég lausan taum í stórborginni enda hafði frændi mikið að gera. Mér var ekki í kot vísað að fá að dvelja í sendiherrabústaðnum hjá Sigurði og Ólöfu Pálsdóttur, eiginkonu hans, enda tóku þau mér bæði opnum örmum og dekruðu við mig á alla lund. Það voru skemmtilegar og fróðlegar heimsóknir.
Sigurður var mikill bókamaður, sílesandi og sívitnandi í alls konar bókmenntaverk, þjóðlegan fróðleik og sagnfræði. Hann hafði sérlega gaman af  sögum Jóns Indíafara sem flakkaði um allan heim og var úr Djúpinu líkt og hann sjálfur. Þá fór hann oft með vísur og ferskeytlur sem kættu sinnið og lifa í minningunni.
Ég heimsótti hann síðast á afmælisdaginn hans í desember. Þá var mikið farið að draga af honum. Ég fékk hann samt til að drekka með mér kaffi en heyrnin var eiginlega farin og sálin orðin þreytt. Eftir kaffið vildi hann komast aftur í bólið sitt og sofna. Um leið og þeim áfanga var náð lauk hann augunum aftur og sofnaði værum svefni. Þannig kvaddi ég hann, friðsælan og fallegan.
Ég votta Ólöfu Pálsdóttur, eftirlifandi eiginkonu hans og börnum hans Hildi Helgu og Ólafi Páli, innilega samúð mína.

Bjarni Brynjólfsson.